Lesa meiraÞar sem ég skríð upp í fang umhyggjunnar "/> Skip to content

Þar sem ég skríð upp í fang umhyggjunnar

Þrjár konur komu að gröfinni á páskadagsmorgni. Þrjú lífsgildi komu að gröf  Jesú á páskadagsmorgni, þau kærleikur, umhyggja, hugrekki.

Mig langar að tala um umhyggjuna. Það er ekki erfitt þessa dagana, við erum bókstaflega vafin umhyggju úr ýmsum áttum, samfélagið er borið uppi af umhyggju fjölmargra starfsstétta en líka af þjóðarsálinni sjálfri. Umhyggju sýnum við hvert öðru með því að fylgja fyrirmælum fagfólks, með því að sýna þolgæði í krefjandi aðstæðum, já með því að vanda okkur sérstaklega í samskiptum þar sem margir eru óvenju kvíðnir og viðkvæmir nú um stundir. Fjölmargir óttast um heilsu sína og sinna nánustu, óttast um afkomu, hafa jafnvel misst vinnuna að hluta eða alveg. Mörg erum við þreytt á löngu tilbreytingarleysi og einangrun að loknum vetri sem gaf lítið svigrúm til ferðalaga sökum veðurlægða, hvar ein tók við af annarri. Umhyggja er líka að vita að sumir lifa alla daga, ár eftir ár við einangrun vegna veikinda, fátæktar og félagslegra aðstæðna.  Umhyggja sprettur af hugsun og vandvirkni, að hugsa áður en við tölum og hugsa áður en við framkvæmum. Umhyggja er að setja sig í spor annarra áður en við drögum ályktanir og auglýsum hugsanir okkar og skoðanir opinberlega.

Þegar ég sjálf er illa stemmd, sorgmædd, kvíðin, reið eða sár, sakbitin eða kvalin af skömm á ég mér mynd í huganum þar sem ég skríð upp í fang umhyggjunnar, hnipra mig saman og slaka á, gef eftir tilfinningar mínar og angist, gef eftir stjórnsemi mína og fullkomnunaráráttu, gef eftir morgundaginn og gærdaginn, gef eftir áhyggjur mínar af áliti annarra, gef eftir vonbrigði mín yfir sjálfri mér og á köflum lífsgöngu minni. Þessi umhyggja sem sem umlykur mig eins og fylgja barns í móðurlífi er Guð. Ég trúi á Guð, annars stæði ég líklega ekki hér í dag við þessar aðstæður að prédika og þess vegna langar mig á páskadegi böðuð upprisu frelsarans í allri fegurðinni sem dagurinn veitir að gefa þér sem ert að horfa og hlusta hlutdeild í trú minni. Ég er nefnilega alveg langt frá því að vera best menntaði guðfræðingur landsins, hef ekki lesið alla Biblíuna, ég veit ekki nema eitthvað örlítið um helgisiði og kirkjusögu, ég man ekkert úr grískunni í guðfræðináminu, ég er afleit í rökræðum um trú og trúarbrögð. Ég er  hins vegar algjörlega, gjörsamlega sannfærð um að Guð sé til, ekki vegna þess að ég hafi lært um hann, ekki vegna þess að líf mitt hafi verið vandræðalaust eða án þjáningar, ekki vegna þess að ég hafi svo gaman að því að ræða trúmál við aðra og reyna að sannfæra hinn trúlausa um tilvist Guðs af því að mér finnst það í rauninni alveg ótrúlega leiðinlegt og tilgangslaust, maður nefnilega lætur engan trúa með rökum, rétt eins og maður lætur engan verða ástfanginn af annarri manneskju með rökum.

Ég veit að Guð er til vegna þess að þjáningin varir aldrei nema tiltekinn tíma og vegna þess að í miðri þjáningu fáum við mennirnir senda ósýnilega björgunarlínu í formi æðruleysis, þolgæðis, hugrekkis og vonar og verðum oft á tíðum sérstaklega gjöful á kærleikann sem við erum öll sköpuð af.

Upprisa Jesú Krists er svo margt, fyrst og síðast er hún auðvitað hin skilyrðislausa ást sem ein getur sigrað dauðann, svo er hún gildin sem vitjuðu grafar í konunum þremur á páskadagsmorgni: Kærleikur, umhyggja, hugrekki.

Umhyggja er upprisa. Þess vegna megum við öll vita, hver sem trú okkar er að við höfum risið upp á liðnum vikum í erfiðum og oft sársaukafullum aðstæðum. Guð gefi þér gleðiríka páska og meiri von fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.

Published inHugleiðingar