Lesa meiraEf þér er mikið gefið,þá má lífið ætlast til mikils af þér "/> Skip to content

Ef þér er mikið gefið,þá má lífið ætlast til mikils af þér

Ef þér er mikið gefið, þá má lífið ætlast til mikils af þér.

Fólk sem býr yfir miklum hæfileikum og getu til að beina þeim í góðan farveg þarf nauðsynlega að vera auðmjúkt gagnvart almættinu en ekki síst samferðarfólki sínu og samfélaginu sem það tilheyrir. Kári Stefánsson er dæmi um mann sem er mikið gefið, yfirburðarmaður á sínu sviði, mælskur og myndarlegur, púllar gallaskyrtu á sjötugsaldri næstum betur en Thor heitinn Vilhjálmsson eðaltöffari en reyndar bara næstum því og þá er nú mikið sagt. Suma daga, sérstaklega þegar ég er að byrja á túr, finn ég fró í  að hlusta á alhæfingar Kára Stefánssonar um menn og málefni, einfaldlega vegna þess að hormónarnir mínir eru í uppnámi og ég svo fegin að einhver skuli nenna að orða líðan mína sem þó er í engu samræmi við þau yndislegu lífsgæði sem ég bý við eða almenna rökhugsun og háttvísi.

En sem sagt aftur að Kára, ég hef smá áhyggjur af því að þjóðin sé að renna inn í vanvirk samskipti við Kára Stefánsson. Nú hefur hann reynst okkur vel í Kórónuveirufaraldrinum og þar áður keypti hann handa okkur jáeindaskanna þannig að krabbameinssjúklingar þurfa ekki lengur að fara til Danmerkur í slíkt tæki sem er auðvitað mikill léttir í erfiðum veikindum. Að sama skapi virðist ríkja þegjandi samkomulag um að Kári okkar Stefánsson megi vera dónalegur og næstum ruddalegur í fjölmiðlum hvar hann er fenginn æ oftar, annað hvort vegna þess að við erum fjármunum hans og visku svo þakklát eða af því að að dónaskapur er góð smellubeita á netmiðlum. Hvort heldur sem er þá getur Kári kóngur setið í föstudagsþættinum hjá Gísla Marteini og gripið fram í fyrir þáttastjórnanda eins og honum sýnist eða klappað ungum kvenráðherrum á kollinn af því að í samfélaginu ríkir þegjandi samkomulag um að hann sé búinn að gefa okkur svo mikið að hann megi vera sérlundaður og sýna sinn dónaskap þegar honum sýnist. Nú síðast lýsti Kári því yfir í hlaðvarpsþætti hjá Sölva Tryggvasyni að Steinn Steinar ljóðskáld hefði verið vælukjói og aumingi sem og að móðir Kára hefði að líkindum kallað kulnun, leti og drullusokkshátt.

Eftir því sem ég eldist og flamberast af lífseldinum finn ég betur hvað hógvært, háttvíst og orðvart fólk höfðar meira til mín. Og þegar maður til dæmis verður veikur, annað hvort af kvíða eða krabbameini afhjúpast þetta betur. Þess vegna er mér farið að þykja svo ógnar vænt um konurnar á geisladeildinni sem að sinna mér dag hvern á svo fallegan máta að ég fæ tár í augun við að skrifa um það. Hvernig þær brosa til manns og segja alltaf eitthvað fallegt til uppörvunar og gleði, spyrja um líðan, vanda sig í hverju skrefi, hverju handtaki, nú eða hjúkrunarfræðingarnir sem leita logandi ljósi að smyrslum og töflum til að létta manni lífið eins og mögulegt er. Á hverjum degi geng ég inn í guðsþjónustu Landspítalans þar sem enginn ber sér á brjóst né kallar góðverk sín á torgum. Og ég er svo blessuð af umhyggjunni að ég hef aldrei hvorki fyrir né eftir prestvígslu verið jafn dugleg að þakka Guði fyrir kærleika mannanna. Það er svo margt fólk að þjóna samfélaginu af trúmennsku og guðlegri náð að það gefur veikindunum næstum því gildi. Þess vegna langar mig að hvetja okkur öll til að leggja meiri rækt við að lyfta þeim upp sem vinna af hógværð og háttvísi og taka sér aldrei vald yfir öðrum með orðum og alhæfingum.  Ef manni er mikið gefið, má lífið ætlast til mikils af manni, það er díllinn.

 

Published inHugleiðingar