Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Að eiga eða eiga ekki drauma

Í dag, kvenréttindadaginn 19.júní átti ég erindi við 97 ára gamla konu sem býr ein hér í bæ en var lengi bóndi og húsfreyja í sveit. Hún átti sjö börn, fjögur eru látin og eiginmaðurinn líka. Þegar mig bar að garði var hún búin að hella upp á kaffi og raða sjötíu ára gömlu ryðbrúnu stráheilu stelli á eldhúsborðið, bera fram kleinur og jólaköku og smyrja soðið brauð með fagurbleikum reyktum laxi. Ef orðinu æðruleysi er flett upp í íslenskri orðabók er mjög líklega að finna mynd af andliti þessarar konu. Kvenréttindadagurinn barst í tal og við ræddum jafnréttisþróun síðustu níutíu ára eða allt frá því að vinkona mín fór að muna eftir sér. Hún var alin upp af einstæðri móður, vinnukonu sem fór á milli bæja og þvoði þvotta og sinnti grófari húsverkum eins og dóttir hennar komst að orði, „mamma var ekki höfð í eldhúsinu, hún sinnti Lesa meira

Edrúmennskan og englarnir

 

 Þá fór djöfullinn frá Jesú .

Og englar komu og þjónuðu honum.

Á þessu sumri verða liðin fjögur ár síðan ég hætti að neyta áfengis. Ég fór ekki í meðferð heldur vaknaði bara upp í skelfingu einn ágústmorgunn að áliðnum slætti með hjartslátt í höfði og vissi að nú væri annaðhvort að duga eða drepast. Ég valdi að duga, sem er besta ákvörðun sem ég hef nokkurn tíma tekið. Það er svolítið merkilegt með þessa ákvörðun að hún hefur gríðarleg margfeldisáhrif, í raun miklu meiri heldur en maður hefði að óreyndu nokkurn tíma grunað.

Þegar ég segi að það að hætta að drekka áfengi hafi verið besta ákvörðun lífs míns get ég hæglega fullyrt á sama tíma að hún hafi verið ein sú erfiðasta, ekki þó það að taka ákvörðunina sem slíka, heldur fremur afleiðingum hennar. Á þessum fjórum árum sem liðin eru síðan ég setti tappann í … Lesa meira

“Þetta er hrein ást”

Þessi páskahugleiðing var skrifuð á föstudaginn langa. Ef til vill finnst einhverjum skrýtið að velja þann dag til að hugleiða lífið og upprisuna en mér finnst það ekki,  mér finnst eiginlega enginn dagur á árinu jafn góður til að hugleiða og fagna lífinu eins og föstudagurinn langi.

Í huga mínum er upprisa frelsarans Jesú Krists hin hreina, sanna ást. Ástin getur nefnilega verið hálfgert kamelljón, ástin getur verið grunn og heimsk, eigingjörn og sjálfhverf. Ástin getur líka verið þroskaþjófur þegar  hún er hrædd, kvíðin og stjórnsöm. Ástin getur verið óvægin og köld, þegar hún er ekki endurgoldin. Ástin ein og sér sigrar ekki allt, aðeins ást upprisunnar fær sigrað allt og dauðann líka.

Í liðinni viku stóð ég við opna kistu vinkonu minnar sem lést á miðjum aldri úr krabbameini. Við stóðum þarna fjórar yfir henni, ég og dætur hennar þrjár. Um morguninn höfðu þær farið upp í kapellu að … Lesa meira

Hjartað er lygamælir

Ég hef nú oft sagt frá því bæði í ræðu og riti að þegar ég fermdist árið 1992 hafi ég fengið Íslendingasögurnar að gjöf frá foreldrum mínum. Það þótti að vonum nokkuð sérstakt að fjórtán ára gamall unglingur hefði svo brennandi áhuga á fornsögunum íslensku að hann væri tilbúinn að fórna því að fá hugsanlega hljómflutningsgræjur, rúm eða reiðhjól frá þeim sem stærstu gjafirnar gefa á tímamótum sem þessum. Ég var auðvitað svolítið skrýtinn krakki og allt það í jákvæðri merkingu þó, þannig að ég held að vinir mínir og jafnaldrar hafi nú ekkert kippt sér neitt sérstaklega upp við þessa sérvisku mína.

Það sem ég hef hins vegar ekki greint frá varðandi gjöf foreldra minna og opinbera því fyrst núna er að ég hef aldrei opnað þessar bækur, ekki lesið stafkrók í þeim. Ég las að vísu Gísla sögu Súrssonar í tíunda bekk eins og aðrir grunnskólanemar og Njálu … Lesa meira

Líf eftir skilnað

Mikið óskaplega er nú gott að maður skuli ekki geta séð inn í framtíðina, ég hef raunar aldrei skilið þörf fólks fyrir  að láta spá fyrir sér, ef það er eitthvað sem lífið hefur nú þegar kennt mér er að það er mikil blessun að þekkja ekki morgundaginn. Samt á maður alltaf að gera ráð fyrir morgundeginum og það sem meira er, gera ráð fyrir að hann verði býsna góður, sú von bætir nefnilega daginn í dag  sama hvernig hann nú annars er. Sautján ára gömul kærasta sonar míns spurði mig á dögunum hvort það væri ekki vont að fæða barn, ég hugsaði mig um, horfði í sautján ára augu hennar og svaraði „ ekki svo mjög því sársaukinn hefur jákvæðan tilgang.“  Svar mitt var auðvitað hvít lygi, allar konur sem fætt hafa barn vita að það er engin spameðferð að þrýsta heilli manneskju út um klofið á sér, nákvæmlega … Lesa meira

Að hlýða yfir tilfinningar

Flestir foreldrar geta verið sammála um það að tíminn þar sem börnin ung og ómálga veikjast sé mjög erfiður og kvíðavekjandi. Það er svo vont að horfa upp á vanlíðan ungbarns og vita ekki hvað amar að, það er á þeim stundum sem maður væri tilbúinn án umhugsunar að skipta við barnið og taka á sig þjáningar þess. Ég minnist þess einmitt sem móðir hvað mér var létt þegar drengirnir mínir voru komnir á þann aldur að geta tjáð sig og ég þurfti ekki lengur að mála skrattann á vegginn í hvert skipti sem þeir fengu smá hitavellu og skældu af vanlíðan.

Í síðasta fermingartíma í kirkjunni gerði ég dálitla könnun þar sem um var að ræða hóp fjörutíu unglinga. Ég bað þau sem ættu auðvelt með að spjalla um íþróttir að rétta upp hönd og er skemmst frá því að segja að næstum allur hópurinn rétti upp hönd. Næst … Lesa meira

Guð býr í seiglunni

Fáar lýsingar á trúartrausti hafa haft jafn mikil áhrif á mig og sú sem ég upplifði á dögunum í samtali við uppkomin börn manns sem mér var falið að jarða.

Eitt barna hans fékk að gjöf í æsku bókina Bróðir minn Ljónshjarta sem pabbinn vildi þá endilega fá að lesa og það var einmitt svo lýsandi fyrir hann að staðnæmast við lokasetningu bókarinnar þar sem Snúður kallar á bróður sinn Ljónshjarta og segir „ Já Jónatan ég sé ljósið, ég sé ljósið“ því án þess að hafa um það mörg orð sáði hann trúarvissu í hjarta barnsins með því að vera sjálfur upptekin af einmitt þessari setningu, sem í einfaldleika sínum lýsir svo mikilli von.

Börnin lýstu því svo að faðir þeirra hefði átt  náttúrulega og áreynslulausa trú. Hann var ljóðelskur og oftar en ekki skynjuðu börnin trúarsannfæringu föðurins í gegnum ljóðin og textana sem hann unni og kunni vegna … Lesa meira

Hamingjan er hér

Þau eru auðvitað mörg áhyggjuefnin í dag, hvert sem litið er, Trump í Bandaríkjunum, Pútín í Rússlandi, plastmengun í sjó, matarsóun, öfgahópar, ójöfnuður, ófriður og offita, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Tilefni til kvíða eru svo víða að í raun eru órúlegt að við skulum yfirhöfuð ná að reisa höfuð frá kodda á morgni hverjum. Ef út í það er farið er alveg ástæða til að örvænta, heimurinn er hættulegur, ógnir liggja víða, óréttlætið grasserar sem aldrei fyrr og það sem meira er við getum ekki skýlt okkur bak við þægilega fáfræði vegna þess að við erum öll á samfélagsmiðlum þar sem áhyggjuefnin eru stöðugt til umræðu. Samt erum við hér að kveðja enn eitt árið og taka á móti nýju og einhvern veginn höfum við lifað af þetta ár þrátt fyrir allar þess áhyggjur og óleyst vandamál, er það ekki út af fyrir sig alveg stórmerkilegt? Mörg okkar … Lesa meira

Í andardrættinum

Í nýútkominni ljóðabók sinni Haustaugu yrkir öldungurinn Hannes Pétursson eftirfarandi ljóð

 

Hinstu þakkarorð sem ég skrifa

þau skrifa ég

eingöngu

með andardrætti mínum

 

á örk

úr alhvítri birtu.

 

Þau orð

munu ástvinir mínir

einir geta lesið.

 

Þau skildu ævinlega

andardrátt minn

 

Er ekki ástin einmitt það að þekkja andardrátt þess sem þú elskar? Er það að elska ekki einmitt að leggja sig eftir andardrættinum og festa sér í minni? Manstu þegar þú varst heima með hvítvoðung, vaknaðir um miðja nótt til að hlusta eftir andardrætti hans, lagðir fingur að vitum barnsins til að gá hvort  andaði ekki örugglega? Þekkja ekki allir foreldrar þann gjörning meðan börnin eru svona agnarsmá og varnarlaus?

Ég stóð inn í bókabúð á aðventunni og fletti í gegnum jólabækurnar, kom þá auga á þessa bók hans Hannesar, eins af mínum eftirlætis skáldum, svo  flínkur að teikna upp fallegar myndir, vitur og … Lesa meira

Vitið er í vanmættinum

Þegar faðir minn lést fyrir um áratug stóð ég á þrítugu og hafði þá starfað sem prestur í um þrjú ár. Ég minnist þess að vinir höfðu á orði við andlát hans að nú kæmi sér vel fyrir mig að vera prestur og þekkja sorgarferlið sem slík. Ég var þó fljót að komast að því að enginn er prestur í eigin sorg.

Á þessari aðventu fæst ég við annars konar sorg sem tengist breytingum á fjölskylduhögum og aftur er ég minnt á það að enginn er prestur í eigin sorg. Já jafnvel þó ég hafi starfað við að liðsinna hjónum á tímamótum sem þessum í ein þrettán ár get ég engan veginn sest andspænis sjálfri mér og heyrt og skilið eigin hugsanir og líðan, ég þarf speglun eins og allir aðrir sem hafa gengið í gegnum það sama. Sem betur fer bý ég þó svo vel að eiga vandaða og … Lesa meira