Það eru ákveðnir hlutir sem maður tileinkar sér í lífinu og viðheldur án þess að fá strax svör við því hvers vegna. Það getur meira að segja verið eitthvað sem maður þarf að eyða orku í að réttlæta fyrir öðrum eða jafnvel sjálfum sér. Af einhverri óútskýrðri þrautseigju heldur maður samt áfram að iðka sitt af því að einhver staðar í undirmeðvitundinni skynjar maður að það er einfaldlega rétt og kannski liggur það ekki einu sinni svo djúpt sem í undirmeðvitundinni heldur einfaldlega í brjóstvitinu þar sem ég held að himnaríki okkar sé fyrst að finna. Tvennt hef ég iðkað frá unga aldri sem mér hefur verið gert að réttlæta fyrir öðru fólki á ákveðnum stundum og tímabilum í lífi mínu. Annars vegar er það trúin á Jesú Krist og hins vegar eru það útihlaup. Nú hefur það sannast að hvort tveggja mun hafa bjargað í lífi mínu, í sko bókstaflegri merkingu.
Ég ólst upp í kristinni trú, er alin upp á prestsheimili í sveit þar sem lífið og dauðinn tóku jöfnum höndum í húninn á útidyrahurðinni og sóknarbörn báru gleði sínar og sorgir inn í stofu til mömmu og pabba og þáðu þar ylvolga samkennd í virkri hlustun og þéttum kaffisopa. En ég ólst líka upp við það að bænir voru beðnar við rúmstokkinn minn svo þrátt fyrir að barnshugurinn hafi snemma fengið innsýn inn í kjarna lífsins sem er sá að lífið er brothætt og sjálfstætt, fer sína leið með eða án okkar vilja, var alltaf von að finna með því að eiga samtal við Guð. Ég er sem sagt alin upp við það að vona í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum vegna þess að Guði er ekkert um megn og þess vegna hef ég til dæmis getað lifað ótrúlega innihaldsríku og góðu lífi þrátt fyrir að hafa glímt við geðkvilla frá unga aldri. Geðdeyfðarlyf og samtalsmeðferðir hafa vissulega hjálpað til en þegar öllu er á botnin hvolft er það trúin á Jesú Krist sem hefur líknað mér mest og hjálpað mér að rísa upp yfir veikindin og takast á við þau sem jafningi. Samt hef ég þurft að eyða töluverðri orku frá blautu barnsbeini í að verja trú mína og setið undir háðsglósum og meiningum um skerta dómgreind og rökhugsun af því að ég leyfi mér að treysta Guði um leið og ég tek ábyrgð á eigin lífi.
Þegar ég er sirka sautján ára að aldri fer ég algjörlega þvert á lífsstíl minn sem var þá að drekka bjór og reykja sígarettur og þykjast vera ljóðskáld og kommúnisti í hermannaklossum, að stunda útihlaup. Þetta er sem sagt árið 1995 þegar Marta Ernstdóttir og einhver einn annar sem ég man ekki nafnið á fóru út að hlaupa á Íslandi sem og Hildur Eir Bolladóttir sem hafði þá aldrei stundað neinar íþróttir og var meira að segja alls ekki í kjörþyngd er saga þessi hefst.
Allar götur síðan hef ég hlaupið, næstum eins og Forrest Gump, tuttugu kílóum til eða frá, daginn eftir fyllerí, á meðgöngu, með nýfætt barn í vagni eftir Ægisíðunni og fólk horfði á mig eins og ég hefði rænt barninu og lögreglan væri á eftir mér. Það var enginn í spandex á þessum árum nema hann væri að fara að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum. Ég hljóp í gömlum joggingbuxum og flíspeysu. En alltaf hljóp ég, líka í sumarbústaðarferðum og uppskar undrun samferðarfólks á því að geta ekki lagt þessa vitleysu til hliðar þegar ég ætti að vera að borða og njóta, en ég naut einfaldlega alls betur þegar ég var búin að hlaupa og þó ég upplifði sjálfa mig mjög eigingjarna að setja hlaupin í slíkan forgang þá gat ég ekki hætt vegna þess að hlaupin voru eins og guðstrúin í lífi mínu, ég vissi að þau væru rétt.
Í upphafi þessa árs 2020 fór ég að finna fyrir óþægindum í mínum daglegu útihlaupum, alltaf þegar ég var komin af stað, búin að hita upp og farin að ná takti, var eins og aðskotahlut hefði skyndilega verið komið upp í endaþarminn á mér. Ég píndi mig til að hlaupa þrátt fyrir óþægindin en tókst svo á við dagleg störf án teljandi vandkvæða. Þegar líða tók á útmánuði var aðskotahluturinn orðinn meira í ætt við golfkúlu að mér fannst og loks kom að því að ég gat ekki lengur hlaupið fyrir sársauka. Enn stundaði ég þó mína vinnu en fann fyrir verulegri lífsgæðaskerðingu við að geta ekki lengur hlaupið. Svo ég dreif mig til læknis og lét skoða þann líkamspart sem mann langar helst ekki til að opinbera öðrum. Það reyndist mikið lán því ég var sum sé komin með krabbamein í endaþarminn, æxli sem þrengdi að hringvöðanum svo ekki var nú skrýtið að í allri þeirri líkamlegu áreynslu sem hlaupin eru þar sem nánast allir vöðvar líkamans eru virkjaðir, hringvöðvi sem og aðrir, hafi ég fundið fyrir æxlinu. Því má segja að hlaupin hafi á vissan hátt bjargað lífi mínu, ég hef nefnilega háan sársaukaþröskuld, fer afar sjaldan til læknis, er ekki pestsækin og almennt hraust og hefði sjálfsagt ekkert kippt mér upp við einhvern smá sting í rassinum ef ekki hefði verið fyrir hlaupin þar sem sársaukin varð yfirþyrmandi.
Það er aldrei of oft talað um mikilvægi hreyfingar við að sporna gegn sjúkdómum eins og hjarta og æða, krabbameini, geðsjúkdómum og sykursýki en höfum við leitt hugann að því hvað hreyfing er mikill mónitor á það sem er að eiga sér stað í líkamanum hverju sinni? Hvað líkamleg áreynsla er mikilvægt greiningartæki? Líkaminn er til þess gerður að hreyfa hann, það vitum við en það er ekki bara hreyfingarinnar vegna heldur til að að kanna ástand hans reglulega. Allir geta fengið krabbamein og hjartaáfall, feitir sem grannir, ungir sem gamlir en það getur verið að líkaminn hafi varað mann við og sú aðvörun er kannski hvað skýrust þegar við reynum á okkur.
Tvennt hefur bjargað lífi mínu, kristin trú og útihlaup og kannski á þetta tvennt ýmislegt sameiginlegt, því í bæn og á hlaupum verður til von um að komast í mark, sama hvað á dynur á leiðinni.