Ég á aldraða móður sem segir mér oft sömu sögurnar aftur og aftur. Það athyglisverða er að henni tekst alltaf að segja þær aftur og aftur eins og hún sé að segja þær í fyrsta sinn. Pabbi hennar var nákvæmlega eins, fæddur 1901, loftskeytamaður á gömlu fossunum og sigldi í stríðinu, hann sagði manni sömu sögurnar aftur og aftur og alltaf eins og þær væru alveg glænýjar af færibandinu. Ég hitti hann reyndar ekki eins oft og mömmu þannig að í sjálfu sér kom það ekki að sök. Það gerir það heldur ekki með mömmu. Í sumar hóf hún eina af sínum stórbrotnu frásögum af bernskubrekum okkar systkinanna þegar ég byrjaði eitthvað að ranghvolfa augunum og dæsa, snarþagnaði þá sú gamla, horfði á mig með bland af sársauka og undrun í augum og sagði „viltu frekar að ég sé að tala um hægðir og heyrn á gamalsaldri, gigt og kæfisvefn?“
Ég varð að vonum kjaftstopp, þessi kerling, hún móðir mín er ekki ættuð þarna vestan úr Dýrafirði fyrir ekki neitt, hún nennir engu kjaftæði, hún vill bara segja sögur og heyra almennilegar sögur. Ég er svo sem líka alin upp við það að sitja minnst klukkutíma eftir hverja kvöldmáltíð við eldhúsborðið á æskuheimili mínu og hlusta á foreldra mína segja sögur, ekki kjaftasögur, heldur áhugaverðar sögur úr fyrndinni, af þeim sjálfum og samferðarfólki þeirra, sögur sem búa ennþá með mér, hafa mótað mig og það sem meira er, oft rofið einsemd mína.
Ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna nútímamaðurinn er eins einmana og raun ber vitni, það er nefnilega staðreynd að fólk hefur aldrei glímt við jafn mikla einsemd eins og einmitt í dag. Grunur minn er sá að það sé meðal annars vegna þess að enginn hefur tíma til að segja sögur og heyra sögur. Fólk hefur reyndar að því er virðist endalausan tíma til að tala um sjálft sig og þar er ég sjálf svo sannarlega engin undantekning, við nennum að greina frá ótrúlegustu hlutum á samfélagsmiðlum, nokkru sem að foreldrar mínir hefðu sko geyspað yfir þegar ég var krakki. Í dag sýnir fólk nýjar eldhúsinnréttingar á facebook og myndir úr ræktinni á Instagram, matinn sem það er í þann mund að fara að snæða og bjórinn sem það er að fara að drekka.
Þegar ég var á sínum tíma að leggja af stað inn í fullorðinsárin man ég eftir því að vera upptekin af því að segja sögur, virkaði þá auðvitað svolítið kotroskin og jafnvel skrýtin en ég meina hvaða máli skiptir það? Þessi eiginleiki hefur hins vegar ekki lifað jafn sterkt með mér eins og kannski með mömmu minni, einfaldlega vegna þess að ólíkt henni er ég af kynslóðinni sem hefur ekki tíma til að hlusta á langar frásagnir. Sem er svo sorglegt vegna þess að sögur eru svo dýrmætur spegill á líf okkar og líðan. Á það er ég reglulega minnt í starfinu mínu sem prestur, til dæmis við útfarir þegar ég er að flytja minningarorðin. Bestu minningarorðin eru þau sem innhalda frásagnir af hinum látna, ekki heimildir um búferlaflutninga, námsferil eða atvinnu, heldur sögur þar sem karaktereinkenni hins látna lifna við, já þar sem hann sjálfur verður lifandi fyrir hugskoti og hjarta þeirra sem sitja í kirkjunni. Til þess að þetta sé hægt þarf fólk að hafa lagt við hlustir á meðan hinn látni var á lífi, fólk þarf að hafa heyrt hann og séð til að geta sagt þessar sögur að honum gengnum. Ég hef stundum upplifað það að vera með svo margar áhugaverðar frásagnir frá aðstandendum í líkræðu að söfnuðurinn í kirkjunni fer í gegnum heilan tilfinningarússíbana, bara í tíu mínútna ræðu, þar er hlegið, undrast, grátið og brosað vegna þess að manneskjan er þarna ljóslifandi í frásögnunum.
Sögur rjúfa einsemd, sögur verða að dæmisögum, sögur eru uppeldistæki, sögur eru sálgæsla, sorgarúrvinnsla, sátt og þroski. Höldum áfram að segja sögur. Og mamma takk fyrir að nenna að segja þessar sögur, aftur og aftur og láta mig ekki stoppa þig.