Ef það er eitthvað sem ég hef lært af því að vera í prestskap, vera alkóhólisti og með geðröskun er að ég er ekki góð manneskja. Þegar fólk segir við mig að ég sé nú virkilega góð manneskja verð ég hreinlega skelfingu lostin. Ef mér er hins vegar þakkað fyrir góða þjónustu eða nærveru eða skrif þá verð ég auðvitað glöð og þakklát. Það er þó ekki prestskapnum né alkólhólismanum eða geðröskuninni að kenna að ég er ekki góð heldur hefur þrenningin aðeins opnað augu mín betur fyrir þeirri staðreynd að ég er alls ekki hreinni né betri en annað fólk. Ég hef til dæmis beitt manninn minn andlegu ofbeldi með því að þegja þunnu hljóði lengur en rétt og sanngjarnt er að gera, haldið honum í spennu með skapsveiflum og hroka, ég hef líka gerst sek um að vanrækja börnin mín, til dæmis þegar mér fannst mikilvægara að drekka vín en að eyða heilbrigðum tíma með þeim sem ýtti án efa undir kvíða þeirra og óöryggi. Ég hef logið að fólki, ég hef svikið loforð, ég hef notað annað fólk mér til framdráttar, ég hef niðurlægt með orðum, ég hef talað illa um aðra. Ég er ekki góð manneskja, ég er bara manneskja. Það sem bjargar mér eins og svo mörgum er að ég hef eiinhverka samvisku og tilhneigingu til samkenndar, þess vegna tekst mér að fara í gegnum lífið án þess að valda endalausum bévítans skaða.
Þegar fólk horfir í augu mín og tjáir mér hversu gott það sé og kærleiksríkt og telur síðan upp öll sín góðverk þarf ég því miður oft að klípa mig til þess að fara ekki að hlæja eða hemja kaldhæðnispúkann sem vakir á öxlinni minni svo ég lendi nú ekki upp á kant við allt og alla. Í þessu samhengi finnst mér á margan hátt auðveldast að umgangast börn, gamalmenni og fanga. Börn vegna þess að þau eru enn svo hrá í mennsku sinni og þar af leiðandi laus við klæki að þau fatta ekki hvernig hægt er að sýnast góður þegar maður er það alls ekki, að sama skapi er góðmennska þeirra tær þar sem hún birtist og þess vegna fær maður jafnan sting í hjartað þegar börn segja eitthvað fallegt, það er svo dásamlega satt og hræðilega fyrirvaralaust. Mér finnst líka gefandi og gott að hitta fanga af því að þeir hafa engar hugmyndir um að þeir séu hreinir og þess vegna verða gæðin sem auðvitað búa innra með öllum manneskjum, föngum jafnt sem öðrum að áberandi, fallegum fjársjóði.
Gamalmenni eru síðan alveg hætt að gera ráð fyrir morgundeginum og segja þess vegna bara allt sem þau hugsa svo gagnvart þeim er gott og auðvelt að vita hvar maður stendur.
Þegar ég var að byrja í mínum prestskap var ég alveg hreint yfirmáta snortin af góðmennsku samlanda minn fyrir hver jól. Þá eru allir að hringja í prestinn og bjóða hangikjötsrúllu sem var ofaukið í búrinu eða gömul jólaföt sem börnin voru vaxin upp úr. Ég var hreinlega oft tárvot þegar ég tók á móti þessu og fékk um leið hlutdeild í góðverkinu er ég bar friðþæginguna heim til öryrkja og einstæðra mæðra með kærleiksríkt já næstum mærðarlegt bros á vör. Síðan liðu árin og ég fór að sjá stóra samhengið já þegar öryrkjarnir, einstæðu mæðurnar og fíklarnir héldu áfram að koma í kirkjuna milli hátíða af því að það hefur náttúrlega aldrei verið nein alvöru samstaða um það í samfélaginu að breyta högum þessara hópa, kannski í orði en svo sannarlega ekki á borði. Svo koma bara önnur jól og þá verða auðvitað allir mjög góðir,af því að við erum auvitað öll svo góð og hangikjötslærin taka að berast í stríðum straumum og jólin verða hreinsunareldur samvisku okkar……þar til að ári.
Já það kemur alltaf nýr hreinsunareldur til skjalanna og nú er það umskurður drengja sem er að vísu ekki mjög þekkt fyrirbæri hér á landi en maður lifandi það stendur sko ekki á íslensku þjóðinni að sameinast í góðmennsku sinni og þekkingu, af því við erum náttúrlega svo vön því að setja þarfir barna og ungmenna í forgang í okkar samfélagi. Enda þekkjast varla geðraskanir eða sjálfsskaði meðal íslenskra barna og ungmenna.
Og við tökum hraustlega á málinu, gerum umskurð að glæp svo að foreldrar í gyðingdómi geti nú í alvörunni skammast sín fyrir að níðast á börnunum sínum með hrottalegum skurðaðgerðum í frumbernsku og við látum fangelsa þau ef þau hlunkast ekki til að elska börnin sín á sama hátt og við hér á Íslandi sem erum svo góð og svo hrein og upplýst og kærleiksrík að enginn þarf að líða hér skort né óréttlæti. Og við skulum líka vera svo góð og kærleiksrík að við komum ekki einhverjum kirkjuprellum og vinstri beljum upp með að spyrja hvort gyðingar og múslímar megi vera með í umræðunni um þeirra eigin trúarbrögð og barnauppeldi, af því að við vitum jú betur en þetta lið út í heimi sem leitar enn til töfralækna og trúir á einhverja ósýnilegar verur, að vísu eru nokkrir snillingar þarna í gyðingdómi og Nóbelshafar en við nennum ekki tala um þá. Að lokum, leggjum svo niður kirkjuna sem að byggir boðskap sinn á löngu úreltri bók og hindurvitnum af því að við erum hvort eða er svo hrein og góð frá náttúrunnar hendi já og ósnertanleg í upplýsingu okkar og staðgóðri Google þekkingu.