Skip to content

Category: Pistlar

Elsku unglingur

Ég hef stundum sagt við fermingarkrakkana að ég muni vel hvernig það var að vera unglingur, um leið hef ég mætt fremur tómlegu augnaráði frá þeim því auðvitað sjá þau bara torfkofa og skinnhandrit fyrir sér þegar ég nefni mín sokkabandsár. Og það má kannski til sanns vegar færa því sennilega er meiri munur á unglingsárum mínum og þeirra en allra þeirra kynslóða sem á undan hafa gengið. Það sem skilur á milli minnar kynslóðar og þeirra  eru auðvitað snjallsímarnir og samfélagsmiðlarnir og áreitið sem þeim fylgir en líka möguleikarnir, gleymum þeim ekki. Sumir fagaðilar vilja meina að þessi tækni hafi ýtt undir kvíða og þunglyndi meðal unglinga og ég ætla hvorki að rengja það né undirstrika hér enda erum við í raun enn á byrjunarreit í notkun þessarar tækni og ekki útséð með afleiðingar hennar. Eina sem mér dettur í hug er að tilkoma samfélagsmiðlana sé svolítið eins og … Lesa meira

Frúin í Hamborg

Manstu eftir leiknum Frúin í Hamborg? Í dag er sennilega orðið nauðsynlegt að spyrja þeirrar spurningar því nú eru komnar fram kynslóðir sem hafa ef til vill ekki alist upp við þennan leik. Frúin í Hamborg á nú sennilega ekki roð í snjallsímana þegar drepa þarf tímann á ferðum fólks um landið. Þegar ég var stelpa fórum við fjölskyldan stundum í þennan leik á meðan við hossuðumst í Citróenbílnum á holóttum vegum milli landshluta og þannig hjálpaði frúin okkur bæði að stytta ferðina og halda athyglinni frá bílveikinni sem stundum gerði vart við sig í ofurfjöðruðum bílnum. Hann var eiginlega með svo góða fjöðrun þessi bíll að stundum var maður ekki viss hvort setið væri í bíl eða flugvél. Nema hvað, reglurnar í Frúnni í Hamborg voru aðeins fjórar, þú máttir ekki segja já/nei/svart eða hvítt þegar þú varst spurður hvað þú hefðir gert við peningana sem téð frú hefði … Lesa meira

Að vefja lífið reifum

Á liðinni aðventu jarðsöng ég konu sem var mikið náttúrubarn. Hún bjó um tíma í sveit og elskaði þar hverja þúfu og blóm, hvern fífil og fagurklukku, fugl og könguló, fjöll og hóla. Einn fagran sumardag stóð hún út í bæjarlæknum og færði til grjót af þeirri yfirvegun og þrautsegju sem henni var svo eiginleg og þegar hún var spurð hverju það sætti var svarið að hún vildi magna upp niðinn í læknum svo hann bærist inn um svefnherbergisgluggann hennar á morgnana. Hún þráði að vakna við náttúruna vegna þess að náttúran er móðirin sem vefur mannkyn reifum með fegurð sinni og hljóðri ást. Þessi kona var  mikill umhverfisverndarsinni,  því til marks var hún löngu farin að flokka sorp áður en um það varð almenn vitundarvakning hér á landi, þá bjó hún til dýrindis jólagjafir úr endurunnu efni enda hafði hún listrænt auga og var mikil hagleikskona í höndum. Hún … Lesa meira

Bónusbömmerinn

 

Það kann að vera að eitthvert ykkar hafi einhvern tíma veitt mér athygli þar sem ég hef setið út í kyrrstæðum bíl framan við Bónus í Naustahverfi eins og óþekkur krakki sem fær ekki að koma með í búðina, svolítið skömmustuleg á svip. Ég vona þó að eiginmaðurinn sé ekki að fá baneitrað augnaráð frá samferðafólki mínu sem heldur að nú sé hann með frúna í harkalegri atferlismótun til að venja hana af stjórnlausum frekjuköstum yfir að fá ekki að kaupa Oreo kex og snakk í hverri búðarferð. Nei sannleikurinn er sá að stundum er ég búin að umgangast svo margt fólk yfir daginn að ég get ekki meir, kemst hreinlega ekki inn í búðina og sit því með skömmustulegan svip út í bíl og hlusta á útvarpið meðan eiginmaðurinn kaupir í matinn. En bíddu samt hæg/ur ekki að fara að vorkenna mér, þetta er algjört sjálfskaparvíti og hefur … Lesa meira

Að vera veikur

Mig langar til þess að vera hér með örlitla, óskáldlega hugleiðingu um það að takast á við veikindi og vera aðstandi. Og af því að ég tala um að vera óskáldleg þá þýðir það að ég ætla að vera praktísk í kvöld sem er raunar bráðnauðsynlegt  þó það sé kannski ekki eins ljóðrænt og spurningin um tilgang lífsins. Eða hvað? Er ekki lífið í heild sinni ljóð, eins konar safn myndbrota úr hversdeginum þar sem við tökumst á við það óæfða hlutverk að vera manneskja?

Mig langar til að bera hér fram nokkur praktísk ráð sem ég hef safnað að mér í gegnum tíðina meðal annars með því að vera aðstandandi  síðustu átján árin og prestur í rúman áratug og blanda þessu saman í örlítinn kokteil. Kokteillinn er þó ekki áfengur enda skiptir miklu máli að vera edrú þegar ógnir steðja að eða bara þegar lífið verður meira krefjandi. Það … Lesa meira

Nýjar tilfinningar

Á þessum sólríka degi sem er að kvöldi kominn skírði ég lítinn dreng í örmum ástvina. Um leið og athöfn lauk fór ég að dánarbeði eldri manns sem hafði kvatt  fyrr um daginn eftir erfið veikindi. Við rúmstokk hans sátu ekkjan og afkomendur og krossmarkið sem ég hafði rétt áður brugðið á enni og brjóst skírnarbarnsins var nú borið að brjósti þessa látna manns blandað tárum ástvina rétt eins og hann væri aftur orðin barn við skírnarlaug eilífðarinnar.

Í sjálfu sér er þetta ekki óvenjulegur dagur í lífi prests, við erum aftur og aftur kölluð frá einni laug til annarrar, já laug segi ég því lífið er vatn sem finnur sinn farveg til líknar og gleði. Það sem hins vegar gerir svona daga merkilega er að allar tilfinningar hvort sem er við skírn eða andlát eru nýjar. Þess vegna tekst maður í hvert sinn á við þá áskorun að hlusta … Lesa meira

Við erum öll vanrækt börn

Að vandlega ígrunduðu máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að djöfullinn sé  ekki til. Ég held að í heiminum sé engin illska, bara hungur. Ég held að Guð hefði aldrei skapað heim sem þar sem illskan er náttúrulögmál líkt og fæðing og dauði. Ef illskan væri náttúrulögmál þá hefði samviska okkar ekkert gildi og dygðirnar væru í besta falli hentugt skraut á terturnar sem við munum snæða hér upp í Hólaskóla á eftir. Illska þessa heims er vanræksla og hungur sem við höfum tækifæri til að bregðast við og um það fjallar þessi prédikun.

Þegar minnst er á vanrækslu dettur okkur fyrst börn í hug enda oftast talað um vanrækt börn en ekki vanrækta karlmenn og konur. Þó er það nú svo að öll erum við á einhvern hátt börnin sem við eitt sinn vorum, barnið býr innra með okkur allt lífið og brýst fram á gleði jafnt sem … Lesa meira

Takk Ólafur Ragnar!

TAKK Ólafur.
Ég á eina mjög skemmtilega minningu um Ólaf Ragnar sem nú lætur af embætti forseta Íslands eftir 20 ára þjónustu. Það var árið1997, ég var enn í menntaskóla en hafði að sumarstarfi að veita leiðsögn um Hóladómkirkju og bjó þá heima hjá foreldrum mínum. Á Hólahátíð þetta sumar flutti herra Ólafur Ragnar hátíðarræðu hvar hann tjáði sig um siðferðileg álitamál varðandi Decode og gagnagrunn Íslenskrar Erfðargreiningu en það var talsvert hitamál á þeim tíma. Ræðan rataði strax í fjölmiðla og vakti mikla athygli og umræðu. Foreldrar mínir voru vanir að bjóða ræðumönnum heim í mat að kvöldi Hólahátíðar og ég var auðvitað eitthvað að snattast þarna með mömmu, taka af borðum og bera fram veitingar. Allt í einu kemur Ólafur til mín og spyr með lágum rómi hvort ég geti leyft honum að hlusta einhvers staðar á útvarp, hann vildi ná fréttatímanum og heyra hvernig menn leggðu út … Lesa meira

Hamingjan er fórn

Að elska
er að hella upp á kaffi
án þess að hafa nokkurn tíma drukkið kaffi
og kveikja á útvarpinu
þótt maður þrái þögnina
bara vegna þess að hún þarf að vakna

Að elska
er að para saman svarta sokka
í stærð fjörutíu og fimm
svo hann fari ekki í ósamstæðum
til vinnu

Að elska
er að lakka á henni táneglurnar
meðan enski boltinn er í sjónvarpinu
og missa af þessu eina marki
til að hitta á réttan stað

Að elska
er að baka skúffuköku á sunnudegi
og bera fram með nýmjólk
þótt best væri að hann drykki bara undanrennu
eða vatn

Að elska
er að kaupa blómvönd í Bónus
og bera heim
í gulum poka
innan um klósetthreinsi
og kæfu

Að elska
er að horfa saman á kvikmynd
um eiturlyfjabaróna
í Mexícó
Og vera á túr
og langa bara að sjá fallegt fólk
sem myrðir ekki aðra
eða vaknar… Lesa meira