Í liðinni viku fór ég í mína reglubundnu sneiðmyndatöku og blóðprufu til að skoða hvort krabbamein sem ég var með fyrir tveimur árum væri ekki alveg örugglega á bak og burt. Sem betur virðist svo vera og ég auðvitað alltaf jafn þakklát fyrir góða skoðun. Um leið og ég hef fengið niðurstöðu úr skoðuninni læt ég að sjálfsögðu fjölskyldu mína vita, það er að segja þá fjölskyldu sem býr hér á landi. En síðan læt ég líka aðra fjölskyldu vita sem býr raunar á víð og dreif um heiminn, þó aðallega í Norður Ameríku. Sú fjölskylda hittist dag hvern á internetinu, nánar tiltekið á Facebook, í lokuðum hópi sem telur um þúsund manns.
Hópurinn umræddi samanstendur af fólki sem hefur greinst með sama krabbamein og ég glímdi við en umrætt mein er það sjaldgæft hér á landi að þegar ég greindist fyrst fyrir þremur árum leitaði ég þennan hóp uppi. Að tilheyra svona hópi er í senn gott og gjöfult en líka oft sárt og erfitt, eins og gengur og gerist í öðrum fjölskyldum. Fljótlega eftir að ég gekk inn í hópinn varð ég þess áskynja að innan hans ríkir alveg ótrúlega lítill eða varla mælanlegur fávitaskapur í samskiptum. Þarna er fólk að berskjalda sig bæði líkamlega og andlega, það ber undir hópinn ýmsar líkamlegar aukaverkanir af veikindum og meðferðum, til dæmis erfiðleika í kynlífi, þarna tjáir fólk trú sína að því marki að það segir við aðra „má ég biðja fyrir þér“ eða biður fólki blessunar á ögurstundum. Þarna er fólk að lýsa ákvörðunum sínum um að hafna meðferð og tilkynna okkur hinum að það sé í raun deyjandi. Þá er fólk um leið að segja frá bættri heilsu og krabbaleysi og hvetja hina áfram í voninni um sömu niðurstöðu. Og nú er ég búin að tilheyra þessum hópi í þrjú ár og ég man kannski eftir svona þremur skiptum þar sem stjórnendur skárust í leikinn vegna þess að einhver fór að reyna að selja skottulækningar og einhver sagði særandi hluti um samkynhneigða og trú annarra. Þess utan eru samskiptin ótrúlega falleg, heiðarleg og gefandi.
Innan hópsins samsamaði ég mig sérstaklega tveimur konum á mínum aldri sem lentu í því sama og ég, að mein þeirra dreifði sér í lifur. Önnur er enn að berjast, hin er látin. Sú sem er látin hét Tamara, hún var afar hlý manneskja stórglæsileg og listræn, eiginkona og þriggja barna móðir. Við fórum að spjalla á messenger, saga hennar var keimlík minni nema eftir aðgerðina hennar komu meinvörpin strax aftur og stækkuðu hratt. Ég var einmitt að skoða síðustu samskipti okkar á dögunum, ég hafði skrifað henni „ Hi Tamara, how are you doing“ og þegar ekkert svar hafði borist eftir tvær vikur, fór ég að skoða Instagram síðuna hennar og sá að eiginmaður Tamöru hafði tilkynnt andlát hennar. Og mér brá náttúrlega mjög mikið. Ég fór svo aftur inn á spjallið okkar núna í liðinni viku þegar ég var að skrifa þessa ræðu og las það frá upphafi til enda og fór þá að hágráta eins og við hefðum verið aldagamlir vinir, tvær manneskjur í sitthvorri heimsálfunni sem aldrei hittust í raunheimum.
Ísland er mikið fjölskyldusamfélag, mamma, pabbi, börn, systkini, frændur og frænkur. Helgar og frídagar er mjög heilagur fjölskyldutími hér og við viljum helst ekki þurfa að fórna þeim tíma fyrir eitthvað annað. Við höldum líka fyrirbrigði sem kallast ættarmót til að minna okkur á að við tilheyrum stórfjölskyldu. Þetta er að sjálfsögðu mjög fallegt og gott og heilbrigt og eðlilegt. Samt er ómögulegt að líta framhjá þeim veruleika að ekki allir eiga fjölskyldu, sumir hafa misst sína nánustu, ekki eignast afkomendur eða hafa heilsu sinnar og öryggis vegna þurft að koma sér út úr óheilbrigðum eða jafnvel ofbeldisfullum fjölskyldutengslum. Nú gæti einhver sagt, „já en er ekki óheilbrigði í öllum fjölskyldum?“ Jú vissulega eru engar fjölskyldur fullkomnar þó flestar séu þess virði að halda utan um þær og eiga hjá þeim skjól. En sumar fjölskyldur eru þó það vanvirkar og sjúkar að stundum er það fólki fyrir bestu að halda sig í hæfilegri fjarlægð, því miður.
Pistill dagsins er kærleiksóður Páls postula, um þessa ást sem er stærri og breiðvirkari en ástin sem við oft höldum að við höfum fangað. Kannski er þetta einmitt ástin sem ekki er hægt að fanga vegna þess að hún er svo breiðvirk og djúp, það er Guð. Enginn getur fangað Guð en Guð er að verki í ást sinni að skapa allskonar fjölskyldur út um allan heim, dag hvern.
Þegar Jesús bað lærisveina sína um að stofna kirkjuna, það er að segja þessa hreyfingu sem er hin kristna kirkja þá held ég að hann hafi einmitt verið að hugsa hana sem þessa stóru fjölskyldu, fjölskylduna sem að á foreldrið sem afhjúpar aftur og aftur vanvirk tengsl vegna þess að Kristur hreinlega kann ekki að elska af eigingirni né ótta, það er andstætt eðli hans. Þess vegna verður allt óheilbrigði sem kemur upp í kirkjunni svo hrópandi, verandi í fulkominni andstöðu við foreldrið sjálft Jesú Krist.
Fjölskyldur eru svo mikla meira en bara blóðtengsl, fjölskyldur eru þar sem elska verður umbreytandi, líknandi, læknandi afl, þar sem fólk fær að vera það sem það er. Hinsegin, kynsegin, af öllum kynþáttum, með heilsu og vanheilsu, tengslanet og ekkert net. Þess vegna eru sumar fjölskyldur bara fjölskyldur að nafninu til en aðrar í raun og sanni.
Á Íslandi sækja flestir kirkju til að vera viðstaddir fjölskyldutengdar athafnir, skírn, fermingu, giftingu og jarðarför. En þessar athafnir eru aðeins lítill partur af erindi kirkjunnar. Kirkjan á að vera fjölskylda án blóðtengsla, kirkjubyggingar eiga að vera heimili, öruggur staður til að vera á (eins og Brimborg) staður þar sem haldið er úti félagsstarfi að hætti Jesú frá Nasaret þar sem fólk finnur að það skiptir máli, er sýnilegt, virt og síðast en ekki síst elskað. Þar sem engin undirliggjandi pólitík eða gróðastarfsemi ræður ríkjum. Þar sem börn geta fundið hæfileikum sínum farveg en líka bara verið á eigin forsendum án þess að þurfa að sýna fram á sérstaka hæfileika eða getu, já bara verið.
Einsemd er að verða ein mesta heilsufarsvá samtímans. Fyrir því eru margar ástæður en kannski skiptir meira máli að bregðast hratt við í stað þess að eyða of miklum tíma í að greina vandann. Það eru margir einmana í okkar samfélagi og þeir sem eru einmana bera það ekkert endilega utan á sér. Fólk getur verið í flottri vinnu, í góðu líkamlegu formi og í fínum fötum en samt verið þjakað af einsemd. Kokteilboð og VIP boð eru ekki að fara að rjúfa þá einsemd. Það eina sem getur rofið djúpstæða mannlega einsemd eru einlæg, berskjölduð samskipti. Svolítið eins og í krabbameinshópnum mínum, þar sem allt er upp á borðum og enginn fær að dæma. Það eru slík samskipti sem rjúfa einsemd, þar sem enginn fær rými til að setja sig á hestinn háa.
Jesús frá Nasaret er sá sem hefur berskjaldað sig mest fyrir heiminum. Hann opnaði á að hafa verið freistað af djöflinu, hann grét með vinum sínum, hann varð hræddur þegar hann vissi að hann væri deyjandi og hann hékk hálfnakinn á krossinum meðan menn hæddu hann á Golgata til þess að frelsa okkar undan okkar eigin sjálfshatri. Þetta er foreldrið í kirkjunni okkar. En hann gerir líka kröfur til okkar barna sinna og þar liggur hlutverk kirkjunnar alla daga að vera ótæmandi auðlind kærleika og gera kröfu til barna sinna um að virkja þá auðlind heiminum til blessunar. Jesaja spámaður kemur betur orðum að þessu í undurfagurri lexíu dagsins þar sem hann segir:
Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
Þetta er kærleikurinn sem fellur aldrei úr gildi. Þetta er hlutverk kirkjunnar, alheimsfjölskyldunnar sem er eitt blóð í Jesú Kristi. Amen