Lesa meiraÖll saman á Golgata "/> Skip to content

Öll saman á Golgata

Páskafastan hefur heldur betur hlotið nýja merkingu í ár. Sjövikna fastan sem hefst á öskudegi og stendur fram á páskadag er tíminn þar sem kristnu fólki er ætlað að búa sig undir það lán að fá að fæðast að nýju á páskum. Föstutímann á kristin manneskja að nota til að endurhugsa líf sitt og hlusta betur eftir hinum raunverulegu lífsgæðum og tileinka sér þau betur en áður, sem sagt gæðunum sem að Jesús frá Nasaret lagði aðal áherslu á. Þau myndu í stuttu máli vera þessi: Að hlúa að öllu sem lifir. Að elska Guð í mönnum, dýrum og náttúru.

Sú páskafasta sem nú stendur yfir býður raunar ekki upp á aðra möguleika en þá að hlúa að sköpunarverkinu, í ár er sum sé ekki um margar leiðir að velja. Aðrir hlutir og dauðir hlutir, verða víst að mæta afgangi vegna þess að nú geysar veira sem ógnar mannslífinu um allan heim. Enginn er óhultur, enginn getur keypt sig frá ógninni með fjármunum né völdum, ráðamenn þjóða eru að veikjast, Hollywoodstjörnur veikjast, íþróttagarpar veikjast og prestar og læknar og píparar og gagnkynhneigðir og samkynhneigðir, allir kynþættir, karlar og konur. Og enginn græðir á annarra eymd í þessari vá. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra jarðarbarna að smitum fækki og óværan hafi sig á brott. Óværan sem á að ná hámarki sínu hér á landi á föstudeginum langa. Í ár verðum við öll á Golgata þann dag, sumir veikir, aðrir í sóttkví, margir kvíðnir, margir örmagna vegna vinnu í framlínunni viku eftir viku, marga tíma á sólarhring og sumir í sorg. Já þann 10.apríl næstkomandi verðum við öll saman á Golgata. Síðan birtir til. Síðan rísum við upp og þá erum við fædd að nýju eftir lengstu föstu í manna minnum, föstutíma þar sem við þurftum öll að hugsa lífið  upp á nýtt. Við munum standa við opna gröf á páskadagsmorgni með nýfætt líf í höndum og líða eins og við höfum eignast barn.

Lífið, það bókstaflega hrópaði á okkur, bað okkur að nema staðar og af því að það var mannslífið í heiminum sem hrópaði þá námum við loks staðar. Lengi hefur náttúran hrópað og sumir á hana hlýtt, aðrir ekki. Nú hrópaði mannslífið í miðju alheimsins og loksins heyrðu allir og loksins nam heimurinn staðar eins og við þekkjum hann og ekkert skiptir máli þessa daga annað en að vernda hvert annað til líkama og sálar. Og náttúran nær loks andanum af því að andardráttur náttúrunnar er umhyggja mannsins og þegar maðurinn nemur loks staðar til að vernda og umvefja mannslífið þá nýtur náttúran góðs af. Náttúran nýtur góðs af mannhelgi, hugsa sér hvað það er fallegt, undursamlegt og friðsælt.

Vonandi verður lífið aldrei samt eftir þessa föstu, vonandi skiljum við veiruna eftir á krossinum á föstudeginum langa og rísum upp í kærleika með Jesú á páskadagsmorgni og lífstaktur breytist og allir og allt sem lifir fær að anda, vera og njóta.

 

 

 

 

Published inHugleiðingar