Lesa meiraBarnið "/> Skip to content

Barnið

Hver sem húðlitur þinn er,

dökkur eða ljós

Hvert sem kyn þitt er,

karl, kona eða hán.

Hver sem kynhneigð þín er,

pan, sam eða ei.

Hver sem atvinna þín er,

múrari, mannréttindalögfræðingur.

Hver sem þín pólitík er,

hægri, vinstri.

Hver sem trú þín er,

búdda, kristni.

Hvernig sem heilsa þín er,

góð, slæm eða engin.

Hver sem skólaganga þín er,

löng, stutt eða engin.

Hvernig sem fjölskylda þín er,

samheldin, sundruð eða einn gamall köttur.

Hvert sem þitt áhugamál er,

póker, golf, lestur ljóða.

Hver sem þyngd þín er,

yfir, undir eða samkvæmt BMI.

Hver sem greind þín er,

rökleg, tilfinningaleg, skapandi.

Hver sem þú í raun og sanni ert,

hvaðan sem þú kemur

og hvert sem þú vilt fara

er eitt alveg öruggt,

þú varst eitt sinn lítið barn.

Og af því að þú varst þetta barn

áttu alltaf tengsl við kjarna sálar þinnar.

Guðdómleg tengsl.

Þú átt líka von sem aldrei verður frá þér tekin þrátt fyrir allt og allt, þrátt fyrir vondar ákvarðanir heimskra manna og þrátt fyrir þína eigin hrösun.

Barnið er von þessa heims.

Svo hvernig má það vera að í næsta vitfirrtri veröld skuli það vera barnið í sinni einlægni, sínu fyrirvaraleysi, jafnvel einfeldni sem kemur okkur til bjargar? Hvers vegna ekki vísindamennirnir okkar, trúarleiðtogarnir, Hollywoodstjörnurnar eða allir Nóbelshafarnir?

Jú það er vegna þess að von þessa heims er ekki í höndum hins sterka, ekki í höndum útvalinna leiðtoga eða fólks með yfirburðaþekkingu, yfirburðagreind, fjármuni eða sterkt tengslanet.

Vonin er fólgin í því að barnið sem þú eitt sinn varst, sem býr enn í kjarna sálar þinnar sé umvafið skilningi og hlýju, kærleiksríkri nánd, áheyrn, aga og uppörvun. Að barninu sé ávallt gaumur gefinn, að það gleymist ekki í öllu þessu brölti okkar, að barnið sé af alefli ræktað með hæfileikum sínum, einlægni og trú, elskað eins og það er, öryggi þess tryggt. Von þessa heims er að bernskan sé varðveitt svo að viskan sé við völd þegar öll vígi loks falla.

 

 

 

Published inHugleiðingar