Skip to content

Author: Hildur Eir Bolladóttir

Mannanafnanefnd

Satt best að segja þá hef ég alveg gríðarlega trú á mannkyninu. Ég sinni þannig starfi að ég fæ aftur og aftur að reyna og sjá hvað fólk getur verið viturt og vel meinandi, kærleiksríkt og klárt. Eftir því sem árunum í preststarfinu fjölgar verð ég hreinlega bjartsýnni á framtíðina, mér finnst mannkyninu fara í heild sinni fram og nýjar kynslóðir bæta einhverju mikilvægu við það sem þegar hefur verið uppgötvað. Það má svo sem vera að ekkert sé nýtt undir sólinni en þó er ljóst að á hverri mínútu fæðist ný og einstök manneskja undir þessari sömu sól sem gefur fyrirheit um breytingar. Einmitt þess vegna þarf reglulega að endurskoða viðmið og gildi samfélagsins, þarfir og þjónustu eins og t.d. mannanafnanefnd. Ég efast ekki um að mannanafnanefnd hafi orðið til af einskærri umhyggju fyrir ómálga og ósjálfráða þegnum þessa lands sem eiga bara sakleysið eitt í hjarta sínu og … Lesa meira

Rauða myllan er í Sjallanum

Þó undirrituð hafi bæði starfað sem barþjónn í Sjallanum og stigið þar villtan en alls ekki hylltan dans, við undirleik helstu ballhljómsveita 10.áratugarins hefði mig aldrei grunað að Sjallinn gæti hreinlega breyst í Rauðu mylluna. Sjallinn er hins vegar magnað hús og þegar hæfileikar ungra menntskælinga bætast við getur hann orðið heill ævintýraheimur, því fékk ég að kynnast síðastliðið föstudagskvöld er ég  fór að sjá uppfærslu Leikfélags Menntaskólans á Akureyri á söngleiknum Rauða Myllan. Á vef MA kemur fram að leikgerðin sé í höndum nemenda sjálfra og Garúnar leikstjóra. Meira en 80 nemendur taka þátt í uppsetningunni með leik, söng, dansi, hljóðfæraslætti, leikmyndar og leikmunagerð, búningahönnun, hári og förðun. Þá eru sýningarstjóri og aðstoðarleikstjóri úr hópi nemenda sem og hljómsveitarstjóri og danshöfundur. Þá eru ótaldir tæknimenn, auglýsingahönnuðir og reddarar.

Sýningin hefst í raun við inngang Sjallans þar sem hátíðlegur þjónn tekur á móti gestum og vísar til sætis á íslensku … Lesa meira

Að fara til kvensjúkdómalæknis

Ég var 17 ára gömul þegar ég fór fyrst til kvensjúkdómalæknis, sú ferð var ekki blandin sömu spennu og þegar ég fór  t.d. á fyrsta sveitaballið í Miðgarði í Skagafirði. Spennan við að fara til kvensjúkdómalæknis var frekar svona kvíðablandin á meðan spennan við að fara í Miðgarð var bundin þeirri  von að komast á feitan séns og vanga við lagið „Ekkert breytir því“ með Sálinni hans Jóns míns. Þarna var s.s. um mjög ólíka spennu að ræða en ég lifði hvort tveggja af og þessi fyrsta heimsókn til kvensjúkdómalæknis reyndist á endanum auðveldari en ég hafði ímyndað mér.

Eftir barneignir urðu ferðir til kvensjúkdómalæknis jafn sjálfsagðar og hversdagslegar og sjóða fisk og kartöflur á mánudagskvöldi  meðan verðurskeytin óma í gufunni. Við barnsfæðingu breytist líkami manns nefnilega í lítið Louvre safn sem fullt af ókunnugu fólki skoðar með ábúðarfullum  svip. Þá þýðir ekkert að vera eitthvað spéhræddur, maður verður bara … Lesa meira

Flugstjóri, flóttamenn og frelsun brjósta

Að trúa á upprisuna er ekki spurning um rökræðu. Upprisutrú fæðist með lífsreynslu. Mér hefur alltaf þótt flókið að segja börnum píslar og páskasöguna og kannski vil ég að svo sé, það væri svo sárt að sjá lítið andlit kinka skilningsríkt kolli við að heyra um krossfestingu Krists og upprisu það segði mér að barnið væri búið að reyna meira en eðlilegt getur talist, eins og hún Hudea, litla fjögurra ára  stúlkan í Atmeth flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Þegar blaðaljósmyndari mundaði vél sína og hugðist taka af henni mynd rétti litla stúlkan upp báðar hendur til merkis um að hún gæfist upp. Hún hélt að ljósmyndarinn væri að miða á hana byssu. Myndin er nístandi opinberun þeirrar skelfingar sem þúsundir barna lifa við í okkar veröld.  Þessi stúlka myndi hugsanlega kinka kolli ef ég segði henni frá föstudeginum langa og píslargöngu Krists en ég vona svo heitt að hún fái líka … Lesa meira

Pensilín fyrir hjónabandið

Ég fæ stundum mentorpósta frá skólanum sem drengirnir mínir sækja þar sem farið er yfir  framgöngu þeirra og framkomu við samnemendur og kennara. Oftast eru þetta frekar jákvæðar fréttir en þó ekki alltaf, bara eins og gengur og gerist í mannheimum. Nema hvað, fyrir nokkrum vikum bárust mér þau tíðindi í gegnum mentor að eldri sonur minn sem er daglega í einhvers konar hormónarússi væri sí og æ að reka í górilluöskur í matsalnum svo mönnum brygði við. Fyrst þegar ég las þetta hugsaði ég með mér að þetta væri náttúrlega alvarlegt mál, það er vitað að ef fólki bregður mjög mikið meðan það er að matast þá er hættara við að það gleypi loft sem skilar sér aftur í stöðugum vindgangi þegar líða tekur á daginn.  Mér finnst vont að vita til þess að 13 ára sonur minn beri  ábyrgð á slíkum ófögnuði, ekki síst inn á heimilum sóknarbarna … Lesa meira

Kraftgallakynslóðin

Ég er af kraftgallakynslóðinni, það er kynslóðin sem hékk í bænum á föstudagskvöldum íklædd kraftgöllum með hálfs líters gosflöskur í hendi. Innvolsið var ýmist Kaptain Morgan í kók eða vodka í sprite. Kraftgallakynslóðin leiddi af sér foreldrarölt, mömmur og pabbar brugðu sér í skærgul vesti og gengu um bæinn til að hirða upp ælandi unglinga og senda þá heim í lögreglufylgd. Kraftgallar heyra næstum því sögunni til og unglingadrykkja hefur að sama skapi minnkað. Í  upphafi tíunda áratugarins var það næstum því samfélagslega samþykkt að íslenskir unglingar veltust kófdrukknir í snjósköflum og rúlluðu niður grasi grónar brekkur svo framarlega sem þeir voru bara sæmilegar klæddir, helst í kraftgöllum. Sumir foreldrar brugðu á það ráð að kaupa vín fyrir börnin sín svo þeir vissu hvað þau væru að drekka „ Jæja elskan hér er einn kraftgalli og vodkapeli, ekki drekka neitt sem þú veist ekki hvað er því það gæti verið … Lesa meira

Að ferðast um huga og heim

Ég var 13 ára þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda og þá til þriggja mánaða dvalar í Kaupmannahöfn. Pabbi hafði verið svo heppinn að fá aðstöðu í Jónshúsi til að sinna ritstörfum og við mamma fórum að sjálfsögðu með honum. Þetta var á miðjum vetri  og því varð það að samkomulagi milli foreldra minna og grunnskólans á Grenivík að ég fengi  frí með því skilyrði að ég sækti mér kjarngóða menntun í okkar gömlu höfuðborg. Það má kannski segja að þar hafi ég fetað í fótspor Fjölnismanna og fleiri merkra Íslendinga þó svo að eina sjálfstæðisbaráttan sem ég háði á þessum aldri sneri helst að notkun augnfarða sem pabba fannst náttúrlega hinn mesti óþarfi miðað við minn aldur og fyrri störf í sveitinni. Ég held reyndar að magn augnfarðans hafi eitthvað spilað inn í þessa baráttu. Pabbi hélt því staðfastlega fram að það væri bara Öskudagur einu sinni … Lesa meira

Hvernig ertu af geðhvarfasýkinni?

Eftir að pabbi var orðinn veikur af heilabilun fórum við fjölskyldan eitt sinn með honum á kaffihús í Reykjavík enda var sælkerinn seint frá honum tekinn þó minni og tjáning og hreyfigeta væru ekki eins og best verður á kosið. Pabba fannst alltaf svo gott að borða góðar tertur og drekka lútsterkt kaffi og ekki þótti honum síðra að njóta slíkra lystisemda með nánustu fjölskyldu, fólkinu sem elskaði hann bara fyrir það eitt að vera til. Þá sat hann þögull og hlustaði á skvaldrið í okkur og kímdi þegar hlátrasköllinn og vitleysisgangurinn var kominn yfir „eðlileg“ mörk, hann þekkti sitt fólk af andrúmsloftinu þó nöfnin væru farin að skolast til. Óöryggi er eitt af einkennum þessa sjúkdóms sérstaklega á fyrstu stigum þegar sjúklingurinn áttar sig enn á ástandi sínu, þá skiptir mjög miklu máli hvernig honum er mætt. Verst er að láta hann geta í eyðurnar og spyrja hvort hann … Lesa meira

Hundalíf

Á dögunum dvaldi ég í Hamburg í Þýskalandi. Hamburg er fögur borg, hrein og tignarleg með fjölskrúðugt mannlíf og frábæra hundamenningu. Nú gerðist ég sjálf hundaeigandi fyrir um ári síðan er við festum kaup á hvítum Golden retriever hvolpi sem hefur tekið út sinn vöxt á vor og sumartíð og ber nafnið Kári. Kári er mikill gleðigjafi í okkar lífi, hann er hæglátur miðað við aldur, blíður á svip og ekkert alltof hugumstór né ákafur til verka (dregur nokkuð dám af eigendum sínum). Áður hafði ég bara átt hunda í sveit sem hlupu frjálsir um tún og engi og syntu í ánni þegar snjóa leysti. Það er allt önnur saga. Að eiga hund í bæ er nefnilega svolítið eins og að vera smitberi fuglaflensu, þ.e.a.s. þegar hundurinn er annars vegar og samt er nú Kári frekar mikill sjarmör. Hér á landi eru hundar undantekningarlaust í bandi og hafa færri staði … Lesa meira

Að missa æruna

Að ástvinum undanskildum er æran sennilega það sem við óttumst mest að missa. Þessi ótti grópast í sál okkar um leið og við uppgötvum að við erum einstaklingar en ekki framlenging á foreldrum okkar. Óttinn um að tapa ærunni er sammannlegur, hann fer ekki í kyngreiningu, stéttskiptingu eða spyr um vegabréf, hann er heldur ekki nútímavæddur eða tekjutengdur. Óttinn um að missa æruna er eitt algengasta stef kvikmyndasögunnar næst á eftir ástinni. Það hefur sálgæslugildi fyrir okkur mannfólkið að horfa á bíómynd þar sem aðalsögupersónan tapar ærunni og finnur hana aftur við sögulok. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem við vinkonurnar horfðum á söngleikjamyndina Grease í æsku rétt u.þ.b. sem fyrstu fílapenslarnir tóku að raða sér á nefbroddinn eins og flugnaskítur á hvítum kirkjuvegg. Þetta var auðvitað á tímum vídeótækjanna og við höfðum fyrir því að spóla aftur og aftur að þeim stað í myndinni þar sem Sandy … Lesa meira