Ég viðurkenni það að vera á stundum sködduð af starfi mínu sem prestur. Þá á ég til dæmis við þá staðreynd að vera alltof áhyggjufull um börnin mín og jafnvel of verndandi. Ég reyni samt hvað ég get að hemja mig gagnvart þeirri freistingu að láta syni mína ganga með ökklaband eða einhvern annarskonar staðsetningarbúnað og ég reyni líka að hemja mig í símhringingum yfir daginn, þá er ég vissulega hætt að fara inn til þeirra á kvöldin til að gá hvort þeir andi, þeir eru nú líka 10 og 16 ára og sá eldri kominn með kærustu. Í sumar gekk ég á fjall með hópi fólks og var um tíma samferða viðræðugóðum kvenlækni sem tjáði mér að hún væri haldin nákvæmlega sömu vinnusköddun og ég, hún þarf sumsé líka að stíga á bremsuna gagnvart því að ofvernda börnin sín. Það sem við tvær eigum náttúrlega sameiginlegt vinnulega séð er að vera þar sem slysin og skyndidauðinn hafa átt sér stað. Við horfum upp á raunverulega angist fólks og erum starfa okkar vegna reglulega minntar á að börn og ungmenni geta líka dáið, þó sem betur fer sé það ekki oft, en ef það gerist, þá er nokkuð öruggt að læknir og oftast prestur komi á vettvang.
Eins og preststarfið hefur fært sjálfri mér mikinn persónulegan frið gagnvart dauðanum ,dregið úr ótta mínum við að deyja ( af því að ég hef komist að því að dauðinn er bara önnur fæðing) get ég illa fundið frið gagnvart þeirri hugsun að lifa börnin mín. Samt er ég reglulega samferða foreldrum sem hafa haldið áfram að lifa eftir slíkan missi og gera það bæði vel og fallega. Ég finn að fólk í kringum mig sem gegnir allt öðrum störfum en þeim er koma að sárum ögurstundum í lífinu skilur að vonum illa taugveiklun mína þegar kemur að því að veita leyfi fyrir ýmis konar afþreyingu barna okkar og enda þótt ágætt sé að vera varkár megum við aldrei sem foreldrar leyfa okkur að yfirfæra eigin kvíða yfir á börnin okkar og ræna þau þannig frelsi hinnar áhyggjulausu æsku. Þetta veit ég þótt taugakerfið mitt sé ekki alltaf sammála rökhugsuninni.
Hvað öryggi barna minna varðar er alveg ljóst að nándin við hinn sára barnsmissi hefur auðvitað áhrif, það er ágætt að einhver í starfi eins og þessu segi þetta bara vegna þess að þó maður standi sína plikt á vettvangi mála er ekki þar með sagt að sársaukinn nái ekki inn að innsta kjarna sálarinnar og búi þar um hríð, ja kannski þangað til maður heyrir næst fallegt lag í útvarpinu og fer að hágráta án nokkurs fyrirvara. Það er enginn að sinna þessum störfum án þess að finna eitthvað til og ef hann hættir því, nú þá fyrst er ástæða til að hafa áhyggjur af heilsu og frammistöðu viðkomandi.
Nema hvað að það er fleira í þessu starfi sem eflaust verður þess valdandi að ég á erfitt með að horfa á lífið frá sama sjónarhóli og kannski stjórnmálamaðurinn eða leikskólakennarinn eða flugfreyjan svo einhver störf séu nefnd hér af handahófi. Þessar stéttir hins vegar sjá og reyna ýmislegt sem ég þekki ekki og mun sennilega aldrei kynnast.
Ég finn alveg að í umræðunni um #metoo byltinguna og samskipti kynjanna er ég líka mjög lituð af mínu starfi, ég vil hvorki meina að það sé algott en heldur ekki alslæmt, ég held að prestagleraugun sem ég er með á nefinu dags daglega veiti ákveðna sýn sem megi alveg taka inn í umræðuna án þess að henni sé ætlað að trompa aðra reynslu eða önnur sjónarmið. Það er nefnilega svo ótrúlega mikilvægt að umræða sem þessi sé alls ekki tveggja turna tal heldur heilt þorp samræðna þar sem fólk getur horfst í augu, það er það sem við þurfum öll á endanum að gera.
Prestagleraugun mín eru býsna margskipt enda var ég oft mjög ringluð með þau til að byrja með. Þau sýna manneskjur oft í óþolandi sympatísku ljósi eins og það væri oft miklu auðveldara ef þau gerðu það alls ekki. Eðli starfsins er að tala við nakið fólk. Tilfinningalega nakið fólk. Fólk sem hefur verið beitt ofbeldi og fólk sem hefur sjálft beitt ofbeldi. Fólk sem hefur svikið og fólk sem hefur verið svikið. Fólk sem hefur haldið framhjá og fólk sem hefur verið haldið framhjá. Allt þetta fólk kemur inn til prestsins af því að hann er þjónn Guðs og Guð er í eðli sínu hrikalega ögrandi kraftur og krefjandi yfirmaður get ég sagt þér og þegar allt þetta nakta fólk situr inn á skrifstofunni þinni og þú ert bara fertug kona, upprunalega úr sveit, rétt í meðallagi gáfuð með geðkvilla og langar bara til að lifa þægilegu og einföldu lífi, þá hvíslar Guð „láttu þér þykja vænt um hann/hana, elskaðu þessa manneskju.“ Og þegar manni eru bara gefin þess einu fyrirmæli aftur og aftur og aftur og nú bráðum í heil þrettán ár, þá gerist eitthvað í ætt við það þegar maður dettur út á götu og fleytir kerlingar fyrir framan hóp af fólki sem þarf að halda niður í sér hlátrinum eða gengur út af salerni á veitingastað með pilsið gyrt ofan í sokkabuxurnar, það falla einhverjar varnir fyrir lífstíð og maður er settur í þá stöðu að hreinlega geta ekki setið kyrr í dómarasætinu, manni verður einhvern veginn svo órótt þar þegar Guð er alltaf að segja manni það sama aftur og aftur „elskaðu þessa manneskju.“ En að elska einhvern er náttúrlega enginn neyðarútgangur, að elska er einmitt það að fara erfiðustu leiðina, skref fyrir skref, jafnvel þótt húsið standi í ljósum logum. Að elska er að segja satt, vera skýr, gera kröfur, fella varnir og loks að horfast í augu við sinn eigin fjandans breysleika. Já Guð er sko fáránlega krefjandi yfirmaður og samt býður hann bara upp á þessu einu fyrirmæli „ elskaðu.“