Við lifum í lausnamiðuðum heimi. Ef eitthvað er að þá er eitthvað hægt að gera. Við eigum tækni, lyf og alls kyns verkfæri til að leysa ótrúlegasta vanda. Eina sem ekki er hægt að leysa nú frekar en áður er sorgin. Þó detta sumir í þá gildru að kalla eftir skyndilausnum, þá helst þeir sem standa álengdar og finna til vanmáttar að geta ekki komið til hjálpar. Oft hef ég fengið upphringingar frá vinum og nágrönnum syrgjandi fólks með ákall um hvort ekki sé eitthvað hægt að gera, setningin „þau verða að fá einhverja áfallahjálp“ hljómar þá oft eins og „það verður að skera manneskjuna upp og taka meinið“. Áfallahjálp og sorgarsálgæsla er hins vegar ekkert annað en samfylgd á göngu sem enginn veit hvað varir lengi. Þess vegna líður manni aldrei eins og reddara eða hetju í hlutverki sálgætisins, ekkert gifs, engin verkjalyf og heldur engin orð sem geta breytt því sem orðið er. Hins vegar áttar maður sig kannski betur á því hvað þýðir að vera manneskja, samferðamaður, samfélag. Það þýðir samfylgd, samhugur, samstaða.
Nú þegar kórónuveiran tekur óvænt stjórnina, rétt eins og sorgin gerir þegar hún vitjar okkar, fáum við sem samfélag það verkefni að vera til staðar hvert fyrir annað og upplifa hvert og eitt hvað það er að veita áfallahjálp. Allt í einu erum við öll á sama báti og enginn sem hringir í annan og segir „þú verður að bjarga þessu“. Allt í einu erum við öll prestar. Og það er eitt af því fallega og þakkarverða sem mun koma út úr þessum undarlegu aðstæðum. „Eins og vatnaliljan sem vex upp af leðjunni,“ sagði danski presturinn og rithöfundurinn Kaj Munk. Það er þegar erfiðar aðstæður færa okkur saman og skapa kærleika sem er kraftur alls sem lifir af og sigrar. Sama hvað hendir, þá er lífið aldrei vonlaust, vatnaliljan vex upp af leðjunni.
Það besta sem við getum gert núna í þessum aðstæðum sem sannarlega munu taka enda er að treysta fagfólki til að meta aðstæður og hlýða ráðleggingum þess. Vera í sambandi gegnum síma og samfélagsmiðla við fjölskyldu, vinieða Rauða krossinn 1717 eða prestana í sóknarkirkjunni ef okkur vantar mannlega nánd, umhyggju og uppörvun. Allar kirkjur hafa orðið heimasíður eða Facebook-síður þar sem hægt er að hafa samband og auglýstir símatímar eru til staðar. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar er á fullu við umönnun vegna líkamlegra veikinda og við sýnum því skilning og tillitsemi en Rauði krossinn, kirkjan og fleiri hreyfingar og stofnanir eru til staðar til að veita sálrænan stuðning. Þá skiptir einnig máli nú sem endranær að taka einn dag í einu vegna þess að ekkert okkar veit fyrir víst hvað ástandið mun vara lengi, þess vegna er verra að eyða orku í að kvíða hvað verði eftir tvo, þrjá eða fjóra mánuði. Mundu líka þegar þú ferð að sofa á kvöldin og upplifir angist að það kemur nýr dagur og þú ert nýr eða ný á hverjum degi, með nýja sýn, nýjan styrk, nýjan þroska, nýjar upplýsingar, nýja von.
Og svo er eitt sem þú getur alltaf reynt að gera og tileinka þér. Að taka eftir öllu því góða og fagra í lífinu. Já, gefðu gaum þeim sem finna lausnir á margþættum vanda sem veiran skapar. Sjáðu fólkið sem hugsar dagleg samskipti og umgengni upp á nýtt til að varna og hægja á smiti. Hlustaðu á þá sem gefa góð og gagnleg ráð og virkja forsjálni okkar hinna.Taktu eftir heilbrigðisstarfsfólkinu sem hleypur hraðar, meira og lengur þessa daga og vikur að lækna og líkna. Sjáðu og heyrðu listafólkið sem flytur ljóð og lag, fegurð og yl inn í nýjar aðstæður þegar samfélagið þarf á sálarhnoði og huggun að halda. Líttu á samkenndina og kærleikann sem sprettur fram þegar allir þurfa og verða að gæta hver annars. Sérðu ekki hvað veiran má sín lítils í alheimsumhyggjunni?
Hlustaðu eftir barnsrödd í fjarska eða nálægð, þar er framvindan, gleðin og vonin.
Horfðu á allt sem þú hefur árorkað í lífinu, allar hindranir sem þú hefur lagt að baki, finndu styrkinn þinn.
Hlæðu að eigin bröndurum og leyfðu þér að finna fyndinn flöt á
skrýtnum aðstæðum.
Elskaðu mikið, elskaðu meira og þú getur allt.