Skip to content

Hildur Eir Bolladóttir Posts

Að endurfæðast úr netheimum

Ég varð fyrir mjög merkilegri uppgötvun á dögunum, já það má nánast kalla það vitrun. Vitrun er orðið af því að það er það sem fólk verður fyrir í klaustrum, á eyðieyjum og jafnvel í fangelsum. Ég er stödd á Hólum í Hjaltadal í nokkurra daga leyfi við að skrifa bók. Ekki misskilja mig, það er ekkert fangelsi að vera hér, Hólar er yndislegur staður þar sem hin magnaða kirkjusaga drýpur af hverju strái, að vísu er nú jörð þakin snjó þannig að réttara væri að segja að sagan bergmálaði milli fjalla því þau er hér hvernig sem viðrar, jafnt vetur sem sumar. Hólabyrðan er svona eins og ættmóðirin í dalnum enda má segja að dómkirkjan hafi fæðst af henni, byggingarefni kirkjunnar er rauður sandsteinn sóttur úr Byrðunni.

Nema hvað, hér fæ ég að dvelja í dásamlegri íbúð á vegum Guðbrandsstofnunar. Íbúðin er hrein og fín með öllu því nauðsynlegasta … Lesa meira

Ártölin sem þú manst

Að taka niður æviatriði um látið fólk og undirbúa þannig minningarorð með aðstandendum er í senn gefandi og vandasamt. Það eru raunar mikil forréttindi að fá að annast slíka þjónustu ekki síst þar sem hún er mjög menntandi fyrir prestinn. Fyrir manneskju eins og mig sem hafði oft nokkuð takmarkaða einbeitingu í skóla og átti til að sigla þöndum hugseglum inn í dagdraumana er mjög magnað að geta setið með fólki og hlustað á lífssögu ástvinar sem ég aldrei þekkti, án þess að missa úr eitt einasta orð. Ég hugsa að ef öll mín skólaganga hefði byggst upp á því að heyra ævisögur fólks þá hefði ég sennilega endað með a.m.k fimm háskólagráður. Þessar stundir sem eru nokkuð tíðar þar sem ég þjóna stórum söfnuði eru svolítið eins og örnámskeið í alþýðufræðum. Kynslóðin sem er fædd snemma á 20.öld er nú smátt og smátt að kveðja og þetta er fólkið … Lesa meira

Kárahnjúkaprédikun frá árinu 2006

 

Þessi ræða var flutt á Austurvelli eftir Ómarsgönguna í september árið 2006.

Einu sinni var til hús á Hólum í Hjaltadal sem nefnt var Auðunarstofa. Nafnið var dregið af biskupnum Auðunni rauða Þorbergssyni sem lét reisa húsið í biskupstíð sinni á Hólum á fjórtándu öld. Auðunn rauði kom frá Noregi og þegar hann var gerður að biskupi á Hólum lét hann byggja þess timburstofu sem var sú fyrsta og eina sinnar tegundar á Íslandi. Auðunn biskup hafði uppgötvað rautt berg í Hólabyrðunni sem er fjallið sem skýlir staðnum. Sami efniviður og notaður var fjórum öldum síðar í Hóladómkirkjuna sem stendur enn í dag. Auðunn fékk til liðs við sig steinsmið sem sótti grjótið úr hlíðum byrðunnar, flutti heim á sleða og hjó til á staðnum. Lét biskup m.a. útbúa steinofn úr grjótinu sem bar út reykinn og þótti það afar nýstárlegt og merkilegt fyrirbrigði á þeim tíma.

Auðunarstofa stóð … Lesa meira

Hungur

Já hér stend ég í þessari asnalegu jólapeysu og get ekki annað. Málstaðurinn er mikilvægur en með jólapeysuátakinu í ár stendur Barnaheill fyrir fjáröflun til styrktar forvarnarverkefni gegn einelti. Og nú er komið að því að efna loforðið um að messa í jólapeysunni sem er ættuð frá Dublin á Írlandi.

Einelti er einn þráðurinn í samskiptamynstri manna, góðu fréttirnar eru þær að hann er ekki rauði þráðurinn. Rauði þráðurinn er nefnilega kærleikur og þess vegna heldur mannkyn áfram að lifa og dafna. Lífið er í grunninn gott. Eineltið er hins vegar ekki svo langt frá rauða þræðinum, allar mannlegar tilfinningar eru á svo margan hátt samofnar, já rétt eins og myrkrið og ljósið sem er alltaf hlið við hlið, tilbúið að taka við hvort öðru. Jólaguðspjallið fjallar fyrst og síðast um samskipti og tengsl, þar segir frá fæðingu lítils drengs í fjárhúskofa en sá húsakostur var nauðlending þar sem þorpsbúar … Lesa meira

Dæja gamla

Lítil barnshönd læðir sér í lófa gömlu konunnar um leið og dyrnar að Oddeyrargötu 6 leggjast aftur. Ég er 7 ára á leið með Gerði ömmusystur minni niður á Amtsbókasafn, hún heitir Gerður en er kölluð Dæja líkt og miðsystir mín en ég kalla hana líka nöfnu þó hún sé það ekki í raun, þá finnst mér ég  eiga enn meira í henni. Svo kalla ég hana líka Dæju gömlu til aðgreiningar frá systur minni en ég geymi það lýsingarorð fyrir sjálfa mig, Dæja veit að hún er gömul enda komin yfir áttrætt, lítil og grönn með grátt fíngert hár, skarpa andlitsdrætti og augu sem virðast svo agnarlítil í gegnum þykk hornspangagleraugu. Í raun hefur mér alltaf þótt hún Nafna  svipa til Nóbelsskáldsins okkar og þó veit ég ekki til þess að nokkur skyldleiki sé þar á milli. En þó augun hennar Nöfnu virki lítil endurspegla þau stóra sál.

Dæja … Lesa meira

Forvitni gegn einelti

Við fæðumst forvitin. Ég held að það þýði að okkur sé ætlað að vera það. Stundum eru börn mjög óhefluð í forvitni sinni. Margir foreldrar hafa lifað pínlegar stundir í búningsherbergjum sundlauga þar sem barnið hefur t.d. bent og spurt hvort kallinn sé með barn í maganum. Þetta eru svona augnablik þar sem væri vel þegið að jarðskorpan myndi opnast og maður fengi að hverfa í móðurjarðarskaut, nakinn á líkama á sál. Við vitum samt að spurningar sem þessar eru ekki bornar fram af illsku heldur einlægum, óhefluðum áhuga fyrir lífsins undri. Þess vegna þurfum við bara að hjálpa börnunum okkar að stýra forvitninni í góðan farveg, því forvitni er svo mikilvæg, já eiginlega lífsnauðsynleg. Ekki skipta forvitni út fyrir skömm, það eru afleit býtti.
Forvitni er mikilvæg forsenda náinna tengsla, hún skapar nánd hjá fólki sem þarf, velur og vill vera samferða í þessu lífi. Þegar hriktir í stoðum … Lesa meira

Jólaljóð

Í heilagri ritningu er  hvergi getið um fæðingarþunglyndi Maríu meyjar.

Tilfinningalíf Jósefs er líka ráðgáta.

Engar heimildir um fortíð fjárhirðanna en barnleysi mun hafa hrjáð þann er grét mest við jötuna.

Um vitringana er sagt að þeir hafi lesið yfir sig í skóla og haft þráhyggju fyrir allskonar stjörnum, bæði á himni og jörðu.

Færri vita að Heródes var yndislegt barn, skýrleiks drengur, augasteinn móður sinnar.

Litlum sem engum sögum fer af sálarlífi gistihúsaeigandans, hann mun þó hafa glímt við félagsfælni og þess vegna neitað að opna dyrnar .

Barnið í jötunni er hins vegar enn í greiningu.

HEB… Lesa meira

Jólin og sorgin

Jól í skugga sorgar þurfa ekki að vera ónýt jól. Jól í skugga sorgar verða hins vegar að fá að vera það sem þau eru, ekki hvað síst ef þau eru fyrstu jól án látins ástvinar. Syrgjendur kvíða oft þessum fyrstu jólum, tilhugsunin um þau verður oft grýlukennd. Jólin setja sorgina í nýtt samhengi, ef hrúður hefur verið farið að myndast  á sárið er líklegt að jólin kroppi svolítið ofan af því. Suma langar eðlilega til að setjast upp í tímavél og lenda við upphaf þorra, því miður er það ekki í boði og kannski ekki svo miður, það koma nefnilega önnur jól eftir þessi jól og þá er kannski skárra að vera búin að ganga í gegnum þau fyrstu.Það er mikilvægt að gera plön fyrir þessi fyrstu jól, þurfa ekki að takast á við bæði óvissu og sorg, sorgin er viðráðanlegri án óvissunnar, það er svo merkilegt.

Sumir ákveða … Lesa meira

Að vera tapari á Íslandi

Margrét heitin Þórhallsdóttir ljósmóðir var jarðsungin frá Akureyrarkirkju í liðinni viku. Margrét er mörgum kunn hér í bæ enda átti hún langan og farsælan starfsferil að baki hér á sjúkrahúsi Akureyrar  í hlutverki sem var ekki bara vinnan hennar heldur köllun, starfið átti hug hennar og hjarta alla tíð.

Orðið ljósmóðir var ekki alls fyrir löngu valið fegursta orð íslenskrar tungu. Það get ég vel skilið enda yljar það inn að hjartarótum  á meðan t.d. orðið örbylgjuofn fær mann til að snögglega endurskoða þjóðerni sitt. Út frá fagurfræðilegu sjónarmiði er orðið ljósmóðir mjög sterkt en þó held ég að veruleikinn að baki því hafi ráðið meira um úrslitin en margan grunar. Ljósmóðir vinnur í fyrsta lagi alveg gríðarlega mikilvægt ábyrgðarstarf en svo er líka eðli starfsins þannig að nærvera hennar grópast í huga og hjarta tilvonandi og nýbakaðra foreldra. Ég mun aldrei  í lífinu gleyma ljósmæðrunum sem tóku á móti … Lesa meira