Lesa meiraHughreysti er mikilvægasta hreystin "/> Skip to content

Hughreysti er mikilvægasta hreystin

Kraftaverkasögurnar í guðspjöllunum þar sem Jesús læknar sjúka, reisir við lamaða, gefur blindum sýn eru mörgum mjög framandi. Hver er eiginlega merking þeirra, að Guð lækni útvalda? Geri kraftaverk á sumum en ekki öðrum? Við vitum að heimurinn er fullur af fólki sem glímir við vanheilsu og þarf nauðsynlega á lækningu að halda.

Það er svolítið magnað að uppgötva hvernig skilningur manns á Biblíunni helst þráðbeint í hendur við þroska manns á öðrum sviðum, bara þegar ég var að hefja minn prestskap man ég eftir að hafa átt í svolitlu basli með kraftaverkasögurnar, skildi þær illa og þá fyrst og fremst sem opinberun á guðdómi Jesú en var samt einhvern veginn ekki alveg að kaupa þá skýringu sjálf, leið svolítið eins og  þeir sem nutu hans lækninga væru bara tilraunadýr eða sýniseintök fyrir guðdóminn. Þá hafði ég bara þá ekki lifað nógu lengi til að geta fjallað um þessar sögur og bið því fermingarbörn fyrstu áranna innilega afsökunar ef vera kynni að ég hefði verið að bulla eitthvað við þau sem ég skildi svo ekki einu sinni sjálf.

Í dag segi ég þessar sögur, lækningafrásagnir Jesú algjörlega kinnroðalaust og nota þær jafnvel meira en margt annað í fermingarundirbúningnum.Þessar sögur eru nefnilega ekki um neina læknisfræði og þaðan af síður um yfirnáttúrulega krafta, þær eru bara hreint og klárt sjálfstyrkingarnámskeið Jesú frá Nasaret, lífsleiknikennsla hans og án efa það sem gefur okkur mesta von í Biblíunni. Þetta eru einmitt sögurnar sem nútímamaðurinn þarf að heyra, eins og um lamaða manninn sem vinirnir góðu báru til fundar við Jesú.

Valdefling er vinsælt orð í dag enda djúpvirkt og gott, það vísar til sjálfstyrkingar manneskjunnar þar sem hún er hvött til að nýta lífsreynslu sína, gáfur og hæfileika til þess að vera við stjórn í eigin lífi með það fyrir augum að halda mannlegri reisn. Valdefling er hugtak sem nær yfir allt það sem þarf að vera til að sjálfsmynd manneskjunnar sé heil þrátt fyrir að aðstæður hennar og heilsufar geti verið með ýmsu móti. Valdefling er ekki bara gæfa einstaklingsins sem nýtur hennar heldur samfélagsins í heild, heilbrigð sjálfsmynd eykur almennt öryggi íbúa, dregur úr ofbeldi og glæpum og viðheldur góðum tengslum innan fjölskyldna og vinnastaða.

Þegar Jesús sagði lamaða manninum að rísa upp því syndir hans væru fyrirgefnar þá var hann að valdefla hann, það kemur hvergi fram í textanum af hverju maðurinn var lamaður, ekki minnst á neitt slys eða sjúkdóm, bara, að hann var lamaður. Var hann kannski bara lamaður af ótta, lamaður af áhyggjum, streitu, verkkvíða, félagsfælni, þunglyndi eða fíkn? Kannastu við það að lamast af andlegu álagi? Hvað sagði Jesús við lama manninn? „Vertu hughraustur.“ Ætli hughreysti sé ekki einmitt mikilvægasta hreystin, sú hreysti sem getur í raun gert öll veikindi bærilegri, alla erfiðleika viðráðanlegri?

Hefurðu verið blindur/ blind á sjálfa þig, tilfinningar þínar, langanir og þrár og þess vegna hangið lengur í erfiðum aðstæðum en hollt er að gera. Ég held til dæmis að Bartímeus blindi sem Jesús gaf sýn hafi alls ekki verið sjónskertur heldur bara blindur á eigin mátt og getu, margt sjónskert fólk sér sig mun betur en þau sem eru sjáandi.

Ef ég lít yfir farinn veg tel ég víst að af öllu góðu hafi það verið trú mín á Jesú Krist krossfestan og upprisinn sem hafi haft mestu og bestu áhrifin á sjálfsmynd mína og sjálfstraust. Uppeldi góðra foreldra hafði vissulega mikið að segja en það var líka samofið trúnni, fjölskyldu og vinabönd eru manni auðvitað afar mikilvæg, skólagangan gerði vissulega sitt gagn, ekki síst í félagsþroska, hinir ýmsu vinnustaðir voru mikilvægir á sinn hátt, hreyfing, hollt mataræði, listir, menning og ferðalög, allt hefur þetta mikið að segja fyrir sjálfsmyndina þar sem það eflir þroska og vit. En af öllu góðu er það trúin sem hefur haft mestu áhrifin á sjálfsmynd mína, vitneskjan um að mér sé hreinlega óhætt að stíga inn í nýjan dag þrátt fyrir öll mistökin sem ég hef gert, að ég sé í raun og sanni elskuverð í berskjöldun minni, takmörkunum og vanmætti. Það er svo ótrúlega frelsandi að búa við slíkt bakland í samfylgd Jesú frá Nasaret og ólíkt því sem margir halda þá fríar það mann ekki ábyrgð gagnvart lífinu eða dauðanum, þvert á móti finnst mér það frekar kalla mann til aukinnar ábyrgðar og auðmýktar gagnvart allri sköpuninni, mönnum, dýrum og náttúru. Ef þú trúir því að máttur þér æðri sé að verki í lífinu þá veistu um leið að þú ert ekki yfirmaður annarra manna,heldur samferðarmaður, ekki yfirmaður dýra og náttúru heldur ráðsmaður, þú átt ekki neitt, átt ekki annað fólk, ekki einu sinni börnin þín, átt ekki fjöllin, höfin, vötnin, túnin og hólmana, fiskifluguna og hagamúsinu því veröldin er helguð af mætti þér æðri sem er Guð, hinn skilyrðislausi kærleikur sem dæmir ekki heldur kallar okkur til ábyrgðar með því að segja til dæmis „elskaðu náungann eins og sjálfan þig.“

Lækningafrásagnir í guðspjöllunum sem stundum kallast kraftaverkasögur eru sjálfstyrking að hætti Jesú Krists, það þýðir ekki að kraftaverk séu ekki líka til, þau eru það svo sannarlega og flest okkar hafa vitnað einhver í okkar persónulega lífi, þó ekki væri nema bara þegar við sjáum börnin okkar fæðast og vaxa og dafna þrátt fyrir allt sem getur farið úrskeiðis. Frásagnir af Jesú að lækna sjúka, reisa við lamaða, gefa blindum sýn eru hins vegar sögur um valdeflingu þar sem manneskjunni er gerð grein fyrir eigin styrk sem er svo oft   miklu miklu meiri en við teljum okkur búa yfir, trúin á Guð er auðvitað líka trúin á okkur sjálf, gleymum því ekki. Að vera prestur og trúa sífellt heitar er ekki bara vegna samfylgdarinnar við Guð í bæninni heldur líka vegna þess að dýpstu raunum fólks fær maður að líta Guð í hinum mannlega styrk, andlegum styrk sem næstum flytur fjöll.

 

Published inHugleiðingar