Lesa meiraGjaldkerinn hennar mömmu "/> Skip to content

Gjaldkerinn hennar mömmu

Mamma mín er 84 ára að aldri, hún er nákvæmlega helmingi eldri en ég. Mamma var sum sé 42 ára þegar hún átti mig og þótti nokkuð seint í þá daga þegar flestir höfðu lokið barneignum fyrir þrítugt. Mamma er víðlesin, athugul, húmorísk og enn býsna minnug á meðan skrokkurinn er farinn að hopa undan tímans þunga nið. Undanfarin ár hefur sjúkrahúslegum fjölgað ört. Það sem af er þessu ári hefur mamma tvisvar verið flutt fárveik á sjúkrahús með sýkingar sem herja á öldruð líffærin. Ellin getur verið erfið og ágeng og eins gott að æðruleysi fylgi oft auknum aldri. Mamma hefur nú legið á sjúkrahúsi undanfarnar tvær vikur en er öll að hjarna við. Sú staðreynd að lungnabólga og léleg súrefnismettun, hár hiti og öndunarfiðleikar hafi herjað á móður mína kemur þó ekki í veg fyrir að hún muni eftir að greiða sínar skuldir. Sem prókúruhafi hennar fól hún mér innan um súrefnisslöngur og lífsmarkamæla að fara í bankann og greiða reikninga. Mamma er ekki með heimabanka, hún á raunar ekki tölvu og hefur aldrei átt, hún þekkir ekki samfélagsmiðla og farsíminn hennar er langt frá því að vera snjallsími en þeim mun meiri spjallsími, því mamma hringir í sína afkomendur reglulega og tekur stöðuna á mannskapnum. Með öðrum orðum þá hefur samskiptamáti mömmu aldrei stigið fæti inn í 21.öldina. Mamma á bara bein samskipti við annað fólk, annað hvort augliti til auglitis eða með símhringingum. Hún veit ekki einu sinni hvernig messenger eða tölvupóstur, sms, snap chat eða annað þvíumlíkt virkar. Hún les hins vegar prentmiðla á degi hverjum og lýkur að jafnaði við eina bók á sólarhring. Mamma er af kynslóðinni sem telur það hreina smán að skulda og mun aldrei skilja þá hagfræði að skuldir eins skapi auð annars.

Ég þarf nánast aldrei að fara í banka vegna minna eigin fjármála, heimabankinn dugir mér flesta daga og mánuði. Einu skiptin sem ég hitti gjaldkera er þegar mamma er lasin og ég þarf að borga reikninga fyrir hana. Dagurinn í dag var einn þessarar daga þar sem mamma komst ekki í bankann og sendi mig til að greiða reikninga sem margir hverjir eru ekki á eindaga fyrr en einhvern tíma um miðjan ágúst, það skiptir mömmu engu máli, skuld er skuld, hvenær sem hún birtist.

Í bankanum í dag gerði ég svolítið merkilega uppgötvun sem er raunar tilefni þessa pistils. Ég uppgötvaði sem sagt að móðir mín á víða tengsl sem ég á ekki og börn mín og barnabörn munu aldrei eignast. Mamma á tengsl við allskonar þjónustuaðila í samfélaginu sem ég þekki ekkert. Þegar ég settist fyrir framan gjaldkerann í Landsbankanum í dag, kom í ljós að hún þekkti ekki bara mömmu gegnum kennitölu á tölvuskjá. Gjaldkerinn, ung kona, þekkti mömmu þannig að þegar ég bað hana um að taka út tíu þúsund fyrir gömlu konuna til að eiga í lausu sagði stúlkan brosandi „ vill ekki mamma þín fá bara einn Jónas Hallgrímsson?“ Jú svaraði ég hlæjandi, það væri henni að skapi, „ég veit“ svaraði stúlkan „ Jónas er hennar uppáhalds skáld.“ Ég varð allt í einu eitthvað svo meyr þar sem ég sat gegnt konunni ungu, gjaldkeranum í Landsbankanum og það rann upp fyrir mér að mamma mín mun dag einn kveðja þessa jarðvist hafandi átt allskonar tengsl við allskonar fólk af því að hún hefur aldrei stigið inn í tækniheim 21.aldar. Mamma mín mun aldrei þekkja annað en að eiga bein samskipti við annað fólk og þess vegna einmitt virðist þetta fólk hvort sem það er gjaldkerinn í bankanum eða einhver þjónustuaðili hjá hinu opinbera, skatturinn eða tryggingastofnun muna eftir mömmu og jafnvel vita hvert hennar eftirlætis skáld er. Það er eitthvað fallegt við þetta, líka umhugsunarvert, eitthvað ljúfsárt, ljóðrænt, satt og gott.

Published inHugleiðingar