Ég fór allt í einu að hugsa um það í dag í kjölfar frétta um uppgang kórónuveirunnar að þótt ég væri í veikindaleyfi frá störfum mínum sem prestur er ekkert sem segir að ég geti ekki sett niður nokkur bjargráð sem ég myndi án efa gefa viðmælanda sem leitaði til mín í kirkjuna og hefði áhyggjur af ástandinu. Í raun skiptir ekki máli hvert áhyggju, kvíða eða sorgarefnið er, sálgæsla lýtur jafnan sömu lögmálum, það er að vera til staðar án þess að dæma eða gefa tilfinningum viðmælandans einhvers konar einkunn eða umsögn. Mannlegar tilfinningar og tilfinningaleg viðbrögð eru ekki eitthvað sem telst rétt eða rangt heldur veruleiki sem við verðum að lifa við og læra af. Við getum skoðað tilfinningar, velt þeim svolítið fyrir okkur, speglað þær í reynslu annarra, jafnvel skapað úr þeim list eða þekkingu sem eflir samfélagið og þroskar.
Það eru allskonar tilfinningar í gangi núna þegar önnur bylgja Kórónuveirunnar hefur losnað úr læðingi og við neyðumst til að endurtaka atferli okkar frá því í vor. Við héldum að við hefðum lokið heilu maraþoni í maí en þá kemur í ljós að við erum kannski bara hálfnuð. Við erum vegmóð og þyrst í frelsisins vatn sem við fengum smjörþefinn af í sumar. Þegar maður verður þreyttur á ástandi er stutt í erfiðar tilfinningar: pirring, reiði, gremju, sektarkennd og skömm. Tilfinningar sem líkt og aðrar tilfinningar eru hvorki réttar né rangar en hafa þann eiginleika að stækka öll vandamál, dýpka alla erfiðleika, auka á kvíða og vanmátt gagnvart þeim áskorunum sem bíða okkar. En þetta eru tilfinningar og ekkert okkar þess umkomið að dæma þær. Öll erum við hins vegar þess umkominn að fást við þær. Hér koma nokkur sálræn bjargráð sem mig langar að gefa þér kæri lesandi sem ert hugsanlega kvíðinn, hræddur, reiður, vonsvikinn og þreyttur á ástandinu en þarft samt að halda áfram þessu undarlega maraþoni.
- Ég held að það sé skynsamlegt að ákveða hversu mikið maður ætlar að innbyrða dag hvern af fréttum um covid 19. Gæti verið gott að halda sig við upplýsingafundinn með þríeykinu og horfa kannski á samantektina í kvöldfréttunum og láta þar við sitja í stað þess að fletta allan daginn í gegnum netmiðla og hlusta á allar vangaveltur í fjölmiðlum?
- Þegar ég greindist með krabbamein í vor átti ég samskipti við fjóra lækna , enginn þeirra skipaði mér að hætta að drekka kaffi eða breyta um mataræði en allir sögðu þeir á einhverjum tímapunkti: „Haltu svo áfram að hreyfa þig.“ Í samtali við sjúkraþjálfara í gærkvöldi þar sem þetta bar á góma sagði hann „auðvitað segja læknarnir það, það er engin betri leið til að draga úr streituhormónum og efla ónæmiskerfið, sem er nákvæmlega það sem krabbameinsveik manneskja þarf á að halda.“ Svo ég segi við þig kæri lesandi „ Haltu áfram að hreyfa þig og ef þú hefur ekki stundað hreyfingu hingað til, byrjaðu þá í dag, ekkert skiptir meira máli í baráttunni við veiruna en að efla ónæmiskerfið, ekki satt? Þessa dagana stunda ég sjálf göngur og jóga, þetta þarf samt ekki að vera flóknara en göngutúr.
- Virkjaðu æðruleysið, það er auðlind sem býr innra með okkur öllum og bíður þess að vera virkjað við svona aðstæður. Leiðin að æðruleysinu er að þakka það sem maður þegar hefur og hugsa um það sem maður mun alltaf eiga sama hvað á dynur eins og kærleikstengsl við menn og dýr. Sögur sem maður hefur lifað eða lesið, já sögur sem maður getur framkallað í huganum hvar og hvenær sem er og hjálpa líka til við að setja nýjar aðstæður í eitthvert samhengi, lifandi minningar og viska.
- Þótt veiran sé ekkert gamanefni hvað afleiðingar hennar varðar er ekki bannað að gera grín að sjálfu meininu. Veiran er ekki heilög þó að manneskjur séu heilagar. Maður gerir ekki grín að veikri manneskju, hvað þá látinni en að gera grín að fáranleika þessarar veiru er ekkert nema valdeflandi gagnvart aðstæðum sem enginn fær stjórnað. Það er ekki bannað að gera grín að sjúkdómum og ekki einu sinni dauðanum það er í raun eina valdið sem við höfum gagnvart því sem við fáum ekki stýrt og ein virkasta leiðin ásamt þakklætinu við að virkja æðruleysið sem býr innra með okkur og er í raun ofurkraftur hverrar manneskju.
- Ef þú neytir áfengis þá er sérlega mikilvægt að fara varlega í notkun þess á tímum sem þessum. Nú þurfum við á öllum okkar heilaboðefnum að halda, ekki síst serótóníninu sem hefur áhrif á kvíðastjórnun. Áfengi dregur úr framleiðslu sérótóníns og svo dregur það úr styrk ónæmiskerfisins. Og svo er ekkert verra en að drekka ofan í neikvæðar tilfinningar, hefur svo vond áhrif á náin mannleg tengsl og nú eru það einmitt náin mannleg tengsl sem munu koma okkur í gegnum þetta allt saman, það væri ferlegt að fara að skemma það besta með áfengisneyslu.
- Halda ákveðinni rútínu þó að hið daglega líf raskist. Við getum sjálf valið að fá góðan og reglubundinn svefn, borðað reglulega og borðað vel, það er að segja að elda alvöru mat og reyna að skapa notalegheit í kringum heimilishaldið eins og kostur er, skapa stemmingu með okkar nánasta fólki.
- Ég persónulega bið bænir og fel mig Guði í öllum aðstæðum sem að ég get ekki stjórnað, það er mín lífsbjörg hafandi lifað við geðkvilla frá unga aldri, dílað við áfengi, misst ástvini og tekist á við krabba. Ég get ekki sagt þér að gera slíkt hið sama en ég get sagt þér að ekkert hefur reynst mér betur. Það er svo magnað að biðja, það er einhvern veginn eins og að fæðast að nýju, við hverja bæn fæðist ný von, ný sýn, nýtt hugrekki og umfram allt ný elska. Sumir biðja, aðrir hugleiða enn aðrir finna sinn æðri mátt í náttúrunni eða listinni. Hver maður er frjáls að leita.
- Vonaðu. Hugsaðu á hverju kvöldi: Á morgun er nýr dagur, ný tækifæri og ný þekking skapast við fyrri reynslu, á morgun er nýr dagur.
- Að lokum, eins og Víðir segir : Við gerum þetta saman. Gangi þér vel.