Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Heiti pottur sjálfsmyndarinnar

Loksins, loksins, loksins. Loksins kom að því sem ég hef beðið svo lengi eftir.

Þegar ég var barn lét ég mig dreyma um að verða fullorðin. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman að vera krakki þrátt fyrir að eiga hreint ágæta æsku. Fullorðinsárin heilluðu, mig langaði snemma að ráða mér sjálf og sá fyrir mér að sem fullorðinn einstaklingur myndi ég fá meira út úr lífinu. Loks kom að því að ég varð fullorðin samkvæmt lögum en þá fyrst fór lífið að verða verulega flókið, kvíði jókst og allskonar verkefni drógu verulega úr dýrðarljómanum sem hafði umlukið þá stöðu að teljast fullorðinn. Til að gera langa sögu stuttu er það fyrst núna sem ég er að upplifa eitthvað í líkingu við það sem ég lét mig dreyma um að væri ljómi fullorðinsára en ekki misskilja mig, ég hef átt frábært líf og guð minn almáttugur hvað oft hefur verið gaman, fyrir … Lesa meira

Dauðaóttinn

Á undanförnum tveimur árum hefur það verið heilbrigðiskerfið og raunar krabbameinslæknirinn minn sem hafa kennt mér hvað mest um trú mína og jafnvel guðfræði.

Þegar maður greinist með krabbamein langar mann auðvitað mikið til að fá staðfestingu á því að allt fari nú vel. Mann langar til þess að læknirinn geti sagt þegar krabbameinið er horfið að það komi ekki aftur, en hann getur það ekki. Læknirinn getur bara sagt þér að þú sért með krabbamein, hvað þurfi að gera og hverjar aukaverkanir meðferðanna hugsanlega verði. Ég hef í eðli mínu eða sökum uppeldis eða fortíðar mikla þörf fyrir að hafa stjórn á sem flestu. Það heitir með öðrum orðum að vera kvíðinn. Það merkir ekki að ég sé hræddari en aðrir að deyja eða takast á við áföll af því að ég er það ekki, í fullri alvöru, heldur hef ég einfaldlega mikla þörf fyrir að láta ekki lífið … Lesa meira

Stríð verður ekki unnið með vopnum og peningum

Guðspjall dagsins á nú heldur betur við þá tíma sem við lifum núna, sagan af því þegar djöfullinn reyndi að freista Jesú. Jesús var hungraður og þyrstur eftir fjörutíu daga föstu í eyðimörkinni og þá mætir djöfullinn og býður honum gull og græna skóga vilji Jesús falla fram og tilbiðja hann. En innra með Jesú var ekki tóm heldur elska svo hann lét ekki freistast.

 Þegar við erum hungruð og þyrst þá á djöfullinn greiðari aðgang að okkur. Mér finnst svo magnað hvernig biblían talar hreint og beint um djöfulinn og um leið merkilegt hvað nútímamaðurinn er feimin við hugtakið.  Við höfum öll jú okkar djöful að draga eins og máltækið segir. Glíman við alkóhólisma er sem dæmi sannkölluð glíma við djöfulinn því alkóhólismi eflist einmitt og herjar á okkur þegar við líkt og Jesús erum „hungruð og þyrst“ þegar okkur hungrar í sjálfsást, sterkari sjálfsmynd, mannlega nánd, þegar okkur … Lesa meira

Ótti er andskoti

Jesús talar mjög oft um óttann í guðspjöllunum og hvetur fólk til að láta hann ekki ráða för. Allt frá því að engillinn á Betlemhemsvöllum sagði fjárhirðunum að óttast ekki þegar hann birtist þeim í öllu sínu veldi og boðaði fæðingu frelsarans í fjárhúskofa lagði Jesús aftur og aftur áherslu á að við létum ekki óttann ráða för í lífi okkar. Oftar en ekki er það í aðstæðum þar sem viðstaddir upplifa eitthvað áður óþekkt, eitthvað sem hróflar við hugmyndum þeirra um framgang lífsins, samanber guðspjallið sem ég var lesið hér áðan, ummyndunina á fjallinu, atburður sem án efa hefði gert okkur mörg hver skelkuð og hvað segir Jesús þar þegar lærisveinarnir falla fram og hnipra sig saman dauðskelkaðir? Jú hann segir „Rísið upp og óttist ekki“. Breytingar er nokkuð sem gerir okkur mörg hver óttaslegin, hvort heldur sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar enda tölum við oft um að … Lesa meira

“Þannig ber að fullnægja öllu réttlæti”

Í ljóðinu Fæðing Ljóssins yrkir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Stilltur, hljóður

finnur geislinn sér

farveg gegnum

alheimsmyrkrið.

Kvikur, skarpur

glitrandi fagur

gullinn strengur.

Þegar lengst er nótt

enn sem fyrr

fæðing ljóssins.

( AÁS)

Já einmitt þegar lengst er nótt

enn sem fyrr fæðing ljóssins

Guð er að verki, við finnum ljós í langri nótt, þykku stingandi ullarteppi myrkursins, þá einmitt fæðist barn í fjárhúskofa og vonin kveikir ljós. Þess vegna lifum við af allskonar hremmingar í þessum heimi, andlegar sem líkamlegar, en við verðum líka að trúa því að við komumst í gegnum þær og þar höfum við ríkar skyldur gagnvart hvert öðru. Guð kveikir ljós og er ljós en okkar er að leiða hvert annað gegnum dimma dali í átt til ljóssins. Ef við undirbyggjum ekki jólin saman sem samfélag ef við flyttum ekki hvert öðru góðu fréttirnar um sigur kærleikans yfir hatrinu og styrk hinnar barnslegu og fölskvalausu … Lesa meira

Laddi, Bó og barnið

Ég hef ákveðið að gera stóra og hugsanlega afdrifaríka játningu sem gæti gjörbreytt hugmyndum fólks um þann menningarvita sem ég hef hingað til reynt að vera. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég er týpan sem stilli á jólastöðina í útvarpinu um miðjan nóvember og hlusta á hana í bílnum hvert sem ég fer þar til jólin kveðja og stöðin með og þetta hef ég gert í mörg herrans ár. Ég leyfi jólastöðinni að umvefja mig með gömlu jólapoppi frá æsku minni, Ladda að syngja „Snjókorn falla“ og Björgvin og Svölu með sína dúetta og Chris Rea með „Driving home for christmas“ og þannig mætti lengi telja. Ég stilli ekki á þessa stöð í von um að heyra nýjustu jólalögin heldur einmitt þessi gömlu sem hafa fylgt mér frá bernsku jafnvel þótt mörg hinna nýju séu stórgóð og fallega flutt. Þegar ég stilli á jólastöðina er ég nefnilega ekki … Lesa meira

Hlutleysi er kjaftæði

Guðspjall dagsins fjallar um lækningu. Um það þegar Jesús reisir tengdamóður Símonar á fætur er hún liggur með sótthita og í framhaldi segir frá því þegar menn færðu til hans alla þá sem sjúkir voru og haldnir illum öndum og Jesús læknaði marga er þjáðust af ýmsum sjúkdómum og rak út marga anda en illu öndunum bannaði hann að tala því þeir vissu hver hann var.

Og hér stend ég hárlaus í prédikunarstól, rúmlega hálfnuð með lyfjameðferð og að þjóna í minni fyrstu messu í langan tíma og þetta er guðspjallið………Og svo efast menn um heilagan anda. Heilagur andi er leið Guðs til að hjálpa okkur að styrkja okkar eigin trú og samferðarfólks okkar. Þegar við upplifum sem dæmi hrifnæmi, hrífumst af fallegri náttúru, heillandi fólki, fagurri tónlist og listsköpun, verðum gagntekin af töfrandi en þó algengum andartökum eins og þegar ungabarn hjalar eða brosir eða þegar kotroskin krakki segir … Lesa meira

Sonur minn

Ég á nítján ára son sem heitir Haraldur Bolli oftast kallaður Halli Bolli. Ég á líka annan son sem heitir Jónatan Hugi og er þrettán ára, stundum kallaður Ljónshjarta af mömmu sinni, en þessi pistill er ekki um hann, Jónatan á eftir að fá sinn pistil síðar en stundum hef ég útskýrt fyrir sonum mínum að þó ég hæli öðrum þeirra þýði það ekki að ég sé ekki jafn stolt af þeim báðum. Ég er reyndar svo montin af þeim báðum að ég þarf frekar að stramma mig af til að koma þeim ekki í vandræðalegar aðstæður, en það er önnur saga.

Af mörgum ástæðum er ég montin af Halla Bolla mínum en þessi pistill fjallar hins vegar um það hvað mér finnst magnað og merkilegt að hann hafi af eigin frumkvæði sótt um og fengið starf við umönnun aldraðra og sjúkra á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Og nei það … Lesa meira

Áhrifavaldar

Að vera áhrifavaldur er nýtt hugtak á vinnumarkaði nútímans. Starfið fer að mestu leyti fram á samfélagsmiðlum og eins og ég skil það snýst vinnutilhögun áhrifavalda í því að safna eins mörgum fylgjendum og hægt er og auglýsa svo vörur fyrir ýmis fyrirtæki og verslanir. Þetta er í sjálfu sér bara nýtt form af auglýsingamarkaði þar sem einstaklingar reka sína eigin stofu á Instagram eða Snapchat eða jafnvel Tik Tok þó ég viti raunar lítið um þann miðil. Í dag eru áhrifavaldar samfélagsmiðlana fræga fólkið á síðum dagblaðanna. Í dag heyri ég börnin mín nefna nöfn við kvöldverðarborðið sem ég kannast ekkert við, það eru ekki lengur frægir leikarar, tónlistar eða íþróttafólk sem maður hefur kannski smá möguleika á að þekkja heldur snapchat og Instagram stjörnur og mér líður eins og ég sé miklu meira en miðaldra. Stundum líður mér reyndar eins og ég sé mið-alda en það er önnur … Lesa meira

Línuhraðallinn heitir Eir

1.kafli

Fjörutíu og tveggja. Mamma var fjörutíu og tveggja þegar hún fæddi mig. Allt mitt líf hef ég elt þessa tölu eins og hundur í fjárleit. Í undirmeðvitundinni bærðist einhver vissa um að þegar ég sjálf yrði fjörutíu tveggja ára myndi lífið taka nýja stefnu. Það reyndist sannarlega rétt. Þó óraði mig ekki fyrir með hvaða hætti.

Daginn fyrir fjörutíu og tveggja ára afmælið mitt er mér rennt inn í segulómtæki á sjúkrahúsinu á Akureyri, gamla innilokunarkenndin sem ég hélt að ég hefði yfirstigið fyrir löngu, lætur á sér kræla. Hjúkrunarfræðingurinn býður mér heyrnartól, útvarpið er stillt á Bylgjuna en hávaðinn í tækinu yfirbugar fljótt ofurhressar útvarpsraddir og íslenska dægurtónlist. Þegar slokknar á segulómtækinu er ég færð yfir í sneiðmyndatækið, enginn segir það upphátt, en ég veit auðvitað hvað er að gerast, það er verið að leita að hugsanlegum meinvörpum í líkama mínum.

Við ristilspeglun í endaþarmi fannst æxli sem … Lesa meira