Nú ætla ég að segja mínar skólasögur gall í örverpinu við matborðið svo fjölskyldan snarþagnaði. Ég var orðin þreytt á því að fá ekki orðið og geta ekki sagt krassandi sögur úr skólastarfinu líkt og eldri systkini mín. Þá fannst mér ekki öllu skipta sú blákalda staðreynd að ég væri bara fimm ára og hreint ekkert byrjuð í skóla. Hófst nú æsileg frásögn af honum Malla sem var óþreytandi stríðnispúki og bókstaflega hélt öllum nemendum í heljargreipum og af Nonna skólastjóra sem dró Malla greyið á eyrnasnepplunum inn á skrifstofu, las honum pistilinn og gaf honum einungis tvo valkosti, annað hvort að haga sér eða hypja sig heim. Malli blessaður ákvað að haga sér en Guð má vita hvað það entist lengi. Að frásögn lokinni tók ég vænan bita af soðningunni og horfði hróðug yfir systkinahópinn og foreldra mína enda fannst mér ég loks vera orðinn fullgildur meðlimur þessa borðsamfélags. … Lesa meira
prestur