Lesa meiraHroki veit á hrun "/> Skip to content

Hroki veit á hrun

Ég get ekki annað en talað um hógværðina, hún hreinlega öskrar á mig þessa dagana að fjalla um sig þótt líklegra væri raunar að hún myndi frekar hvísla og segja mér þannig að staldra við og íhuga ráð mitt.

Tengdafaðir minn sálugi var einn hógværasti maður sem ég hef kynnst, ég var mjög lengi að venjast hógværðinni hans í upphafi vega um leið og hann átti oft fullt í fangi með að meðtaka framhleypni mína og ríka tjáningarþörf. Svo þrátt fyrir að virðing og væntumþykja hafi strax einkennt samskipti okkar þá tel ég næsta víst að hann hafi oft dæst yfir mér og minni forvitni og gassagangi meðan ég pirraðist yfir gegndarlausri hógværð hans og lítillæti. Það mátti aldrei hrósa honum og helst ekki spyrja hann um hans hagi, ég aftur á móti flutti honum reglubundar  fréttir af mínu lífi, í fortíð og nútíð þótt aldrei muni ég til þess að hann hafi spurt. Það eina sem hann spurði mig að í lifanda lífi var hvort mig vanhagaði um eitthvað, kaffi, mat, barnapössun. Honum hefði ekki geta verið meira sama hvort ég birtist á sjónvarpsskjánum eða gæfi út bók en ef hann hefði vitað að ég væri svöng þá var það allt önnur Ella. Ég hef heldur aldrei kynnst manni jafn undarlega lítið uppteknum af sjálfum sér, ef ég hefði ekki orðið ástfangin af syni hans þá tel ég næsta víst að maður eins og tengdafaðir minn hefði ekki orðið partur af lífi mínu. Nú þegar hann er farinn og ég lít til baka sé ég hvað hann hefur í raun haft mikil áhrif á mig og hvað það var gott fyrir mig og heillavænlegt að verða tengdadóttir hans. Ég fer reyndar ekki ofan af því að hann hefði mátt taka meira hrósi og kannski leyfa sér að vera stundum svolítið montinn því hann var mörgum góðum hæfileikum gæddur og hafði alveg efni á því að taka sér stærra rými í samfélaginu. Ég held líka að sú hógværð sem Jesús frá Nasaret talar um sé kannski ekki fólgin endilega í því að þegja um hæfileika sína og getu. Ég held að hógværðin sem Jesús er að tala um  sé hógværðin sem skapar samstöðu og réttlæti. Ég hugsa að Jesús hafi nú bara pínulítið gaman af manni þegar maður er svolítið drjúgur með sig, svona eins og foreldri sem fylgist með litlu barni segja frægðarsögur af leikskólanum. Að sama skapi held ég  að Jesús hafi alveg ótrúlega litla þolinmæði fyrir því þegar við tökum okkur forréttindastöðu í samfélaginu, í raun held ég ekkert um það, ég er sannfærð. Jesús varð ekki oft reiður samkvæmt guðspjöllunum, hann var ekki að hneykslast á fólki eða mannlegum breyskleika, firrtist ekki við þótt einhver væri lauslátur eða jafnvel þjófóttur, þá settist Jesús niður og átti samtal við viðkomandi aðila um hvernig hann gæti komið sjálfsmynd sinni í heilbrigðan farveg, sjálfum sér og samferðarmönnum til blessunar.

Jesús var ekki skammari, skilaði ekki skömm og ótta til annarra, varð ekki reiður yfir veikleika eða vanmætti manneskjunnar en hann varð reiður og raunar bálreiður ef menn tóku sér forréttindastöðu í samfélaginu. Jesús var svo reiður við víxlarana í musterinu að hann henti til borðum og stólum. Jesús varð líka snöggreiður við faríseana í samkundunni þegar maður með visna hönd kom til hans að leita lækninga og farísearnir fygldust með hvort Jesús myndi brjóta hvíldardagsboðorðið og lækna manninn á hvíldardegi, þeir ætluðu sko að kæra hann, það alveg hlakkaði í þeim. Þá spyr Jesús þá hvort heldur sé leyfilegt að gera gott eða gera illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða? Og þeir þögðu og Jesús leit á þá með reiðisvip, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra. Því hvað voru farísearnir raunverulega gera? Jú þeir voru að vernda forréttindastöðu sína í samfélaginu með því að halda hinum veika í vanmáttugum aðstæðum vegna þess að ef heill og heilbrigði fólks færi að vera lögmálinu sterkara þá var eins víst að staða elítunnar myndi breytast og staða borgaranna jafnast. Það var forréttindahagur faríseanna að halda ákveðnum hópum niðri, láta fólk verða vonlaust í sínum aðstæðum, þannig héldu þeir völdum, þannig gátu þeir haldið áfram að vanda um fyrir þeim sem stóðu höllum fæti. Og þetta þoldi Jesús ekki og þolir ekki enn. Hroki veit á hrun.

Við lifum í heimi þar sem að farísear stjórna enn, lifum í heimi þar sem það er þeirra hagur að halda ákveðnum hópum niðri, veikum, fátækum og smáðum.

Á tímum kalda stríðsins var heiminum skipt upp í þrennt, fyrsta, annan og þriðja heim og síðan þá hefur þriðji heimurinn verið holdgervingur fátæktar, í dag erum menn jafnvel farnir að tala um fjórða heiminn þar sem örbirgðin er algjör, þannig að ekki hefur okkur farið mikið fram í að útrýma fátækt. Í hverju landi eru síðan þessi þrjú stig stéttskiptingar þar sem efri stéttin virðist einhvern veginn eiga allt og mega allt, miðstéttin þegir í von um að krafla sig ofar og lægri stéttir samfélagsins líða. Svona er þetta líka hér á landi og þess vegna verður auðvitað alltaf reglulega hrun, ójafnrétti er óguðlegt, þegar kærleikurinn er ekki hafður með í ráðum, þá hrynur allt um síðir. Kærleikurinn verður líka reiður, hrindir til borðum og stólum en reiði kærleikans er réttlát, reiði kærleikans er alltaf og undantekningarlaust í þágu farsælla breytinga.

Hóværðin sem Jesús boðar er hógværð hins réttláta manns, manneskjunnar sem trúir því í raun að allar manneskjur séu jafnar og að enginn eigi að njóta forréttinda umfram annan. Þegar ég hugsa um tengdaföður minn sáluga og skilningsleysi mitt á lítillæti hans kemur líka upp í hugann hversu mikil fyrirmynd hann var í réttlætiskennd sinni, hann fyrirleit hagsmunapot og stéttskiptingu, hann hafði nefnilega lifað slíkt sem drengur vestur á Ísafirði þar sem ákveðnir aðilar höfðu alltaf forgang til vinnu þegar litlu vinna var að fá en allir þurftu auðvitað að borða. Ég fann að þetta sat í honum, mótaði hann.

Tengdapabbi lést á þessu ári úr krabbameini, um leið og hann greindist sagði hann „af hverju ekki ég eins og aðrir?“ Alveg trúr sinni sannfæringu um að allir væru jafnir í lífi og dauða. Það var ekki erfitt að leggja honum til krafta á síðustu metrum veikindanna, allt var þakkarvert að hans mati og ekkert sjálfsagt.

Þá mátti ég meira að segja yfirheyra hann svolítið um uppvöxt hans og ævi, hann var hættur að hrista hausinn yfir gegndaralausri forvitni minni, hógværð hans var af dýpri gerðinni, ég sé það núna. Og almáttugur minn ef hann vissi að ég hefði samið þessa prédikun um hann.

 

 

Published inHugleiðingar