Lesa meiraSorgin fer ekki í sóttkví "/> Skip to content

Sorgin fer ekki í sóttkví

Í gær hitti ég konu í miðbæ Akureyrar sem er nýlega búin að missa eiginmann sinn og lífsförunaut til fimmtíu ára. Mikið fannst mér sárt að geta ekki faðmað hana þétt að mér en við kynntumst þegar ég jarðsöng dóttur hennar fyrir fáeinum árum en höfðum ekkert hist frá því að eiginmaður hennar féll frá. Við skiptumst á hlýjum orðum í gær þar sem við stóðum undir berum himni í haustkulinu en kórónuveiruskýin byrgðu nándinni sýn. Seinna um daginn sendi hún mér skilaboð um hvað það hefði glatt hana að sjá mig svona frísklega miðað við það sem á undan væri gengið. Tveim dögum fyrr hafði önnur kona samband við mig en henni kynntist ég einmitt þegar hún missti ungan son sinn og ég kom inn í líf hennar og fjölskyldunnar sem prestur. Þessi kona var bara að skrifa mér til þess að vita hvernig heilsa mín væri.

Tvær syrgjandi konur hafa á umliðnum dögum séð ástæðu til að spyrjast fyrir um mína hagi. Það er auðvitað vegna þess að þetta eru vandaðar og góðar manneskjur en líka vegna þess að þeir sem hafa upplifað djúpstæða sorg mynda mjög gjarnan mjög ríka samkennd með öðru fólki, því hef ég margsinnis kynnst í mínu starfi. Þið megið ekki misskilja mig, það eru ótalmargir sem láta sér annt um heilsu mína og ég er umvafin kærleika alla daga enda eru þessar hugleiðingar ekki um mig heldur dæmi um það hvað fólk sem misst hefur meira en hægt er að ímynda sér, á oft mikið að gefa. Mig langaði að segja ykkur frá þessu til að hugleiða tvennt. Annars vegar það að sorgin fer aldrei í sóttkví, það eru svo margir að lifa mikla sorg ofan í þessa óvissutíma sem nú eru. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því og gleyma ekki að hafa samband við þá sem syrgja djúpt. Símtal er sterkur leikur núna þegar við erum öll meira heima fyrir og lífið er á hægum takti. Hins vegar langar mig að segja ykkur frá þessu til að minna á að það er hægt að vera mjög gefandi í sinni mestu sorg og þjáningu, það er í raun oftast val en auðvitað líka þroski sem syrgjandinn tekur út á sínum mestu ögurstundum. Það er val að vera gefandi. Ekki síst á erfiðum tímum. Mig langar svo mikið að hvetja okkur öll til þess að vera gefandi núna vegna þess að þá gerast töfrar, ónæmiskerfi fólks eflist af því að einsemd minnkar og óttinn hættir að skemmta veiruskrattanum.

 

 

Published inHugleiðingar