Lesa meiraÍ bleikum skugga "/> Skip to content

Í bleikum skugga

Bleiki mánuðurinn hefur verið harla óvenjulegur í ár, raunar hafa allir mánuðir þessa árs verið óvenjulegir af ástæðu sem er okkur öllum kunn. Í ár fellur bleiki mánuðurinn satt best að segja í skuggann af svolitlu sem maður nennir helst ekki að nefna, þó að hin reglubundna söfnun bleiku slaufunnar sé auðvitað á sínum stað, mikið er það framtak sem og fleiri safnanir fyrir krabbameinsfélögin eins og Dömulegir dekurdagar, þakkarvert. Þetta ár hefur raunar verið heltekið af sjúkdómsótta um veröld víða svo að mitt í öllu tilbreytingaleysinu tengdu ónefndri veiru kemur Bleiki mánuðurinn kannski ekkert mjög sterkur inn sem góð tilbreyting. Sjálfsagt eru fáir í miklu stuði til að ræða aðra sjúkdóma. Það er synd því að þrátt fyrir að Bleikur október sé tileinkaður boðflennunni Kröbbu þá hefur hann einmitt verið til þess fallinn að uppörva og styrkja krabbameinssjúka og ástvini þeirra og varpa ljósi á allt það jákvæða sem þó gerist í tengslum við krabbamein. Þess vegna ákvað ég nú að eyða ekki tímanum hér í að tíunda mína eigin sjúkdómssögu heldur tala frekar um lífsleikni í veikindum og minnast fólks sem á undan er gengið en kenndi mér samt að takast á við mín veikindi. Í örstuttu stuttu máli þó, þá greindist ég með krabbamein í apríl síðastliðnum og fór í gegnum sex vikna lyfja og geislameðferð.

En nóg um það. Mig langar að tala um aðra en mig. Mig langar að tala um fólk mér tengt sem er horfið til himins en leiddi mig samt áfram á göngu minni um lendur óvissunnar. Kenndi mér að halda áfram þegar ég vissi ekki hvað biði mín og hvort meðferðin sem mér var ætluð myndi skila árangri, vegna þess að því getur enginn lofað, ekki einu sinni læknarnir. Mig langar að segja ykkur frá fólkinu mínu sem er dáið en tapaði samt engri baráttu heldur kvaddi lífið sem sigurvegara.

Ég ætla að byrja á því að minnast Kolbrúnar Jónsdóttur kennara frá Akureyri en við tvær þekktumst raunar ekki í lifanda lífi en henni hef ég kynnst í gegnum minningar fólksins hennar sem við báðar elskum. Kolbrún fékk heilaæxli og lést  aðeins fjörutíu og níu ára að aldri.

Nokkrum mánuðum fyrir andlátið fór Kolbrún með eiginmanni og vinum erlendis í hjólaferð. Þá gerist það sem áður hafði gerst að hún fær flog tengt meininu í höfði hennar. Einhver hefði nú kannski lagt árar í bát eða makinn sett viðkomandi stólinn fyrir dyrnar, en ekki í þessu tilfelli. Það sem gerðist var að Kolbrún lagði reiðhjólinu en leigði sér í staðinn rafmagnshjól og kláraði þannig ferðina eins og hún hafði lagt upp með. Þetta heitir að kunna lífsleikni og það er hinn raunverulegi sigur í öllum veikindum. Að ná bata er ekki  beint sigur, heldur gjöf. Að lifa af öllum lífs og sálarkröftum í veikindum, það er hins vegar sigur.

Þegar ég hugsa um vini, sem ég hef setið hjá við sjúkrabeð, hugsa ég ekki um dauðann, ef hann kemur þá upp í huga minn hugsa ég miklu fremur um hvað dauðinn sé vanmáttugur gagnvart þreki mannssálarinnar. Þegar ég hugsa um Hauk Lárus vin minn sem lést úr blöðruhálskrabbameini fyrir um áratug þá sé ég hann fyrir mér  nýfimmtugan að halda upp á tímamótin á sólríkum sumardegi í garðinum við húsið okkar sem við bjuggum í við Laugarásveg 8, hann með sína fjölskyldu á efri hæð og ég með mína á þeirri neðri. Man hann í nýju gráu jakkafötunum úr pipar og salt efninu sem hann festi kaup á fyrir þessi tímamót, man hann svo glaðan innan um allt fólkið sitt, man glefsur úr ræðum vina hans, man dýrmæti stundarinnar sem við öll skynjuðum, man hlátur og hlýju. Hann var með ólæknandi krabbamein en það fékk samt ekkert pláss í veislunni, þannig virkar þrek mannssálarinnar, krabbameinið var afboðað en sólinni fagnað  í stað, garðurinn blómstraði, allt eins og það átti einmitt að vera  þennan dag.

Þegar ég hugsa um hana Katrínu mína sem lést úr brjóstakrabbameini tuttugu og átta ára að aldri, hugsa ég alltaf um það sem hún sagði við mig þegar við ræddum giftingu hennar og unnustans sem var skyndilega ákveðin í ljósi þess að hverju stefndi. Hún var þá orðin mjög máttfarin af veikindum svo að hjónavígslan fór fram við rúmstokkinn hennar og ég man og mun alltaf muna þegar hún horfði  í augu mín og sagði „ já þetta er víst rómantíkin.“ Síðan þá hefur rómantíkin ekki verið söm í mínum augum, þennan dag öðlaðist hún nefnilega dýpri merkingu, rómantíkin varð að sáttmála um að elska lífið eins og það kemur fyrir en ekki fyrifram gefnar hugmyndir mínar um hvernig það eigi að vera.  Aldrei hef ég verið viðstödd jafn rómantískt brúðkaup og það sem hún Katrín mín átti tveimur sólarhringum fyrir andlát sitt, hana hafði ég þekkt frá því að hún var lítil stúlka en fjölskyldur okkar tengdust.

Þegar ég hugsa um Helgu vinkonu mína sem lést fyrir rúmu ári úr brjóstakrabbameini, hugsa ég líka um það sem hún sagði við mig nokkru áður en hún kvaddi þessa jarðvist. Við sátum á kaffihúsi og drukkum kaffi latte og Helga var að smyrja sér beyglu með osti og sultu og allt var svo venjulegt í kringum okkur, ekkert í umhverfinu sem gaf tilefni til að ætla að við værum að eiga jafn innihaldsríkt samtal og raun bar vitni. Kaffivélin ýlfraði og hvæsti í bakgrunni samtalsins og fólk gekk inn og út af kaffihúsinu án þess að hafa hugmynd um að við værum að spjalla um eitthvað merkilegra en veðrið,  „veistu Hildur, segir Helga þá, ég er svo innilega þakklát fyrir að þetta hafi ekki hent mig fyrr því nú er ég á svo góðum stað í lífinu, í góðu jafnvægi segir hún og horfir á mig með sínum stóru lífsglöðu og húmorísku augum, ég er hamingjusöm í dag og það er svo mikilvægt þegar maður stendur frammi fyrir dauðanum.“ Þetta var hún Helga Hafsteinsdóttir hársnyrtir, hún var einstök manneskja.

Að öðlast bata og læknast af lífsógnandi sjúkdómi er ekkert annað en gjöf. Að lifa með lífsógnandi sjúkdómi og lifa vel án þess að mega vænta bata, það er sigur. Í dag er vonin sterk því vísindunum fleytir  hratt fram, við höfum ríka ástæðu til að vera bjartsýn þar sem við horfum til framtíðar.

En svo er líka svo mikil von fólgin í viskunni sem verður til í lífsleikni og æðruleysi þeirra sem ekki læknast en kenna okkur hinum sem eftir stöndum að lifa af listfengi.

Á tímum Kórónuveirunnar þegar svokölluð farsóttarþreyta gerir vart við sig er mikilvægt að muna eftir lífsleikninni sem hefur verið rauður þráður þessarar hugleiðingar minnar. Lífsleikni er að geta ræktað hamingju í ógninni, stundum flysjar meira að segja ógnin hismið frá kjarnanum þar sem sjálf hamingjan býr. Til að komast að þeim kjarna og til að leyfa erfiðleikum og þjáningu að flysja hismið frá kjarnanum þarf maður að tileinka sér þessa lífsleikni, sem Jesús frá Nasaret var alltaf að benda okkur á og hafði þar oftast lítil börn til fyrirmyndar. Þetta er ekki lífsleikni Pollýönnu heldur lífsleikni Jesú sem að snýst um að skapa sér sína veröld innan um allar ógnir heimsins, farsóttir og illvíga sjúkdóma, stríð og óréttlæti almennt. Að skapa sér sína veröld þar sem maður ákveður sjálfur að himininn sé fagur, fólk sé gott og óhætt sé að elska, því það er hægt í öllum hugsanlegum aðstæðum er upp koma og ef við sköpum okkur öll þennan litla heim í eigin skinni, eigin sál, verður alheimurinn allur betri.

( Flutt í Bleikri messu í Akureyrarkirkju 18.okt 2020)

 

 

 

 

Published inHugleiðingar