Nú er hann sautjándi júní tekinn að reskjast,
hendurnar sinaberar
hárið grátt og þunnt,
andlitið markað lifuðu lífi.
Hann man hvar hann stóð þennan dag
fyrir rúmum sjötíu árum
er fáninn var dreginn að hún
og klukkum kirkjunnar hringt
af slíkri áfergju
og frelsisþrá
að kólfurinn titrar enn.
Nú lítur sá gamli stoltur
yfir litríkan hóp
sjálfstæðra afkomenda,
sér samkynhneigða syni
leiðast hönd í hönd
inn kirkjugólfið
með ástarblik í augum,
heyrir þeldökka dóttur tala íslenskt mál
eins og skagfirskur bóndi
í Laufskálarétt.
Forvitinn fylgist hann með jafnöldrum sínum
spila golf
og klífa fjöll
með undrandi barnabörn í eftirdragi.
Hann sér þingmenn í rifnum gallabuxum
og presta í brjóstahöldurum
og heimili sem eru grá og hvít eins og íslenska veðrið
þar glittir í eitt og eitt eilífðar smáblóm
og Jón heitinn í lit.
Hann sér þetta allt
blessaður öldungurinn
og brosir
þar sem hann svífur yfir bænum
á hátíðlegri helíumblöðru… Lesa meira
prestur