Lesa meiraAlltaf von "/> Skip to content

Alltaf von

Við fórum nokkrar vinkonur saman til New York um síðustu helgi að heimsækja sameiginlega vinkonu okkar sem þar býr. Á laugardeginum tókum við stefnuna niður að Ground Zero þar sem tvíburaturnarnir stóðu til 11.september árið 2001 þegar tveimur farþegaþotum var flogið á þá með þeim afleiðingum að þeir hrundu og um 3000 manns létu lífið. Við sem erum komin aðeins yfir tvítugt munum mætavel hvar við vorum stödd þegar sá skelfilegi atburður átti sér stað, mér finnst eins og hann hafi gerst í gær enda skelfing af þeirri stærðargráðu sem tekur mörg ár og áratugi að vinna úr og meðtaka. Stundum finnst mér eins og gjörvallur heimurinn hafi aldrei orðið samur eftir þennan atburð, ég veit mætavel að hann verður aldrei samur hjá þeim sem misstu ástvini þennan örlagaríka dag en í raun er eins og eitthvað hafi líka brostið þarna í sálarlífi alls heimsins. Það væri þó einföldun að halda því fram að atburðurinn hafi ekki átt sér neinn aðdraganda í samskiptum þjóða en það kunna stjórnmálafræðingar og sagnfræðingar betur að skýra. Það sem mér finnst hins vegar skipta máli að íhuga er að þennan dag þann 11.sept árið 2001 týndu mæður, dætur, feður, synir, systur, bræður,vinir og vinkonur lífi og heimurinn varð fátækari á svipstundu, lífið varð allt í einu brothættara, tortryggni óx eins og arfi og skyggði á frelsi okkar allra, millilandaflug varð að einskonar geimferðum hvað flækjustig varðar, trúarbrögð urðu skyndilega hættuleg hugmyndafræði eða í besta falli fáviska. Íslam var útmálað sem hryðjuverkatrú og múslímar víða um lönd fundu breytt viðhorf í sinn garð.

En einmitt vegna alls þessa sem hér tíundað er svo magnað að ganga í dag um svæðið þar sem turnarnir tveir stóðu, þar seytlar vatn niður hallandi grunna og sameinast í kyrrlátan ós eilífðar innan um ys og þys borgarinnar, bílflaut, köll og hlátrasköll og kringum vatnið eru nöfn hinna látnu höggvin í stein þar sem þau munu aldrei mást né gleymast. Nú hefur líka nýlega verið opnað safn um atburðinn þar sem sýningargestir eru leiddir um sögusviðið, meira að segja að flaki flugvélanna sem lentu á byggingunum og að slökkviliðsbílum sem notaðir voru til björgunar, að hjálmum og hlífðarbúnaði lögreglu og slökkviliðsmanna sem unnu þrekvirki í rústunum, sumir hreinlega með því að gefa líf sitt. Og síðast en ekki síst er maður leiddur inn í sal þar sem myndir af öllum þeim sem létust er raðað upp á fjóra veggi en í miðju salarins er lítið afmarkað rými þar sem sögur þeirra eru sagðar af handahófi,  já bara sögur af hversdagslífi venjulegs fólks eins og mér og þér.

Áður en ég hélt inn á safnið nýja, flaug að mér sú hugsun hvort að þetta væri akkúrat það sem ég þyrfti á að halda í stuttri vinkonuferð til útlanda, að vera minnt á gegndarlausa þjáninguna, sjálfur presturinn sem alltaf er að mæta henni í starfi. Þá náði hugsunin ekki lengra en svo að ég hélt að svona safn væri hreinlega of mikið eða too much eins og sagt er á frummálinu. Í stuttu máli  reyndist upplifunin þó alls ekki yfirþyrmandi heldur einmitt það sem sennilega allir er muna þennan atburð þyrftu á að halda.

Þrátt fyrir þann sláandi veruleika sem þarna sjást, vídeó, ljósmyndir, parta úr byggingunni, jafnvel heilan stiga sem á þá sögu að hafa komið þeim sem lifðu af til bjargar, þá var einhver merkilega græðsla undir og yfir og allt um kring inn á safninu sjálfu.

En í hverju skyldi sú græðsla hafa verið fólgin? Jú í því að upplifa að áherslan væri fyrst og síðast á minningu þeirra sem létust. Sumir gestanna grétu inn á safninu en maður upplifði þann grát meira sem úrvinnslu í stað angistar eða reiði. Þarna tekst bæði að minna á atburðinn og minnast látinna án þess að það stangist á, það er sumsé minning fólksins sem nær að yfirtaka aðstæðurnar og það þótti mér bæði merkilegt og huggunaríkt fyrir hvern þann sem gengur þarna inn með sínar persónulegu sögur af sorgum og ósigrum ýmiskonar. Safnið nær að skila von, þrátt fyrir allt og allt, þrátt fyrir þennan atburð sem raunverulega umbreytti heimsmynd okkar allra og enginn fær að fullu skilið. Og þarna sannast það að þeir sem standa næst kvikunni og misst hafa mest búa oft yfir náð til að hugga hina, í þessu tilviki eru það íbúar New York borgar. Vissulega verður að rannsaka alla svona atburði ofan í kjölinn til að efla öryggi og varna endurtekningu en það gerist augljóslega ekki með því að hræða mannkynið til tortryggni og sundrungar, það hljótum við að hafa lært á þeim sautján árum sem liðin eru frá atburðinum. Sá tími hefur opinberað okkur enn og aftur þann sannleika að kærleikur, virðing og miskunnsemi skapa líf og viðhalda því á meðan tortryggni, fordómar og hroki eyða og deyða.

Það er svo merkilegt með lífið, að alveg sama hver áföllin eru og af hvaða stærðargráðu, þá er alltaf von. Þá hugsun tók ég með mér út af safninu um hryðjuverkin 11.september 2001, að lífið er máttugra en dauðinn og Guð lifir ekki bara með okkur heldur í okkur. Ef maðurinn væri bara frumuklasi hefði hann örugglega með tímanum byggt stærðarinnar verslunarmiðstöð eða verðbréfahöll þar sem turnarnir stóðu, þetta er jú sennilega ein flottasta og dýrasta lóðin á Manhattan, en af því að við erum einmitt svo miklu meira, miklu meira en bara hold okkar og blóð þá mun aldrei neitt annað rísa á þessum stað, hann er og verður helgaður minningu þeirra sem létust. Og hugsið ykkur, eins og peningar virðast hafa mikil völd í okkar veröld, þá verða þeir aldrei sterkari en lífið. Guð lifir í okkur og þess vegna verður þjáningin ekki niðurstaðan. Manneskja hefur getu til að rísa upp úr öllum aðstæðum. Það er bara þannig.

Published inHugleiðingar