“Ég er vistmaður á heilsustofnun og trúi á óhefðbundnar lækningar, vinsamlegast hringið á lögregluna.” Ein stærsta blekking mannkyns er líklega sú að halda að dag einn muni vísindin hafa svör við öllu og dauðanum líka. Rökhyggja og vísindi hafa gert kraftaverk á svo ótrúlega mörgum sviðum að það væri hreinlega til að æra óstöðugan að ætla sér að telja það allt upp. Við einfaldlega lifum lengur á þessari jörð vegna vísindanna, við þekkjum heiminn og líka geiminn vegna vísindanna, vísindi skapa frið en reyndar líka ófrið, stundum jafnvel hatur en aldrei ást, vísindin skapa lækningu en ekki beint heilbrigði því heilbrigði er eitthvað stærra og óáþreifanlegra en vísindin ein geta fangað. Hugsa sér, læknavísindin eru þess megnug að flytja líffæri manna á milli, koma fósturvísum fyrir í legi kvenna, græða stofnfrumur í fólk til að lækna ýmsa erfiða sjúkdóma, jafnvel geðsjúkdóma. En talandi um geðsjúkdóma, geðkvilla og hegðunarraskanir, þar eru vísindin helst höktandi af því að viðfangsefnið er óáþreifanlegra og óljósara en annað sem viðkemur heilsu okkar mannanna. Og kannski þess vegna mæta geðsjúkdómar meiri fordómum en aðrir sjúkdómar. Í gegnum aldirnar hefur maðurinn barist um á hæl og hnakka við að beisla geðkvilla með hjálp tækni og vísinda en ekki orðið nándar nærri jafn ágengt með þá og aðra sjúkdóma, hugsa sér að þegar ég var barn var alnæmisóttinn í slíku algleymi að menn vissu ekki hvort bæri að óttast meira alnæmi eða kjarnorkuvána sem vísi að endalokum heimsins. Nú nokkrum áratugum síðar eru hins vegar komin fram lyf sem geta haldið þessum alvarlega sjúkdómi í skefjum.
Nema hvað geðsjúkdómar og ýmsir andlegir kvillar eru vísindunum enn hulin ráðgáta, að vísu hafa ýmis geðlyf komið til sögunnar eins og við þekkjum en fá lyf eru hins vegar jafn umdeild vegna óáþreifanlegrar virkni, það er sem sagt oft erfiðara að meta ávinning geðlyfja en annarra lyfja þótt margir skynji bætta líðan af inntöku þeirra, líkt og undirrituð. Þá er hins vegar alltaf hægt að rökræða hvort um sé að ræða lyfin sjálf eða trúna á virkni þeirra sem ýti manneskjunni upp af botninum, hvort að trúin á virkni lyfjanna geri manneskjuna jákvæðari gagnvart því að takast á við daglegt líf með heilbrigðum lífsstíl og sterkari sjálfsmynd eða hvort lyfin gegni sama hlutverki og insúlin fyrir sykursjúka, komi jafnvægi á líkamann. Og þá erum við eiginlega komin að kjarna þessarar greinar sem er trúin á bata og hið raunverulega heilbrigði manneskjunnar, í hverju er það fólgið?
Hvernig var þetta aftur með hann Jesú og kraftaverkin þegar hann læknaði sjúka og gaf blindum sýn, var hann í alvörunni að velja nokkra einstaklinga af handahófi til að gefa sjón og mátt til að sýna guðlegt vald sitt eða var hann einfaldlega að efla trú þessara einstaklinga fyrir framan annað fólk til að leiða manneskjunni fyrir sjónir mikilvægi þess að vera ábyrg fyrir eigin lífi og heilbrigði, hann sagði nefnilega við alla sem hann læknaði “trú þín hefur læknað þig.” Með kraftaverkunum var Jesús fyrst og fremst að kenna okkur að vera kraftaverk í eigin lífi og annarra, þannig kenni ég fermingarbörnunum þessar sögur, tala um þær sem valdeflingu en ekki eitthvað yfirnáttúrlegt.
Það er svo gríðalega mikilvægt að efla sjálfstæði sitt gagnvart allskonar leiðum til heilbrigðis, hefðbundnum jafnt sem óhefðbundnum. Að beita skynsemi, innsæi og reynslu við að meta ávinning af meðferðum, vera ábyrgur fyrir sjálfum sér því það er ekki bara farsælt fyrir einstaklinginn heldur samfélagið í heild. Það sparar heilbrigðiskerfinu umtalsverðar fjárhæðir og er um leið uppörvandi fyrir yngri kynslóðir, já að við sýnum börnunum okkar að við höfum eitthvert val. Í daglegu lífi utan heilsustofnunnar fer ég stundum og þó alltof sjaldan í Bowentíma, ég veit ekkert hvað þar gerist annað en að ég næ óvenju djúpri slökun og ég veit af þekkingu minni og lífsreynslu að djúp slökun eflir ónæmiskerfið þar sem hún vinnur gegn streitu, þar með er markmiði mínu með Bowentækni náð, ég þarf ekki að vita meira, þarf ekki vísindalegar sannanir eða afsannanir. Ef ég fengi krabbamein myndi ég bæði þiggja lyfjameðferð en líka fara í Bowentíma til að ná slökun af því að krabbameinslyf eru ekki slakandi, þau eru hins vegar mikilvægur hernaður sem hefur um leið heilsufarslegan kostnað í för með sér. Alveg eins og geðlyfin mín, þau hjálpa mér en skerða um leið lífsgæði mín á ákveðnum sviðum, ég met það hins vegar sem svo að hjálpin sé meiri en skerðingin og um það snýst einmitt ábyrgð mín gagnvart eigin heilsu.
Út af stofu kínverska nálastungulæknisins sem að stingur mig tvisvar í viku við þunglyndi og kvíða gekk “sambýlingur” minn héðan af hælinu sem sjálfur er hefðbundinn læknir, ég spurði hvernig honum líkaði meðferðin, hann svaraði: “Þetta er svolítið sérstakt fyrir svona lækni eins og mig en nú er ég bara kominn á þann aldur að ég hef engu að tapa.” Með þeim orðum gekk ég inn, lagðist á bekkinn og hugsaði, ég hef heldur engu að tapa, ég vel að trúa og í þeirri hugsun stakk kínverjinn nál í hausinn á mér líkt og væri ég púði.