„Að skila skömminni“ er líklega sá frasi sem hvað mest hefur snúist í höndunum á okkur undanfarið. Nú vil ég áður en lengra er haldið ítreka að þessar vangaveltur mínar eiga ekki við þegar um ofbeldi á börnum er að ræða, það er að segja þegar fullorðnir beita börn ofbeldi, þá er málið einfalt, hinn fullorðni ber alla ábyrgð, punktur. Mér finnst mikilvægt að taka þetta fram þar sem hin opinbera umræða þróast oft þannig að menn leita fremur leiða til að klekkja á viðmælandanum frekar en að greina umræðuna og rýna í hana til raunverulegs gagns og jafnvel bata. „Að skila skömminni“ hefur í #meetoo byltingunni því miður þróast út í að baða gerendur upp úr skömminni fremur en að halda öllum fullorðnum aðilum ábyrgum gagnvart þeirri áskorun að gera samfélagið okkar öruggara. #Meetoo byltingin fór frábærlega af stað, nafnlausar sögur um yfirgang og markaleysi voru til þess fallnar að varpa raunverulega ljósi á hversu vandinn er víðtækur og án efa hafa margar sögur leitt körlum og konum fyrir sjónir eigið markaleysi í garð annarra.
Ég las margar sögur frá mörgum starfsstéttum og hafði gagn af því, þar áttaði ég mig til dæmis á því að sennilega hef ég oftar en einu sinni kyngt yfirgangi vegna þess að ég hef einhvern veginn trúað því að ég ætti hann bara skilið. Í þessum sögum speglaðist líka ýmislegt úr minni skólagöngu sem hefur náttúrlega alls ekki verið í lagi, samskipti fullorðinna og barns sem í dag væru með réttu skilgreind sem ofbeldi. Ég hef alls ekki þörf fyrir að lista það upp heldur verður það til þess að ég hef meiri samkennd með sjálfri mér í þessum aðstæðum þar sem ég var bara unglingur og átti að geta treyst á velvild og dómgreind mér eldra skólafólks en var í stað þess látin bera óeðlilega ábyrgð aðeins 15 ára gömul. Ég las líka sögur sem að kenndu mér ýmislegt sem ég hreinlega vissi ekki að gæti sært svona mikið, það var mér mjög hollt að lesa, ekki síst sem sálgætir, ég get nefnilega stundum verið fljótfær í orðum. Svo las ég sögur sem voru svo andstyggilegar og ljótar að ég fann reiðina krauma í garð gerandans og hugsaði honum þegjandi þörfina áður en ég fattaði svo að það væri kannski ekki það mikilvægasta við að birtingu þessara frásagna. Þessar nafnlausu #meetoo sögur voru að mínu mati mikil gjöf inn í okkar samfélag og ég skildi þær sem svo að þær væru okkur öllum til vakningar. Ég skildi þær sem svo að við ætluðum ekkert endilega að skila aftur skömminni heldur miklu fremur uppræta hana og eyða henni, að við ætluðum að eyða skömminni þannig að hún hreinlega lenti hvergi og næði því hvergi að gerjast og ala af sér meiri aðgreiningu, andúð og ofbeldi. Ég hélt að #meetoo væri leið til að efla öruggi okkar í samskiptum en í staðinn upplifi ég að allir séu í raun örlítið hræddari og örlítið reiðari og þar með örlítið líklegri til að sýna klærnar. Þetta er auðvitað bara mín upplifun og ekkert annað.