Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Aldrei of stór til að þiggja hjálp

Ég heiti Hildur Eir og safna óvenjulegum greiningum. Geðkvillinn sem hefur fylgt mér frá unglingsaldri heitir árátta og þráhyggja. Yfir honum hefur hvílt þögn og skömm til þessa dags og einmitt þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum árum að skrifa um hann bók, ekki dagbók fyrir sjálfa mig að lesa heldur bók sem var gefin út í nokkur þúsund eintökum og seldist ágætlega í flestum bókabúðum landsins. Gömul vinkona sagði við mig ekki alls fyrir löngu „ Hildur þú hefur nú alltaf haft smá þörf fyrir að ögra“ ég hugsa að þannig hafi ég verið sem unglingur eitthvað fram eftir aldri. Það sem hefur átt sér stað á seinni árum þegar ég hef brotist fram með allskonar yfirlýsingar og efnislýsingar á oft undarlegri lífsreynslu tengist miklu fremur minni eigin forvitni og undrun yfir lífinu og vangetunni til að halda kjafti um það. Mér finnst einhvern veginn að sem samferðamanneskja annarra … Lesa meira

Þar sem ég skríð upp í fang umhyggjunnar

Þrjár konur komu að gröfinni á páskadagsmorgni. Þrjú lífsgildi komu að gröf  Jesú á páskadagsmorgni, þau kærleikur, umhyggja, hugrekki.

Mig langar að tala um umhyggjuna. Það er ekki erfitt þessa dagana, við erum bókstaflega vafin umhyggju úr ýmsum áttum, samfélagið er borið uppi af umhyggju fjölmargra starfsstétta en líka af þjóðarsálinni sjálfri. Umhyggju sýnum við hvert öðru með því að fylgja fyrirmælum fagfólks, með því að sýna þolgæði í krefjandi aðstæðum, já með því að vanda okkur sérstaklega í samskiptum þar sem margir eru óvenju kvíðnir og viðkvæmir nú um stundir. Fjölmargir óttast um heilsu sína og sinna nánustu, óttast um afkomu, hafa jafnvel misst vinnuna að hluta eða alveg. Mörg erum við þreytt á löngu tilbreytingarleysi og einangrun að loknum vetri sem gaf lítið svigrúm til ferðalaga sökum veðurlægða, hvar ein tók við af annarri. Umhyggja er líka að vita að sumir lifa alla daga, ár eftir ár við … Lesa meira

Elskaðu mikið, elskaðu meira

Við lif­um í lausnamiðuðum heimi. Ef eitt­hvað er að þá er eitt­hvað hægt að gera. Við eig­um tækni, lyf og alls kyns verk­færi til að leysa ótrú­leg­asta vanda. Eina sem ekki er hægt að leysa nú frek­ar en áður er sorg­in. Þó detta sum­ir í þá gildru að kalla eft­ir skyndi­lausn­um, þá helst þeir sem standa álengd­ar og finna til van­mátt­ar að geta ekki komið til hjálp­ar. Oft hef ég fengið upp­hring­ing­ar frá vin­um og ná­grönn­um syrgj­andi fólks með ákall um hvort ekki sé eitt­hvað hægt að gera, setn­ing­in „þau verða að fá ein­hverja áfalla­hjálp“ hljóm­ar þá oft eins og „það verður að skera mann­eskj­una upp og taka meinið“. Áfalla­hjálp og sorg­arsál­gæsla er hins veg­ar ekk­ert annað en sam­fylgd á göngu sem eng­inn veit hvað var­ir lengi. Þess vegna líður manni aldrei eins og redd­ara eða hetju í hlut­verki sál­gæt­is­ins, ekk­ert gifs, eng­in verkjalyf og held­ur eng­in orð sem geta … Lesa meira

Öll saman á Golgata

Páskafastan hefur heldur betur hlotið nýja merkingu í ár. Sjövikna fastan sem hefst á öskudegi og stendur fram á páskadag er tíminn þar sem kristnu fólki er ætlað að búa sig undir það lán að fá að fæðast að nýju á páskum. Föstutímann á kristin manneskja að nota til að endurhugsa líf sitt og hlusta betur eftir hinum raunverulegu lífsgæðum og tileinka sér þau betur en áður, sem sagt gæðunum sem að Jesús frá Nasaret lagði aðal áherslu á. Þau myndu í stuttu máli vera þessi: Að hlúa að öllu sem lifir. Að elska Guð í mönnum, dýrum og náttúru.

Sú páskafasta sem nú stendur yfir býður raunar ekki upp á aðra möguleika en þá að hlúa að sköpunarverkinu, í ár er sum sé ekki um margar leiðir að velja. Aðrir hlutir og dauðir hlutir, verða víst að mæta afgangi vegna þess að nú geysar veira sem ógnar mannslífinu um … Lesa meira

Snerting á tímum kórónaveiru

Við eigum eftir að læra heilmikið af þessari kórónaveiru og uppgötva ýmislegt sem varpar ljósi á allt hið þakkarverða í okkar daglega lífi. Eitt það fyrsta sem mér dettur í hug er snertingin. Snerting segir svo margt, oft miklu meira en talað mál. Um helgina hef ég þjónað við tvær litlar skírnarathafnir þar sem fjölskyldur hafa komið saman til að fagna nýjum fjölskyldumeðlim og allri þeirri ást og þeirri gleði sem eitt lítið barn ber inn í heiminn. Þá er auðvitað mjög skrýtið og erfitt að mega ekki snertast, geta ekki faðmað foreldrana að athöfn lokinni, ömmurnar og afana og alla sem eru fullir af einlægum tilfinningum við stund sem er svo langt frá því að vera sjálfsögð, stund sem er svo máttug í varnarleysi barnsins. Maður er aldrei jafn glaður en um leið biðjandi eins og við skírn ungbarns. Þá er líka svo skrýtið að þegar ekki má snertast … Lesa meira

Exit á djöfulinn

Hefurðu veitt því eftirtekt þegar fólk talar um einhvern sem er kannski nýlátinn og hefur á orði að viðkomandi hafi verið yndisleg manneskja sem hafi þó ekki alltaf átt auðvelt líf eða jafnvel mjög erfitt? Þannig má ráða af samhengi orðanna að það sé til marks um mikla mannkosti og styrk að geta verið gefandi og góð manneskja, jafnvel þótt lífið hafi farið óblíðum höndum um mann. Ég hef raunar staðið sjálfa mig að því að tala um fólk í þessu samhengi, tekið sérstaklega fram að hinn látni hafi  verið einstakur þrátt fyrir sínar miklu raunir. Ef ég hins vegar rýni betur í hugsunina sé ég fljótt að hæglega megi snúa henni upp í það að fólki ætti kannski að leyfast að vera frekar andstyggilegt hafi það lifað mikinn sársauka. Hljómar þó frekar fjarstæðukennt, ekki satt?

Norsku sjónvarpsþættirnir Exit hafa vakið mikla athygli undanfarið og verið til sýningar í ríkissjónvarpinu … Lesa meira

Þarf ég?

Orðið ábyrgð virðist verða mér hugleiknara með aldrinum. Þegar ég var yngri olli það mér fremur óeirð, fannst það kannski hljóma eins og eldhúsdagsumræður á Alþingi, nokkuð sem varð víst að gerast en gat aldrei orðið skemmtilegt.

Samt tók ég snemma töluverða ábyrgð þó ekki væri nema bara fyrir það eitt að flytja að heiman sextán ára gömul og sjá um mig sjálf eins og raunar svo margir af minni kynslóð gerðu sem þurftu að sækja menntun í önnur byggðarlög.

Þegar maður er ungur er ábyrgð oft eitthvað sem virðist hefta möguleika manns á að gera það sem er skemmtilegt. Maður upplifir nám jafnvel sem töluverða truflun á félagsslífi og hollt mataræði og hreyfingu sem óþarfa inngrip í notalega hvíld, vinna virkar jafnvel sem afplánun. Með öðrum orðum þá einkennir ungdómsárin oft sú þrá að lifa góðu lífi án teljandi fyrirhafnar. Þetta er vissulega ekki einhlítt og margt ungt fólk … Lesa meira

Að erfa áföll

Mér liggur á hjarta að tala um vanvirk tengsl. Á nýrri plötu Bubba Morthens sem nefnist Regnbogans stræti er að finna samnefnt lag með eftirfarandi erindi:

Sumar manneskjur sannleikann þrá  

og aðrir þol’ann ekki vilj’ aldrei sjá.

Sumir erfa áföll forfeðra sinna

meðan aðrir hamingju í hjarta finna.

 

Já það er þetta með að erfa áföll forfeðra sinna.

Mér finnst mjög magnað að Bubbi skuli gera þetta að yrkisefni en þarf þó ekki að undra, komandi frá manni sem hefur eflaust unnið töluverða sjálfsvinnu í gegnum líf sitt.

Við vitum svo margt í dag um heilbrigt líferni, vitum að það er óhollt að reykja og drekka áfengi, vitum að gæði svefns skiptir miklu fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu, að svefnleysi getur veikt ónæmiskerfi okkar, valdið kvíða og depurð og ýtt undir offitu. Við vitum að sykur er óhollur og að góð fita er bráðnauðsynleg. Við vitum að streitan … Lesa meira

Teitistruntan talar

Á þessum fimm árum sem í ár eru liðin frá því að ég hætti að neyta áfengis hef ég einhvern veginn alltaf gætt þess, kannski í ákveðinni meðvirkni eða hreinum ótta við að vera talin teitistrunta, að tala ekkert um hvernig það sé að vera edrú innan um drukkið fólk. Ég hef sumsé þurft fimm ár til safna kjarki til að segja það sem mér raunverulega finnst um að vera edrú innan um blindfullt fólk. Ætli ástæðan sé ekki sú að normið í okkar samfélagi er að fullorðið fólk megi fokka reglulega upp í miðtaugarkerfi sínu á meðan edrúmennska er talin merki um annað hvort fasisma eða skrautlega fortíð. Áður en lengra er haldið langar mig að taka það skýrt fram að ég geri töluverðan greinarmun á fólki sem finnur á sér og fólki sem er fullt. Mér finnst oft mjög gaman að vera innan um þá sem kunna að … Lesa meira

Manstu?

Horft um öxl árið 2020.

Manstu bláan opal

Manstu fótanuddtækið í sama lit

Manstu Húsið á sléttunni

Manstu Sunnudagshugvekjuna í sjónvarpinu

Manstu Bryndísi Schram og Ladda í Stundinni okkar

Manstu Prins Póló í gömlu umbúðunum

Manstu veginn um Öxnadalsheiðina áður en hann var lækkaður

Manstu sveitaböllin í Víkurröst og Ýdölum

Manstu Vigdísi forseta

Manstu fimmstafa símanúmerin, mitt var 33106

Manstu Sinalco og Tab

Manstu Foreldraröltið um helgar á Akureyri

Manstu Dynheima

Manstu hamborgarana á Krókeyrarstöðinni

Manstu veginn yfir Vaðlaheiði

Manstu ávísanaheftið

Manstu skyldusparnaðinum

Manstu leikfangaverslun Sigurðar Guðmundssonar

Manstu lakkrísreimarnar í Amaro

Manstu börn að leik áður en snjallsímar komu til sögunnar

Manstu útileikina Yfir, Eina krónu og Hlaupa í skarðið

Manstu Bjarna Fel  og augabrúnirnar hans í íþróttafréttunum

Manstu tíu lítra mjólkurkassana með rauða tappanum

Manstu þulurnar í sjónvarpinu

Manstu ávarp útvarpsstjóra á gamlárskvöld

Manstu sjoppuna í Vaglaskógi

Manstu jólakortin

Manstu íslenskar kvikmyndir þegar þær fjölluðu um galið fólk í … Lesa meira