Þetta er ekki skrifað til að segja „ Sjáið sjáið! hvað ég er góð og hvað ég geri alltaf allt rétt og fallega í lífinu mínu.“ Af því að það er einfaldlega ekki þannig. Ég er oft fáviti, tala stundum illa um annað fólk, öfunda, finn til afbrýðissemi, er löt, heimsk og óheiðarleg. Ég hef sannarlega sært fólk og svikið.
Minn stóri kostur miðað við að vera fáviti er hins vegar sá að mér dettur ekki eina stund í hug að ég sé eitthvað annað en þessi umræddi fáviti og þegar öllu er á botninn hvolft hef ég fundið það út að hlutverk mitt sem fávita í lífinu sé að hjálpa öðrum að bera kennsl á fávitann innra með sér. Mér þykir alveg vænt um fávitann mig og ég held meira að segja oft með honum, það kemur til af því að Jesús sem ég treysti best af öllum hefur hvatt mig til þess, já þrátt fyrir allt og allt. Þegar maður veikist alvarlega eins og af krabbameini er líkt og hjarta manns stækki, ég ætla ekki að ímynda mér að maður verði eitthvað vitrari, að minnsta kosti ekki ég en mér finnst núna þegar ég er að ganga í gegnum veikindi að ég eigi einhvern veginn auðveldara með að elska. Meira að segja „óvini“ mína. Krabbamein hjálpar manni að leggja niður vopnin. Ég veit að ég er ekki ein um þetta, það eru margir í minni stöðu að lifa hið sama, að lífsógnandi sjúkdómur stækki hjarta þeirra. Þetta er sennilega stóra gjöfin sem maður fær í staðinn fyrir geislana og lyfin, ógleðina, uppköstin, þreytuna og brunann, bjúginn og svefnleysið. Þetta er raunar lögmál krossins, þetta er sennilega það sem kallast upprisa.
En ég veit líka að maður þarf ekki að verða mikið veikur til að ástunda slíka elsku, það er sem betur fer mjög margt fólk í veröldinni sem hefur masterað þá list að taka utan um lífið, ljós þess og skugga og elska skuggana í burtu af því að þeir hopa en ljósið stækkar. Þetta fólk er í alvörunni hamingjusamt, þetta er fólkið sem getur dáið sátt, þetta er ekki fullkomið fólk en það er gott og það er nóg. Það er ekki verið að ætlast til meira af okkur. Við megum í rauninni vera svolitlir fávitar ef náum bara að elska bæði ljós og skugga lífsins og það er auðvitað eina leiðin til að varðveita lífið á jörðinni.