Þegar faðir minn lést fyrir um áratug stóð ég á þrítugu og hafði þá starfað sem prestur í um þrjú ár. Ég minnist þess að vinir höfðu á orði við andlát hans að nú kæmi sér vel fyrir mig að vera prestur og þekkja sorgarferlið sem slík. Ég var þó fljót að komast að því að enginn er prestur í eigin sorg.
Á þessari aðventu fæst ég við annars konar sorg sem tengist breytingum á fjölskylduhögum og aftur er ég minnt á það að enginn er prestur í eigin sorg. Já jafnvel þó ég hafi starfað við að liðsinna hjónum á tímamótum sem þessum í ein þrettán ár get ég engan veginn sest andspænis sjálfri mér og heyrt og skilið eigin hugsanir og líðan, ég þarf speglun eins og allir aðrir sem hafa gengið í gegnum það sama. Sem betur fer bý ég þó svo vel að eiga vandaða og góða vini sem sumir hverjir hafa menntun og reynslu á sviði sálfræði og ráðgjafar eða eru hreinlega vitrar og víðsýnar manneskjur sem og heiðarlegar þegar kemur að því að benda mér á eigin bresti. Frá þeim hef ég þegið dómgreind og styrk til að takast á við sjálfa mig.
Það er í besta falli vond hugmynd að ætla fólki sem gegnir ábyrgðarstörfum og embættum í þágu lands og þjóðar að vera sérfræðingar í eigin sök, eigin vanmætti, eigin skipbroti. Ég segi þetta vegna þess að ég veit að þegar fólk er komið í ákveðin embætti skynjar það oft þrýsting utan úr samfélaginu um að það eigi í fyrsta lagi alls ekki að gera mistök og í öðru lagi ekki að brotna undan rótinu. En hvort sem við erum prestar, þingmenn, læknar eða lögmennþurfum við öll að skipta um stól og þiggja leiðsögn þar sem við stöndum á krossgötum. Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að þegar ég stæði á fertugu og liti til baka til þess tíma þegar ég hóf prestsskap yrðu það krossgötur míns eigin vanmáttar sem hafi kennt mér mest og best að gegna þessu annars undarlega starfi. Að uppgjöf gagnvart kvíðaröskun, sorg, áfengissýki, taugaáfalli og nú skilnaði skuli hafa kennt mér langmest um Guð og menn og þá fórn að gegna embætti, vera þjónn. Ég man ekki til þess að hafa nokkurn tíma á mínum ferli sagt eitthvað sem raunverulega skipti máli þar sem ég kom fram í styrkleika, jú kannski eitthvað vel orðað, jafnvel hnyttið en ekkert sem einhverju hefur breytt fyrir aðra, það sem hefur einhverju breytt er það sem ég hef sagt í vanmætti mínum, uppgjöf og nístandi berskjöldun. Þegar ég hóf prestsskap fannst mér oft vandræðalegt að tala um krossfestingu Krists og upprisu, ég vildi frekar tala um Fjallræðuna af því að þá var ég svo mikill guðfræðingur hún er svo gáfuleg. Í dag hef ég hins vegar eiginlega ekkert annað segja við fólk en einmitt þetta að Kristur var krossfestur, nakinn, hæddur en reis upp á þriðja degi. Allt annað er í besta falli vel orðað og kannski hnyttið en skiptir nákvæmlega engu máli því vitið er í vanmættinum.