Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Reykjavíkurdætur

Ég hef aldrei heyrt um að Jesús hafi orðið hneykslaður. Samkvæmt guðspjöllunum varð hann reiður, sár og þreyttur, hann grét en var aldrei hneykslaður. Ef maður pælir í því þá er heldur ekkert gagnlegt að hneykslast, skilar engu nema sóun á dýrmætum tíma, það fæðist engin niðurstaða af hneyksluninni. Reiðin getur hins vegar verið gagnleg og jafnvel falleg, sérstaklega þegar hún kviknar af ríkri réttlætiskennd sem er borin uppi af djúpri samkennd. Og grátur er ekkert annað en móðir mannlegra tilfinninga, grátur er meðal annars staðfesting á ást,þakklæti og samúð.
Ég varð vitni að tónlistaratriði Reykjavíkurdætra síðastliðið föstudagskvöld í sjónvarpsþættinum hans Gísla Marteins. Ég viðurkenni að hafa ekki rýnt mikið í efnisleg atriði lagsins en man að ég hugsaði samt á einhverjum tímapunkti að það væri orðið svolítið langt enda var ég að bíða eftir næsta þætti af Barnaby lögreglufulltrúa, ég er nefnilega orðin svolítið miðaldra og farin að meta … Lesa meira

Eurovisionprédikun

Bænin er sögð andardráttur trúarinnar, á sama hátt mætti segja að listsköpun sé súrefni allra samfélaga. Við tölum um að njóta menningar og lista, það er gott og gilt en þó ekki eini tilgangurinn, listin er líka til þess fallin að spegla sálarlíf okkar og hjálpa okkur að koma auga á allt hið sammmannlega í þessum heimi. Listin tjáir vilja til að stuðla að friði þótt hún geri það raunar oft með því að láta ófriðlega, ögra og jafnvel reiðast alveg eins og Jesús, þess vegna var Jesús einmitt bæði frelsari og listamaður, það má jafnvel líta svo á að hann hafi frelsað með list sinni.
Hvaða list okkur finnst góð er síðan allt annar handleggur og eitthvað sem jafn erfitt er að rökræða eins og kannski það að verða ástfanginn af annarri manneskju. Ef þú getur fært alveg köld rök fyrir makavali þínu þá veit ég ekki hvort ég … Lesa meira

Burberrys dúkkur

Skráði mig á samningatækninámskeið sem verður haldið í Háskólanum á Akureyri næstkomandi miðvikudag sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema ég sat í erfidrykkju um daginn og tilkynnti öllum við borðið að ég væri að fara á samskiptatækninámskeið og skildi svo ekkert hvers vegna fólk var svona hissa og vandræðalegt á svip fyrr en einn borðfélagi spurði hvort ég væri mikið að lenda í útistöðum við fólk. Nema hvað mismælaröskun virðist vera eitthvað sem hrjáir helst kvenfólk í minni fjölskyldu sem er komið af Matthildi Jónsdóttur í beinan legg, hún er ókrýndur meistari mismælanna, þetta virðist reyndar ágerast í kringum breytingaskeið en því er ekki að heilsa í mínu tilfelli. Um daginn sátum við á kaffihúsi og allt í einu segir mamma með þunga í röddinni ” hann pabbi þinn þoldi aldrei þessar Burberrys dúkkur” litli tískufíkillinn ég spenntist upp við orðið eitt en fattaði um leið að … Lesa meira

List, trú og dauði

Ég er búin að fatta hvers vegna ég finn til svona mikillar samkenndar með listamönnum í umræðunni um listamannalaun, í fyrsta lagi er það vegna þess að í mínum augum er listin hreinlega andardráttur mannlífsins og hins vegar er það vegna þess að það eru talsverð líkindi milli umræðunnar um list og trú og listamenn og þjóðkirkjuna, það er stórkarlastemningin sem hljómar einhvern veginn svona “af hverju að ausa peningum í hindurvitni sem valda börnum bara heilaskaða eða listsköpun sem hver sem er gæti nú framkvæmt, ha! það þarf nú engan meistara til að sletta smá málningu á striga hahahaha, af hverju að fara á tónleika þegar maður getur hangið á kommentakerfinu?“ Í alvörunni, er þetta þjóðarsálin sem við viljum varðveita, þjóðarsálin sem sér ekki gæði í öðru en að draga fisk úr sjó og fara á Þorrablót?
Mér dettur í hug í þessu samhengi að dauðinn sem er nú … Lesa meira

“Hefurðu lesið alla Biblíuna?”

„Hefurðu lesið alla Biblíuna?“ Er ein algengasta spurning sem ég hef fengið síðan ég hóf minn prestskap. Á fyrstu metrunum var svar mitt nokkuð loðið „ja svona næstum því“ en í dag er það mjög afdráttarlaust og satt„nei og hef heldur ekki hugsað mér það.“ Að lesa alla Biblíuna bara til þess að geta sagst hafa gert það er eins og að borða sig saddan í fjórtán fermingarveislum án þess rauninni að langa það. Þá er líka best að upplýsa að samlíkingin er ekki alveg úr lausu lofti gripin því undirrituð gerði þetta einmitt á barnsaldri, ekki vegna þess að hún væri svo svöng heldur vegna þess að hún var ekki búin að hugsa gjörninginn til enda og líka vegna þess að pabbi hennar var prestur í litlu samfélagi og þeim því boðið í allar þessar veislur.
Biblían er fjölmenningarsamfélag, hún býður ekki upp á ein algild siðalögmál frekar en … Lesa meira

Dæmisaga nútímans

Mörgum hjónaböndum lýkur vegna þess að annar aðilinn eða báðir telja sig ekki lengur elska makann. Þegar frá líður skilnaði undrar fólk sig á því að hamingjan láti á sérstanda svo þegar betur er að gáð kemur í ljós að það var ekki makinn sem svo erfitt var að elska. Auðvitað er hér aðeins dregin upp ein mynd af fjölmörgum þegar kemur að hjónaskilnuðum og stundum er ástæða þeirra mjög augljós og skýr og skilnaður hið eina rétta í stöðunni.
Ég hef alveg upplifað mig óhamingjusama í mínu hjónabandi og velt því fyrir mér hvort ekki væri einhver annar þarna út í veröldinni sem myndi skilja mig betur og styðja með markvissu hrósi og uppörvun að ég tali nú ekki um að gera líf mitt að einu samfelldu ævintýri , já einhver sem væri alltaf að koma mér skemmtilega á óvart.Ég man að ég hugsaði þetta stundum þegar ég var … Lesa meira

Almar og albönsku fjölskyldurnar

Jólaprédikunin á það til að skrifa sig sjálf, á liðinni aðventu skrifaði lífið og tíðarandinn nokkrar. Einn frumlegasti helgileikur síðari ára var án efa „Almar í kassanum“ sem þjóðin fylgdist með í heila viku á internetinu. Almar var nakinn inn í glerkassa og því fóru frumþarfir hans ekki framhjá glöggum áhorfendum. Og það var einmitt það sem kom fólki mest á óvart og vakti jafnvel hneikslan að maðurinn skyldi gera slíkt fyrir allra augum það er að segja þeirra sem kusu að horfa. Þegar ég fór að uppgötva evrópskar raunsæismyndir á sínum tíma eins og verk breska leikstjórans Mike Leigh þar sem venjulegt fólk með óviðurkennt útlit situr á salerninu á meðan það talar við makann sem stendur inn í svefnherbergi með stýrur í augum uppgötvaði ég, mér til mikillar skelfingar, að amerískt kvikmyndauppeldi hafði tekist að gera mig forviða yfir slíkum senum. Mér fannst nánast eins og ég væri … Lesa meira

Í döprum hjörtum ( jólasaga)

„Helvítis Léttbylgjan með allt sitt jólagarg“ hugsar Marteinn um leið og hann ýtir á leitartakkann á útvarpinu , gamla gufan stendur fyrir sínu en dóttirin stillir á þennan ófögnuð þegar hún fær bílinn að láni. „Gimsteina og perlur, gullsveig um enni“ syngur Helgi Björns eins og rifinn saxófónn, „djöfull er þetta þreytandi“ tautar Marteinn um leið og Rás eitt birtist eins og frelsandi engill í andlegri eyðimörk sem ber honum það sem máli skiptir,dánarfregnir og jarðarfarir. Marteinn Jónsson er ekki það sem menn kalla jólabarn þó hann reyni allt hvað hann getur til að halda andliti gagnvart fjölskyldunni. Hann er meira að segja í skreytingarnefnd húsfélagsins og þurfti þess vegna að taka afstöðu til þess hvernig seríur ætti að kaupa fyrir blokkina. Hann eyddi heilli klukkustund af ævi sinni í að ræða aftur á bak og áfram um hvort sniðugra væri að kaupa marglitar seríur eða hvítar, það skipti víst … Lesa meira

Ég er Frosti og Máni kirkjunnar

Ég er alltaf að bíða eftir því að Guð segi mér að gera eitthvað annað en að vera prestur. Ástæðan fyrir því að ég fór í guðfræði á sínum tíma og tók vígslu var eiginlega sú að ég hélt að ég gæti ekki neitt annað. Ég var svo sem ekkert námsséní í menntaskóla, afleit í raungreinum og bara svona meðal í öllu hinu. Fékk að vísu alltaf hátt í dönsku, en hverjum er ekki sama. Það voru heldur ekki foreldrar mínir sem hvöttu mig til að fara út í prestskap, ég var ekkert að gera stóra hluti þegar ég fylgdi pabba eftir í hans embættisverkum, spilaði reyndar einu sinni á fiðlu í sunnudagaskóla á Svalbarðseyri og uppskar meira fliss en aðdáun. Þegar ég var nývígð 27 ára gömul og reyndi að ganga í prestaskyrtu innan um annað fólk leið mér alltaf svolítið eins og ég hefði orðið eftir við dimmiteringu … Lesa meira

Að skapa úr nóttu nýjan dag

Að elska er að skapa úr nóttu nýjan dag.
Draga gardínur frá glugga, breiða teppi yfir sæng
búa um rúm, hita kaffi
veiða fisk úr frosti.
Kveikja á barnatímanum, slökkva á útvarpinu
Smyrja kæfubrauð og festa í filmu.
Sjóða hafragraut, kyngja lýsi
og kúgast.
Blanda grænan drykk
“mamma er þetta geimverulýsi”?
Hugsa til kvöldsins
„á að steikja fiskinn eða baka?“
Kyssa bless, vera hress.
Hita bílinn, hlusta á Léttbylgjuna, skafa rúðu með geisladisk
til stuðnings gigtveikum
“ekki reynist frostið það, svo mikið er víst.”
Koma heim
borða fisk með ástvinum og tómatsósu.
Horfa á fréttir og Kastljós
Draga niður gardínur,
Pissa
elskast
kyssast
hin heilaga þrenning mannkyns.
Bjóða góða nótt
samlagast myrkrinu
Í draumi um nýjan dag
nýtt ljóð og nýjan hafragraut
Því hver vill lifa daginn í gær, lesa gömul ljóð og borða kaldan hafragraut?
Að elska er skapa úr nóttu nýjan dag ( HEB)… Lesa meira