Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Sorgin er ekki sjúkdómur

Í dag höldum við allraheilagramessu hátíðlega en síðustu þrjúhundruð ár eða svo hefur þessi dagur verið helgaður öllum látnum sálum í kristinni kirkju þótt hann eigi sér mun lengri sögu úr kaþólskri trú af því að vera dagur látinna píslarvotta og þar af leiðandi dagur allra þeirra dýrlinga sem ekki eiga sér sérstakan dag í kirkjuárinu. Fyrsti sunnudagur í nóvember mánuði er því sérstaklega helgaður minningu látinna í evangelískri lútherskri kirkju og er það mjög fallegt, merkingarbært og mikilvægt.

Um leið og við hugsum til látinna ástvina og samferðarfólks er eðlilegt að sorgin láti á sér bæra, hún er jú gjaldið sem við greiðum fyrir að eiga ástvini og náin tengsl við dauðlegar verur. Sú manneskja sem kysi að vera alfarið laus undan sársauka sorgarinnar þyrfti jafnframt að velja að eiga alls engin tengsl við menn og dýr á ævigöngu sinni.  Það sem meira er, hún þyrfti líka að velja … Lesa meira

Við þingsetningu

Mig langar kannski ekki að tala um þetta hér við ykkur spariklædd og spennt fyrir þingvetrinum en ég ætla samt að gera það, vegna þess að ég held að það sé gagnlegt og kirkjan á umfram allt að tala um gagnlega hluti. Kirkjan á að hugga, uppörva, leiða og blessa og tala um gagnlega hluti, líka þegar hana langar frekar að tala um eitthvað létt og skemmtilegt.

Þess vegna ætla ég að tala um dauðaótta hér í dag. En af því að ég kann illa við að prédika yfir öðru fólki án þess að taka sjálfa mig í gegn um leið þá ætla ég að byrja á því að segja ykkur að ég er ekki undanskilin þeim ógagnlega veruleika sem er efniviður þessarar prédikunar. Mig langar þess vegna að segja ykkur frá einni birtingarmynd óttans sem hefur verið mér dulin, þar til nýlega. Þannig er að eftir krabbameinsveikindi eins og … Lesa meira

Hvað er friður?

Það er stundum sagt að ef maður hafi ekki heilsu þá hafi maður ekki neitt. Ég verð að segja að þessu er ég hjartanlega ósammála. Það er auðvitað þeim sem fyrir verður mikið áfall og sorg að missa heilsuna, ekki síst ef heilsubresturinn er varanlegur, ekki dreg ég dul á þá angist. Þó held ég og þykist vita að manneskjur geti átt mikil lífsgæði og hamingjuríkt líf þrátt fyrir allt, margir kynnast einmitt fyrst eigin styrk, þrautseigju og visku að ég tali nú ekki um djúpstæðum kærleika samferðarfólks og vinarþeli þegar þeir verða fyrir heilsutapi. Margir upplifa frið í æðruleysi sínu. Eins er svo margt sem fólk uppgötvar að það geti sinnt og hafi hæfileika til þegar annað er tekið sökum veikinda.

  Hins vegar er ég sannfærð um að það að lifa við stríð, sé nokkuð sem yfirtaki svo líf fólks að það sé mjög erfitt að njóta lífsgæða og … Lesa meira

Að prjóna sig í gegnum erfiðleika

Í aðdraganda guðsþjónustu sem helguð var hannyrðum og við nefndum prjónamessu átti ég áhugaverð samtöl við nokkra einstaklinga sem hafa sagt mér frá því hvernig hannyrðir og þá sér í lagi prjónaskapur hafa bjargað sálarheill þeirra á erfiðum tímum. Kona ein tjáði mér á dögunum að þegar hún hafi gengið í gegnum erfiðan hjónaskilnað og verið næst því frosin af angist og sorg hafi hún prjónað hverja peysuna á fætur annarri líkt og væri hún í akkorðsvinnu. Þannig sagðist hún hafa í raun sefað sjálfa sig og komist yfir erfiðasta hjallann í sínu skilnaðarferli. Sjálf fór ég ekki að prjóna fyrr en ég veiktist fyrir tveimur árum. Fram að því hafði prjónaskapur verið nokkuð sem ég var algjörlega búin að afskrifa eftir hörmulega vegferð í skóla þar sem mér tókst engan veginn að virkja áhuga eða einbeitingu til að gera nokkurn skapaðan hlut í handavinnutímum. Í raun og sanni var … Lesa meira

Sorgir kynslóðanna

Langalangamma mín tók sitt eigið líf. Hún hét Guðrún, var fædd 9.maí árið 1839 en drukknaði í Köldukvísl á Tjörnesi á miðju sumri árið 1895. Faðir minn, afkomandi hennar minntist aldrei, að mér vitandi, á þessi örlög langömmu sinnar sem honum hlýtur þó eiginlega að hafa verið kunnugt um miðað við hversu fróður hann var um sínar ættir.

Þegar pabbi var á fjórða aldursári eignaðist hann bróður sem lést nokkurra mánaða gamall úr veikindum sem ég hef aldrei fengið frekari útlistun á, líklegast hefur það verið hin svokallaða barnaveiki sem var býsna skæð. Litla drengnum var gefið nafn en ég fæ hvergi staðfestingu á því hvort hann hafi heitið Ingvi eða Ingi en annað hvort nafnið var það. Systir pabba sem er sú eina er eftir lifir af upprunafjölskyldu föður míns  segir mér að í raun hafi aldrei verið talað um bróður hennar sem lést í frumbernsku en skuggi sorgarinnar … Lesa meira

Bjútíboxið

Þegar ég fermdist fyrir sléttum þrjátíu árum voru ekki til neinir samfélagsmiðlar, ekkert Facebook, Instagram, Tik tok eða Snapchat. Þá voru heldur ekki til snjallsímar eða yfirhöfuð farsímar nema bara svona risastórir bílasímar sem að þóttu mikið tækniundur. Þegar ég fermdist var enn hringt úr skífusíma og flett upp í svokölluðum símaskrám. Þegar ég fermdist var öll sjónvarpsdagskrá í rauntíma og fólk þurfti að taka upp á svokallaðar vídeóspólur ef það vildi eiga eitthvað úr sjónvarpinu til að horfa á seinna. Tónlist var spiluð af hljómplötum en geisladiskar voru reyndar að koma sterkir inn á þessum tíma. Í sjónvarpinu voru svokallaðar þulur sem sögðu manni hvað yrði næst á dagskrá. Þegar ég fermdist voru engin Hvalfjarðargöng, maður þurfti að aka allan Hvalfjörðinn á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, það gat verið ótrúlega þreytandi, sérstaklega af því að Hvalfjörðurinn er þannig gerður að manni finnst alltaf eins og maður sé alveg … Lesa meira

Heiti pottur sjálfsmyndarinnar

Loksins, loksins, loksins. Loksins kom að því sem ég hef beðið svo lengi eftir.

Þegar ég var barn lét ég mig dreyma um að verða fullorðin. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman að vera krakki þrátt fyrir að eiga hreint ágæta æsku. Fullorðinsárin heilluðu, mig langaði snemma að ráða mér sjálf og sá fyrir mér að sem fullorðinn einstaklingur myndi ég fá meira út úr lífinu. Loks kom að því að ég varð fullorðin samkvæmt lögum en þá fyrst fór lífið að verða verulega flókið, kvíði jókst og allskonar verkefni drógu verulega úr dýrðarljómanum sem hafði umlukið þá stöðu að teljast fullorðinn. Til að gera langa sögu stuttu er það fyrst núna sem ég er að upplifa eitthvað í líkingu við það sem ég lét mig dreyma um að væri ljómi fullorðinsára en ekki misskilja mig, ég hef átt frábært líf og guð minn almáttugur hvað oft hefur verið gaman, fyrir … Lesa meira

Dauðaóttinn

Á undanförnum tveimur árum hefur það verið heilbrigðiskerfið og raunar krabbameinslæknirinn minn sem hafa kennt mér hvað mest um trú mína og jafnvel guðfræði.

Þegar maður greinist með krabbamein langar mann auðvitað mikið til að fá staðfestingu á því að allt fari nú vel. Mann langar til þess að læknirinn geti sagt þegar krabbameinið er horfið að það komi ekki aftur, en hann getur það ekki. Læknirinn getur bara sagt þér að þú sért með krabbamein, hvað þurfi að gera og hverjar aukaverkanir meðferðanna hugsanlega verði. Ég hef í eðli mínu eða sökum uppeldis eða fortíðar mikla þörf fyrir að hafa stjórn á sem flestu. Það heitir með öðrum orðum að vera kvíðinn. Það merkir ekki að ég sé hræddari en aðrir að deyja eða takast á við áföll af því að ég er það ekki, í fullri alvöru, heldur hef ég einfaldlega mikla þörf fyrir að láta ekki lífið … Lesa meira

Stríð verður ekki unnið með vopnum og peningum

Guðspjall dagsins á nú heldur betur við þá tíma sem við lifum núna, sagan af því þegar djöfullinn reyndi að freista Jesú. Jesús var hungraður og þyrstur eftir fjörutíu daga föstu í eyðimörkinni og þá mætir djöfullinn og býður honum gull og græna skóga vilji Jesús falla fram og tilbiðja hann. En innra með Jesú var ekki tóm heldur elska svo hann lét ekki freistast.

 Þegar við erum hungruð og þyrst þá á djöfullinn greiðari aðgang að okkur. Mér finnst svo magnað hvernig biblían talar hreint og beint um djöfulinn og um leið merkilegt hvað nútímamaðurinn er feimin við hugtakið.  Við höfum öll jú okkar djöful að draga eins og máltækið segir. Glíman við alkóhólisma er sem dæmi sannkölluð glíma við djöfulinn því alkóhólismi eflist einmitt og herjar á okkur þegar við líkt og Jesús erum „hungruð og þyrst“ þegar okkur hungrar í sjálfsást, sterkari sjálfsmynd, mannlega nánd, þegar okkur … Lesa meira

Ótti er andskoti

Jesús talar mjög oft um óttann í guðspjöllunum og hvetur fólk til að láta hann ekki ráða för. Allt frá því að engillinn á Betlemhemsvöllum sagði fjárhirðunum að óttast ekki þegar hann birtist þeim í öllu sínu veldi og boðaði fæðingu frelsarans í fjárhúskofa lagði Jesús aftur og aftur áherslu á að við létum ekki óttann ráða för í lífi okkar. Oftar en ekki er það í aðstæðum þar sem viðstaddir upplifa eitthvað áður óþekkt, eitthvað sem hróflar við hugmyndum þeirra um framgang lífsins, samanber guðspjallið sem ég var lesið hér áðan, ummyndunina á fjallinu, atburður sem án efa hefði gert okkur mörg hver skelkuð og hvað segir Jesús þar þegar lærisveinarnir falla fram og hnipra sig saman dauðskelkaðir? Jú hann segir „Rísið upp og óttist ekki“. Breytingar er nokkuð sem gerir okkur mörg hver óttaslegin, hvort heldur sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar enda tölum við oft um að … Lesa meira