Lesa meiraDraumur King er enn svarið "/> Skip to content

Draumur King er enn svarið

Bandarískt samfélag brennur af angist í kjölfar andláts blökkumannsins George Floyd eftir óskiljanlega handtöku tveggja lögreglumanna sem sinntu ekki ákalli þolanda né sjónarvotta um að láta af hrottaskap sem að lokum dró sakborning til dauða. Sakargiftir voru grunur um að Floyd hefði greitt fyrir vöru með fölsuðum peningaseðli, brot sem á engan hátt getur kallað á svo ofsfengin viðbrögð af hálfu yfirvalda. Aftökunni er nú mótmælt harðlega en þjóðvarnarlið hefur verið virkjað í tuttugu og sex fylkjum Bandaríkjanna.

Andlát George Floyd er talið vera dropinn sem fyllir mæli eftir áralanga eða raunar aldalanga mismunun þeldökkra og hvítra innan Bandaríkjanna sem kristallast hefur meðal annars í harkalegri framgöngu lögreglu gagnvart fyrrnefndum hópi.

Það er í raun eitthvað svo óraunverulegt að sitja árið 2020 og skrifa pistil um kerfislægt ofbeldi gegn þeldökku fólki og aðskilnaðarstefnu sem leynt og ljóst gildir í lýðræðisríki líkt og Bandaríkjunum. En þar liggur einmitt kannski kjarni málsins, að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir alla upplýsingu, tækni og vísindi, opinn heim samfélagsmiðla og greiðra samgangna, þá ríkja enn fordómar og fyrirlitning í garð blökkumanna í okkar vestræna heimi. Þeldökkt fólk glímir við meiri efnislega fátækt, ofsóknir og hefur verra og minna aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu en hvítir.

Dæmi eitt rak til dæmis á fjörur mínar á dögunum í tengslum við mín eigin veikindi. Enda þótt endaþarmskrabbamein undirritaðrar eigi ekki að vera þungamiðja þessa pistils þá er samt vert að segja frá því að á liðnum dögum hef ég lesið mér töluvert til um sjúkdóminn eins og fólk jafnan gerir í stöðu sem minni. Til að gera langa sögu stutta er endaþarmskrabbamein frekar sjaldgæft, mjög meðhöndlanlegt og læknanlegt, sérstaklega ef það uppgötvast ekki of seint. Meinið er í 90% tilvika tengt HPV sýkingu sem getur bæði greinst í leghálsi og endaþarmi en á liðnum árum hefur færst í vöxt að skima fyrir HPV veirunni hjá ungu fólki og ætti sú skimun að vera almenn eins og önnur skoðun sem hefur dregið úr ýmsum tegundum krabbameina. Þeir sem lifa við bælt ónæmiskerfi eins og HIV smitað fólk er í aukinni hættu að þróa með sér endaþarmskrabbamein og þess vegna er alltaf skimað fyrir HIV í blóðprufu þegar maður greinist með mein eins og mitt. Í fjölda greina sem ég las tengt sjúkdómnum kom fram að lífslíkur þeldökkra manna sem greinast með endaþarmskrabbamein eru töluvert minni en jafnaldra þeirra af hvítum kynstofni. Fyrst hugsaði ég að sennilega væri þetta eitthvað tengt líkamsgerð og DNA en við nánari lestur kemur í ljós að félagsleg staða hinna þeldökku er í raun aðal ástæða þess að lífslíkur þeirra eru minni með þetta mein sem í 82 -90 % tilvika læknast sé gripið snemma inn í ferlið.

Staðan er sem sagt þessi að lífslíkur þeldökkra eru töluvert minni ekki bara þegar kemur að afskiptum lögreglu heldur líka heilbrigðiskerfisins. Þetta er í raun svo hræðilegt að jafnvel þótt manneskja eins og ég njóti þess að finna aðstæðum viðeigandi orð verð ég vita orðlaus við þessar uppgötvanir.

Í gær sat ég með systur minni og leitaði að bíómynd á leigu Símans. Til skoðunar kom Suður- Kóreska kvikmyndin Parasite sem hlaut einmitt Óskarsverðlaun á árinu og hefur víða slegið í gegn. Systir mín var opin fyrir áhorfinu en þá heyrðist úr mínum heimóttarlega munni „ Æi Jóna, ég nenni ekki að hlusta á kóresku í heila tvo klukkutíma.“ Og þá erum við komin að kjarnaatriði málsins.

Engin manneskja er laus við fordóma. Við erum öll að fást við svolítinn Trump í sálarlífi okkar og megum aldrei líta framhjá þeirri staðreynd, því aðeins með því að horfast í augu við eigin ótta verðum við fær um að ávarpa ótta annarra manna. Til að uppræta ástand eins og því sem mótmælt er um Bandaríkin þessa dagana skiptir nefnilega meira máli að ávarpa óttann en hatrið. Hatur er skyni skroppið ástand, hatur heyrir ekkert og skilur ekkert, hatur er sálrænt meðvitundarleysi á meðan óttinn hefur enn þann góða hæfileika að vilja hverfa, stundum hverfur óttinn um hríð með því að gefast hatrinu á vald en svo kemur hann aftur þegar rennur af honum. Það eina sem eytt getur óttanum varanlega er kærleikur. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þegar rætt er um ástand eins og það sem er í gangi þessa dagana sé þess gætt að hafa allar persónur og leikendur með í kærleikanum. Hugmyndafræði Martin Luther King Jr er enn í dag svarið.  Þar hefur ekkert breyst og þess vegna lifir minning hans svo sterkt meðal afrískættaðra manna um allan heim.   „ Ég á mér draum“ ræða séra King hafði til dæmis þau áhrif að að árið 1963 var aðskilnaður hvítra og blökkumanna afnuminn í mörgum skólum. Martin Luther King hélt sig við hugmyndafræði Jesú frá Nasaret í baráttu sinni fyrir mannréttindum, þrátt fyrir að mæta endalausum hindrunum heimsku og ótta. Og jafnvel þótt hann hafi látið líf sitt líkt og frelsarinn forðum fyrir syndir manna varð framganga hans til að bjarga mörgum mannslífum til framtíðar. Nú er lag að gefa rödd Martin Luther King vægi, rifja upp orð hans og aðferðarfræði, hann trúði ekki á refsandi samskipti, trúði ekki á valdbeitingu, kaldhæðni, hræðsluáróður, hneykslan né skömm. Hann trúði á áheyrn og heiðarleika gagnvart hinum sammannlega ótta, auðmýktina gagnvart almættinu, ástina á lífinu. Og þannig breytti hann öllu.

 

Published inHugleiðingar