Lesa meiraElskaðu mikið, elskaðu meira "/> Skip to content

Elskaðu mikið, elskaðu meira

Við lif­um í lausnamiðuðum heimi. Ef eitt­hvað er að þá er eitt­hvað hægt að gera. Við eig­um tækni, lyf og alls kyns verk­færi til að leysa ótrú­leg­asta vanda. Eina sem ekki er hægt að leysa nú frek­ar en áður er sorg­in. Þó detta sum­ir í þá gildru að kalla eft­ir skyndi­lausn­um, þá helst þeir sem standa álengd­ar og finna til van­mátt­ar að geta ekki komið til hjálp­ar. Oft hef ég fengið upp­hring­ing­ar frá vin­um og ná­grönn­um syrgj­andi fólks með ákall um hvort ekki sé eitt­hvað hægt að gera, setn­ing­in „þau verða að fá ein­hverja áfalla­hjálp“ hljóm­ar þá oft eins og „það verður að skera mann­eskj­una upp og taka meinið“. Áfalla­hjálp og sorg­arsál­gæsla er hins veg­ar ekk­ert annað en sam­fylgd á göngu sem eng­inn veit hvað var­ir lengi. Þess vegna líður manni aldrei eins og redd­ara eða hetju í hlut­verki sál­gæt­is­ins, ekk­ert gifs, eng­in verkjalyf og held­ur eng­in orð sem geta breytt því sem orðið er. Hins veg­ar átt­ar maður sig kannski bet­ur á því hvað þýðir að vera mann­eskja, sam­ferðamaður, sam­fé­lag. Það þýðir sam­fylgd, sam­hug­ur, samstaða.
Nú þegar kór­ónu­veir­an tek­ur óvænt stjórn­ina, rétt eins og sorg­in ger­ir þegar hún vitj­ar okk­ar, fáum við sem sam­fé­lag það verk­efni að vera til staðar hvert fyr­ir annað og upp­lifa hvert og eitt hvað það er að veita áfalla­hjálp. Allt í einu erum við öll á sama báti og eng­inn sem hring­ir í ann­an og seg­ir „þú verður að bjarga þessu“. Allt í einu erum við öll prest­ar. Og það er eitt af því fal­lega og þakk­arverða sem mun koma út úr þess­um und­ar­legu aðstæðum. „Eins og vatna­lilj­an sem vex upp af leðjunni,“ sagði danski prest­ur­inn og rit­höf­und­ur­inn Kaj Munk. Það er þegar erfiðar aðstæður færa okk­ur sam­an og skapa kær­leika sem er kraft­ur alls sem lif­ir af og sigr­ar. Sama hvað hend­ir, þá er lífið aldrei von­laust, vatna­lilj­an vex upp af leðjunni.

Það besta sem við get­um gert núna í þess­um aðstæðum sem sann­ar­lega munu taka enda er að treysta fag­fólki til að meta aðstæður og hlýða ráðlegg­ing­um þess. Vera í sam­bandi gegn­um síma og sam­fé­lags­miðla við fjöl­skyldu, vinieða Rauða kross­inn 1717 eða prest­ana í sókn­ar­kirkj­unni ef okk­ur vant­ar mann­lega nánd, um­hyggju og upp­örvun. All­ar kirkj­ur hafa orðið heimasíður eða Face­book-síður þar sem hægt er að hafa sam­band og aug­lýst­ir síma­tím­ar eru til staðar. Heil­brigðis­starfs­fólkið okk­ar er á fullu við umönn­un vegna lík­am­legra veik­inda og við sýn­um því skiln­ing og til­lit­semi en Rauði kross­inn, kirkj­an og fleiri hreyf­ing­ar og stofn­an­ir eru til staðar til að veita sál­ræn­an stuðning. Þá skipt­ir einnig máli nú sem endra­nær að taka einn dag í einu vegna þess að ekk­ert okk­ar veit fyr­ir víst hvað ástandið mun vara lengi, þess vegna er verra að eyða orku í að kvíða hvað verði eft­ir tvo, þrjá eða fjóra mánuði. Mundu líka þegar þú ferð að sofa á kvöld­in og upp­lif­ir ang­ist að það kem­ur nýr dag­ur og þú ert nýr eða ný á hverj­um degi, með nýja sýn, nýj­an styrk, nýj­an þroska, nýj­ar upp­lýs­ing­ar, nýja von.

Og svo er eitt sem þú get­ur alltaf reynt að gera og til­einka þér. Að taka eft­ir öllu því góða og fagra í líf­inu. Já, gefðu gaum þeim sem finna lausn­ir á margþætt­um vanda sem veir­an skap­ar. Sjáðu fólkið sem hugs­ar dag­leg sam­skipti og um­gengni upp á nýtt til að varna og hægja á smiti. Hlustaðu á þá sem gefa góð og gagn­leg ráð og virkja for­sjálni okk­ar hinna.Taktu eft­ir heil­brigðis­starfs­fólk­inu sem hleyp­ur hraðar, meira og leng­ur þessa daga og vik­ur að lækna og líkna. Sjáðu og heyrðu lista­fólkið sem flyt­ur ljóð og lag, feg­urð og yl inn í nýj­ar aðstæður þegar sam­fé­lagið þarf á sál­ar­hnoði og hugg­un að halda. Líttu á sam­kennd­ina og kær­leik­ann sem sprett­ur fram þegar all­ir þurfa og verða að gæta hver ann­ars. Sérðu ekki hvað veir­an má sín lít­ils í al­heims­um­hyggj­unni?

Hlustaðu eft­ir barns­rödd í fjarska eða ná­lægð, þar er fram­vind­an, gleðin og von­in.

Horfðu á allt sem þú hef­ur ár­orkað í líf­inu, all­ar hindr­an­ir sem þú hef­ur lagt að baki, finndu styrk­inn þinn.

Hlæðu að eig­in brönd­ur­um og leyfðu þér að finna fynd­inn flöt á

skrýtn­um aðstæðum.

Elskaðu mikið, elskaðu meira og þú get­ur allt.

Published inHugleiðingar